Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 12:47:36 (2812)


[12:47]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lífræna framleiðslu landbúnaðarvara. Fyrstu hugmyndir um lífrænan landbúnað má rekja aftur til fyrri hluta þessarar aldar þegar menn eins og dr. Steiner komu fram með þær skoðanir að heilbrigði mannsins væri betur tryggt með neyslu grænmetis þar sem ekki væri notaður tilbúinn áburður eða önnur tilbúin varnarefni við framleiðsluna.
    Á seinni árum hefur framleiðsla lífrænna landbúnaðarafurða aukist víða um heim og talið er að um það bil 3% grænmeti sem er neytt í nágrannalöndum okkar sé lífræn framleiðsla og hefur farið vaxandi. Eins er spáð vaxandi eftirspurn eftir slíkum vörum á heimsmarkaði. Hér á landi hefur framleiðsla lífrænna landbúnaðarafurða átt sér stað hjá fáeinum bændum um nokkurra ára skeið en aðeins í litlum mæli. Fyrst með stofnun félags bænda í lífrænni framleiðslu á fyrri hluta ársins 1993 og með frekari umræðum á ráðunautafundi Búnaðarfélags Íslands og Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins komst skriður á almennar umræður hvernig íslenskur landbúnaður geti hagnýtt sér þennan nýja og vaxandi geira innan landbúnaðarins.
    Einnig má minna á alþjóðaráðstefnu um umhverfismál og sjálfbæra þróun, lykilhlutverk bænda, sem haldin var hér á landi 1991 og vakti marga til umhugsunar um þessi mál.
    Þessar hugmyndir um lífræna framleiðslu falla mjög vel að áhuga um umhverfisvernd og þróun svokallaðrar grænnar hugmyndafræði. Jafnframt er hér stefnt að sjálfbærum búskap í sátt við náttúruna eins og sett er fram í dagskrá 21 frá umhverfis- og þróunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó 1992.
    Hér á landi eru á margan hátt ákjósanleg skilyrði til framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða og eins og nefnt er hér að framan hafa fáeinir bændur nú þegar aðlagað búskap sinn að þessari framleiðsluaðferð og margir sýna henni áhuga. Hér hefur skort reglur um þessi efni en slíkar reglur eru algengar víða um lönd.
    Snemma á þessu ári skipaði ég nefnd til að hefja samningu reglugerðar um íslenska lífræna landbúnaðarframleiðslu er tryggi að slíkar vörur séu framleiddar á viðurkenndum, lífrænum býlum og markaðssettar undir ákveðnum opinberlega viðurkenndum lífrænum vörumerkjum. Nefnd þessi er undir formennsku Brynjólfs Sandholts yfirdýralæknis og skipuð fulltrúum hagsmunaaðila og fagstofnana. Verki þessu miðar vel áfram en reglugerðin verður mjög ítarleg og mun fjalla um öll framleiðslustig, allt frá jarðvegi og búfé sem og vinnslu, dreifingu og eftirlit. Tilgreindar verða lágmarkskröfur til lífrænna búskaparhátta

innan grunnreglna alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga og í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins nr. 2092/91. Þannig hafa verið hafðar í huga kröfur bandarískra heilbrigðisyfirvalda varðandi framleiðslu á búfjárafurðum án notkunar fúkalyfja eða hormóna. Til hliðsjónar eru jafnframt hafðar reglur um lífræna framleiðslu frá Norðurlöndum, Bretlandi og Norður-Ameríku.
    Lífrænar vörur eru í flestum tilfellum greiddar hærra verði en almennt gerist enda lögð mikil áhersla á umhverfisvernd við framleiðsluna og markaðssetningu hæstu gæða á verðflokkum. Því er óhætt að fullyrða að það er bæði hagur framleiðenda og neytenda að viðurkenndar reglur um lífræna landbúnaðarframleiðslu taki gildi hér á landi sem fyrst.
    Við könnun á margvíslegum gögnum um lífrænan landbúnað, svo sem ýmsum erlendum reglugerðum og stöðlum, er niðurstaðan sú að setning reglugerðar um þessi efni sé vænlegasta leiðin til að tryggja stöðu þessara nýju framleiðsluaðferða hér á landi en til þess skortir lagastoð. Því er þetta frv. flutt. Frv. er samið í landbrn. Samhliða samningu reglna um lífræna landbúnaðarframleiðslu hef ég látið gera faglega úttekt á skilyrðum og stöðu þessarar framleiðslu hér á landi og vil ég sérstaklega nefna nafn Ólafs Dýrmundssonar í þessu sambandi en hans áhugi og sérfræðileg aðstoð hefur verið ómetanleg í þessu starfi öllu.
    Frv. það sem hér er lagt fram hefur ekki að geyma ítarlegar reglur um framleiðslu lífrænna landbúnaðarafurða heldur aðeins nauðsynleg ákvæði sem verða nánar útfærð með reglugerð eins og áður hefur komið fram. Gert er ráð fyrir að opinbert eftirlit með þessari framleiðslu verði sem einfaldast í sniðum, en þó nægilega traust til að standast fyllstu kröfur innan lands sem utan. Fjárlagaskrifstofa fjmrn. hefur fengið frv. til umsagnar og telur hún að kostnaðarauki ríkissjóðs verði óverulegur þar sem allur kostnaður við vottun og faggildingu samkvæmt frv. muni greiðast af framleiðenda.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta frv. fleiri orð, hæstv. forseti, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og landbn. Ég veit að áhugi þingmanna fyrir þessu máli er mjög mikill og ríkur og hlýt að láta í ljósi þá von að það takist að afgreiða frv. á þessu þingi.