Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:20:14 (2887)



[15:20]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Auk þess sem hefur komið fram er tvennt sem krefst þess að fjallað sé nokkuð ítarlega um áður en þingið getur farið í jólaleyfi. Annað er sú staða sem smátt og smátt er að koma í ljós varðandi fjármögnun ríkissjóðs, þann brest sem virðist vera á markaðnum gagnvart verðbréfum ríkissjóðs, sérstaklega spariskírteinum ríkisins og horfurnar sem eru í þeim málum á fyrstu mánuðum næsta árs þar sem verulega stór hluti kemur til innlausnar. Satt að segja er það þannig að staða ríkisverðbréfanna á

markaði virðist nánast vera hrunin. Það er í mjög mikilli mótsögn við yfirlýsingar hæstv. forsrh. í stefnuræðunni í byrjun þings og yfirlýsingar fjmrh. í haust. Ég vil þess vegna fara fram á það að í tengslum við þessi dagskrármál geri hæstv. fjmrh. mjög ítarlega grein fyrir því hvernig staðan er varðandi sölu ríkisverðbréfa nú á undanförnum mánuðum og horfurnar á næstu mánuðum.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, verður að fjalla um sjúkraliðaverkfallið. Það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin svari því í þingsalnum áður en þingið fer í jólaleyfi hvað stjórnin hyggst gera til að leysa þetta verkfall, eða hvort það er virkilega afstaða ríkisstjórnarinnar að láta jólin ganga í garð og hátíðahöldin sem eru fram undan án þess að einhver alvarleg tilraun sé gerð af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að leysa verkfallið. Ég óska eftir því sérstaklega að utandagskrárumræða fari fram við hæstv. forsrh. sem fulltrúa ríkisstjórnarinnar í þessu máli varðandi sjúkraliðaverkfallið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að leysa það á næstunni.
    Að lokum, virðulegi forseti, skil ég starfsskrá þingsins þannig að ekki sé ætlunin að afgreiða GATT-samninginn fyrir áramót og það eru auðvitað töluverð tíðindi fyrst svo er vegna þess að á fundi formanna þingflokka og forseta í dag kom fram að GATT-málið er ekki á verkefnaskrá þingsins fyrir áramót.