Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:16:22 (2922)



[15:16]
     Matthías Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér fylgja skýringar við einstaka breytingartillögur frá fjárln. Þar er ætlað framlag vegna erfiðleika sauðfjárræktar héraða. Ég tel að þetta sé tilkomið vegna þess að ákvæði eru í viðauka við búvörusamning um það að Byggðastofnun sé falið að úthluta því fjármagni enda hefur farið fram mjög ítarleg athugun á erfiðleikum sauðfjárræktunar og ég tel að það eigi auðvitað að eyrnamerkja af því.
    Hitt atriðið sem ég furða mig á er það framlag sem á að veita smábátaeigendum og í lok þess segir í þessari greinargerð: ,,Byggðastofnun er ætlað að gera fjárln. Alþingis sérstaka grein fyrir ráðstöfun þessara fjármála.`` Hvenær hefur þetta áður gerst? Af hverju tekur þá fjárln. ekki bara ákvörðun um að ráðstafa þessu fjármagni? Mér finnst þetta svo furðulegt frá hendi þessarar fjárln. að ég vil ekki taka neitt slíkt yfir á hendur Byggðastofnunar að hafa fjárln. sem einhvern yfirboðara þeirrar fjárúthlutunar. Hún heyrir undir ákveðið ráðuneyti sem er forsrn., hvorki meira né minna, og hún hefur þingkjörna stjórn en er fjárln. orðin yfir þessu öllu, bæði því sem Alþingi kýs og líka yfir forsrn.