Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:20:37 (2924)


[15:20]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Við erum búin að bíða eftir því í nokkra daga að hv. fjárln. skilaði fjáraukalagafrv. hingað til umfjöllunar. Það hefur ekki verið haldinn fundur í dag fyrr en kl. 3 til þess að hægt væri að taka þessi mál fyrir. Um leið og formaður fjárln. hefur lokið máli sínu rísa upp formenn tveggja nefnda í þinginu, formaður sjútvn. og formaður landbn., og mótmæla meðferð fjárln. og efnisatriðum þeirrar afgreiðslu sem á að fara fram. Ef það er virkilega þannig að staðan í stjórnarliðinu sé með þeim hætti að hvorki formaður sjútvn., hv. þm. Matthías Bjarnason, né formaður landbn., hv. þm. Egill Jónsson, geta unað þeirri afgreiðslu sem formaður fjárln. er að kynna nær auðvitað ekki nokkurri átt að halda umræðunni áfram heldur verður að gera hlé á henni þannig að þingmenn geti áttað sig á þeirri einstæðu stöðu sem hér er komin upp að stjórnarmeirihlutinn er að skila fjáraukalagafrv. inn í þingið sem formenn sjútvn. og landbn. geta ekki unað. Það hefur ekki gerst fyrr við afgreiðslu fjáraukalaga að tveir mikilvægir trúnaðarmenn ríkisstjórnarflokkanna séu fyrstir manna í ræðustól til að mótmæla meðferð stjórnarmeirihlutans í fjárln. á annars vegar málefnum landbúnaðarins og hins vegar þeim þáttum í sjávarútvegsmálum sem hér er vikið að. Ég tel það auðvitað ekki ná nokkurri átt að ætla að halda svo áfram umræðum um þetta mál eins og ekkert hafi í skorist, eins og það séu bara léttvæg orð þegar formaður landbn. og formaður sjútvn. mótmæla forsendum og efnisinnihaldi stjórnarmeirihlutans í fjárln. varðandi þetta fjáraukalagafrv.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, beina þeim tilmælum eindregið til forsetans að það verði gert hlé á umræðunni svo að aðrir þingmenn geti áttað sig á því hvað hér er að gerast. Ég verð að segja alveg eins og er að mér kom fullkomlega á óvart að þessir tveir trúnaðarmenn ríkisstjórnarflokkanna, formenn landbn. og sjútvn., hefðu ekki verið hafðir með í ráðum varðandi meðferð þessara þátta. Hér væri verið að kynna afgreiðslu fjáraukalagafrv. sem væri einkamál þeirra þingmanna stjórnarflokkanna sem sitja í fjárln. en væri ekki um að ræða sameiginlega afstöðu stjórnarflokkanna í heild. Það er þess vegna óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að við aðrir þingmenn fáum tækifæri til að skoða þessa stöðu sem er komin upp áður en umræðan heldur áfram og ég mælist til þess, virðulegi forseti, að það verði gert hlé á umræðunni svo að við getum áttað okkur á þeirri stöðu sem er komin upp.