Útflutningur hrossa

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:07:12 (2950)


[17:07]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Við 2. umr. um svo merkilegt mál er ekki annað hægt en að segja hér örfá orð. Ég hygg að flestum sé það ljóst sem fylgst hafa með hrossaræktinni á síðustu árum að í henni liggja nýir og miklir möguleikar þannig að ég vænti þess að það frv. sem hér er að fá framgang á Alþingi verði einmitt til þess að styrkja hestamennskuna og íslenska hestinn sem atvinnutækifæri í íslenskum sveitum. Það má líka segja að auðvitað er hesturinn ekki bara eign sveitamannsins því það gildir um hann það sama og íslenska hundinn að þessar tvær tegundir dýra eru sameign þjóðarinnar, fólksins sem í þéttbýlinu býr og ekki síður fólksins í sveitunum. Og íslenski hesturinn vinnur það afrek að sameina íslensku þjóðina á mörgum stundum.
    Það er mikilvægt að hafa lagaramma í kringum útflutning á hestinum, bæði að þar sé allra hluta gætt sem mikilvægir eru. Að vísu má segja að allar athugasemdir hafi kannski því miður ekki verið teknar til greina. Ég minnist nokkurra athugasemda frá fyrrv. yfirdýralækni, Páli Agnari Pálssyni, sem ekki náðu allar fram.
    Í framhaldi af því að þetta mál kemst áfram þá er líka mikilvægt að huga að ýmsu hér innan lands og ég vil minnast á það hér. Ég hef t.d. tekið eftir því að fátt hefur gert íslenskri hestarækt meira en starfsemin í Gunnarsholti þar sem kynbótahestar hafa verið í umhirðu fagmanna og tamdir þar og þar hafa farið fram einhver merkilegustu mannamót á vorin þegar þessir folar eru sýndir á hinum víðu lendum Suðurlands. Það var nú gaman að sjá þá taka skeiðsprettinn, hv. þm. Egill Jónsson. ( Gripið fram í: Það er fyrir norðan líka.) Sjálfsagt er víða hægt að hleypa góðum gæðingi, en þetta hafa verið hin merkilegustu

mannamót. Og mér kemur það til hugar að vissulega hafa íslenskir bændur og þeir sem unna íslenska hestinum ákveðnar áhyggjur um þessar mundir og kannski var skaði að koma því ekki inn í þetta frv. Þar á ég við það að menn sjá það fyrir sér að hér verður að standa rétt að stofnrækt og athugunum á íslenska hestinum. Þess vegna er það kannski stærsta spurningin sem var rædd í landbn. hvernig farið yrði með stofnræktarsjóðinn þegar til kæmi. Því sannleikurinn er sá að það blasir við að ekki síst Þjóðverjar, sem eru mjög sterkir áhugamenn um íslenska hestinn, munu gera sér grein fyrir því að í ungviðinu liggur framtíðin. Þeir sem huga að kaupum á besta ungviðinu munu ná lengst í framtíðinni. Þess vegna er kannski ótti margra manna nú sá að útlendingar muni ná að kaupa héðan efnilegustu folöldin á haustin. Þess vegna hafa hestamenn, það mun vera Bjarkar Snorrason, bóndi á Tóftum, sem setti þá hugmynd fram að nýta þennan stofnsjóð sem hér er rætt um, stofnræktarsjóð, ekki síst kannski í því skyni að kaupa efnilega fola inn á stöðina í Gunnarsholti og ná þannig meiri hraða í ræktunarstarfið.
    Svo er mér það auðvitað kappsmál að sú starfsemi sem verið hefur í Gunnarsholti fái með einhverjum hætti sterkar fætur, ef það má orða það svo, eða það verði lagður virkilegur grunnur að því að sú starfsemi megi þar vera áfram. Ég held að það sé afar mikilvægt og mér finnst að það hljóti að vera verkefni landbn. í samráði við hestamenn og fleiri aðila, landbrn., að þróa það mál áfram. Heyrst hefur stundum að menn vilji fara með allt þetta starf eitthvert annað. Ég minnist nefnilega átaka hér um annað mál sem var reiðhöllin í Reykjavík, sem urðu harkaleg átök um á þingi fyrir 15 árum. Þá munu flestir þingmenn hafa verið þeirrar skoðunar að fara með það verkefni norður að Hólum, en þá var það vinur minn Ólafur Þ. Þórðarson, sem yfirleitt sá lengra en aðrir menn hér í þinginu, sem vakti athygli á því að þessi starfsemi yrði auðvitað að vera í Reykjavík til þess að kenna unga fólkinu og hafa miðstöð í sölu þar sem útlendingarnir gætu komið og séð þetta íslenska gersemi. Þess vegna náði hans skoðun loks fram og sem betur fer var þessi bygging reist hér.
    En mér finnst, og vildi þess vegna minnast á þetta mál hér, ekkert síður mikilvægt að huga að því hvernig má styrkja það starf sem farið hefur fram í Gunnarsholti, á stóðhestastöðinni þar, til frambúðar og vil skora á hv. formann landbn. að sinna því verkefni áfram í vetur, að við megum ná einhverjum tökum þar. --- Hæstv. landbrh. gengur nú hér fram hjá ræðustólnum og er hann ekki lítið atriði, hæstv. ráðherra, í því að þar verði farið að með myndarlegum hætti. Ég vænti þess að hann geri sér grein fyrir því að hestaræktin er kannski eitt stærsta tækifæri sem aukabúgrein um sveitir landsins og þess vegna verður hann í samráði við hagsmunafélög og í gegnum þingið og ráðuneyti sitt að ná mikilli samstöðu um þetta mál.
    Ég læt nú ræðu minni lokið, hæstv. forseti. Ég mun styðja þetta mál eins og samstaða náðist um það. Ég minnist kannski á eitt atriði sem ég náði ekki fram á lokafundi nefndarinnar, sem sneri að því atriði með gjaldtökuna af útflutningshestum. Ýmsir hestamenn hafa auðvitað áhyggjur af því og töldu kannski eðlilegra að taka hærra gjald af kynbótahestum og kynbótahrossum yfir höfuð heldur en að leggja jafnan og flatan skatt á öll hross jafnt. Sannleikurinn er nú sá að meðalhesturinn, geldingurinn og svona ómerkilegri hryssur sem verið er að selja úr landi, þær þola ekki mjög mikið. Svo má auðvitað vekja athygli á því að hæstv. landbrh. hefur líklega ekkert gert í því atriði sem væri mikilvægast fyrir hestamennskuna og snýr að EB, því ég hygg að hér séu tollar úti í Evrópu upp á 25--30% sem falla á hestinn og takmarka þessa framgöngu hans inn í Evrópu. Það var nú svo þegar hæstv. utanrrh. fékk fullt frelsi til að semja um ótakmarkaðan innflutning á garðyrkjuvörum á ákveðnum tímum, þá höfðu hvorki hæstv. landbrh. né hv. þm. Egill Jónsson burði í sér til þess að taka þó eitt svona stórt atriði upp á móti, að gegn því yrði þá kannski hliðrað til og staðið hér með hestaræktinni í landinu og þessir tollar felldir niður.