Útflutningur hrossa

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:25:51 (2954)


[17:25]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það sem kannski kemur manni á óvart þegar eitt glæstasta tækifæri sem manni finnst að blasi við í nýsköpun í íslenskum landbúnaði kemst hér á dagskrá er að þá kemur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson upp til þess að tala um fjármál, til þess að tala um peninga, til þess að tala um skattsvik. Slíkt þarf auðvitað engum að koma í sjálfu sér á óvart því hann þekkir ekki hinar miklu víðáttur, t.d. Suðurlandsundirlendið, þar sem menn geta þeyst um á glæstum gæðingi, hnarreistum. Hann kemur úr kargahrauni Reykjaneskjördæmis. ( ÓRG: Viltu tala varlega um afa minn sem var bóndi í Árnessýslu.) Hv. þm. minnist nú sem betur fer afa síns sem var ágætur hestamaður, bæði í Flóa og síðar vestur í Borgarfirði og margir menn minnast enn í mínu kjördæmi og var hinn mætasti maður og bjó í minni sveit, að vísu löngu

fyrir mína daga.
    Hvað varðar t.d. skattsvikin þá minntist hann hér á einn ágætan þingmann, hv. þm. Svavar Gestsson, sem á marga rennilega hesta. Ég hef auðvitað ekki farið yfir hans skattskýrslu, en ég tók eftir því að hann fékk hest í afmælisgjöf í sumar og væri ég fjmrh. þá mundi ég rannsaka það mál alveg sérstaklega. Svona eru mörg atriði sem verður að hafa í huga.
    En hv. þm., ég hygg að hin nýju bændasamtök verði þannig skipulögð (Forseti hringir.) að þetta verði ein samfylking. (Forseti hringir.) Það verði fagfélag og það verði stéttarsamband innan þess, hæstv. forseti, og það eigi ekki að rugla þau atriði (Forseti hringir.) sem hér eru nefnd í því sambandi í frv.