Lánsfjárlög 1995

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 23:59:59 (2982)


[23:59]
     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi það að verið sé að ausa peningum út og nota þennan bata sem er að koma til þess að eyða honum fyrir fram þá vil ég mótmæla því. Ég tel að mjög margt af því sem verið er að gera núna einmitt fyrir jólin, þ.e. að taka á hlutum sem hafa kannski svona hefðbundið séð verið látnir bíða og menn hafa verið að taka kannski sjens á. Ég nefni t.d. að það er verið að nota núna tækifærið til að gefa Stofnlánadeild landbúnaðarins tækifæri til þess að breyta lausaskuldum bænda í föst lán og lengri lán. Það er verið að nota svigrúmið til þess. Ég hygg að það sé góð ráðstöfun. Það er líka verið að gera upp þetta Sæfaramál, sem búið er að dankast hérna árum saman og er kominn tími til að sé gert upp með einhverjum hætti. Það þarf að sjálfsögðu, eins og hv. þm. bendir á, að gera upp mál eins og með Flugstöð Leifs Eiríkssonar þannig að það fáist einhver framtíðarlausn í þetta. Það er einmitt það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera og hefur verið viðfangsefni núna í umfjöllun þingsins um fjárlagafrv., að koma þessu málum sem mest á hreint þannig að það sé sem hreinast borð þegar gengið verður til kosninga og næsta ríkisstjórn tekur við.