Verkfall sjúkraliða

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 16:44:39 (3045)

[16:44]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Við stöndum núna frammi fyrir því að hér hefur verið um skeið hjá mikilvægri heilbrigðisstétt eitt lengsta verkfall sem sögur fara af í verkalýðsbaráttunni á Íslandi. Hjá láglaunastétt sem er þannig stödd að hún hefur ekki haft neinn verkfallssjóð og hefur þurft að efna til safnana sérstaklega og hefur mætt óvenjumiklum stuðningi. Það er alveg greinilegt að sú alvara sem birtist þannig í stuðningi við sjúkraliða og í baráttu þeirra er í hróplegri mótsögn við alvöruleysið sem birtist af hálfu ríkisstjórnarinnar, alvöruleysið sem birtist í samþykktum Sjálfstfl. fyrir nokkrum vikum, alvöruleysið í yfirlýsingum hæstv. heilbrrh. um að það sé hægt að leysa þessa deilu, alvöruleysið sem birtist í yfirlýsingum hans fyrir nokkrum vikum í umræðum utan dagskrár um að hann mundi beita sér fyrir lausn þessarar deilu þar sem bersýnilegt er að hann hefur ekkert gert, alvöruleysið sem birtist hjá samninganefnd ríkisins, sem m.a. gerði tilboð til sjúkraliða í gær um menntunarfyrirkomulag sem hafði verið gert árið 1982 og samþykkt þá þegar, að ég tali nú ekki um alvöruleysið sem birtist hjá samninganefnd ríkisins þegar hún þóttist ekki skilja tillögur og kröfur sjúkraliða í þrjár vikur.
    Hér hefur verið haldið illa á málum og það er útilokað annað en krefjast þess að þessir hæstv. ráðherrar, ef þeir vilja standa undir nafni, grípi tafarlaust til aðgerða til að tryggja lausn á deilunni núna fyrir jól.
    Ég tek undir það með hv. þm. Guðna Ágústssyni að auðvitað á hæstv. forsrh. nú þegar að taka fram fyrir hendurnar á hinum alvörulausu samverkamönnum sínum og knýja fram lausn deilunnar og það tafarlaust.