Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:47:23 (3100)


[22:47]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vitnaði í þær tölur sem mér voru gefnar upp um þann kostnað sem leggst m.a. á hrein sauðfjársvæði sem hafa verið skilgreind svo á Suðurlandi og ég tel að það sé ekki rétt leið að fara að leggja nýjan skatt á sláturleyfishafa á slíkum svæðum til þess að koma þeim upp í það sem hægt er að finna hæst þar sem annars staðar er.
    Að sjálfsögðu er engin nauðsyn til þess að sláturleyfishafar greiði þennan skatt, ekki samkvæmt reglum Evrópskra efnahagssvæðisins. Það á að fara að greiða þetta úr ríkissjóði og ég tel mig geta fullyrt að ekki yrði fundið að því þó að þetta gjald yrði ekki innheimt af sláturleyfishöfum til þess að greiða þessa þjónustu og reyna auðvitað flest lönd í kringum okkur að gera það, þ.e. að styrkja sinn eigin atvinnurekstur með því að greiða fyrir þá þjónustu, þessar grænu greiðslur sem talað er um að verði leyfilegar. Eftir þeim tölum sem ég hef upp gefið frá stærsta sláturleyfishafanum þar sem er svo fjarri öllu lagi að þessi tala sé sambærileg við raunverulegan kostnað, sem er settur þarna fram, þá hlýt ég að mótmæla því. Ég vil líka undirstrika að ég tel að það sé ekki sjálfsagður hlutur að sauðfjárbændur greiði fyrir það þó að reynt verði betur að fylgjast með eftirliti, með hreinlæti og kostum framleiðslunnar.