Fjárlög 1995

66. fundur
Miðvikudaginn 21. desember 1994, kl. 22:51:42 (3102)


[22:51]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mat okkar hæstv. landbrh. er misjafnt á hlutunum. Hann kallar að meira en 200% hækkun sé pínulítill mismunur. Ég tel að það sé mikil hækkun. Hæstv. landbrh. sagði hér áðan að þessi skattlagning ætti að vera til nýrra verkefna meira en til heilbrigðiseftirlits í sláturhúsunum hjá dýralæknum. Það ætti að vera til þess að fara að standa undir nýjum verkefnum. Og ég sem sagt tel að ríkið eigi að veita slíka þjónustu án þess að leggja nýjar og sérstakar álögur á sauðfjárbændur. Þvert á móti, eins og ég sagði áður, er það bráðnauðsynlegt til þess að koma sauðfjárbændum út úr þeirri gífurlegu kreppu sem þeir eru komnir í og er meiri kreppa en nokkur önnur stétt í landinu hefur lent í á tímabili þessarar ríkisstjórnar þá er nauðsynlegt að veita þeim stuðning en ekki að leggja á þá nýja skatta.