Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 15:20:44 (3167)


[15:20]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir sem hér hafa tekið til máls að óska hv. þingmönnum og forseta gleðilegrar hátíðar.
    Hv. þm. spurðist fyrir um tillögu sem flutt var og samþykkt við fjárlög og varðaði hugsanleg kaup eigna Rafveitu Akraness, Borgarness, Andakílsárvirkjunar og fleira. Sú grein er í 6. gr. fjárlaga fyrir næsta ár, er tiltölulega opin, getur gengið reyndar í báðar áttir, ekki einungis yfirtaka á þessum eignum eða kaup heldur einnig að lagt sé inn í sérstakt félag eignir Rafmagnsveitna ríkisins. Til þess er ekki tekin afstaða í sjálfri greininni. Ég hef rætt það við starfsmenn fjmrn. hvort eðlilegt sé að taka inn heimildargrein í lánsfjárlagafrv. en það er talið að þess þurfi ekki. Það sé nægilegt að styðjast við 6. gr. heimildina en ef til samninga kemur verði að sjálfsögðu að leggja þá fyrir Alþingi og það verður þá væntanlega tekið inn í lánsfjáraukalögum á næsta ári.
    Greinin er nokkuð óvís og reyndar ekki nokkur leið að setja inn slíka heimild í lánsfjárlögin að það svari til þessarar greinar. Fyrr þurfa viðræður að vera skýrari og tillögur skýrari en 6. gr. heimildin gefur tilefni til.