Lánsfjárlög 1995

67. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 17:43:55 (3185)


[17:43]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. gefst væntanlega tækifæri síðar til þess að útskýra nánar fyrir mér ástæðurnar fyrir því að menn telja rétt og skylt enn þá að halda með handafli 5,0% markinu varðandi innlendu spariskírteinin meðan ECU-bréfin sveiflast eins og raun ber vitni. Ég hef ekki enn fengið skýringu á því og ég held reyndar að sú skýring sé nokkuð flókin og að nokkru leyti sálfræðileg, ótti við það að hér séu einhverjir stórir aðilar úti í bæ sem hafi það að markmiði að brjóta niður vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar og það gerir það að verkum að menn haldi þessu dauðahaldi í 5,0% markið, sem að mínu mati er orðið skaðvænlegt fyrir innlendan lánamarkað.
    Varðandi aftur Búnaðarbankann þá greinir okkur hæstv. fjmrh. einfaldlega á. Ég er þeirrar skoðunar að eignarhald á ríkisbönkunum og hvernig því sé ráðstafað sé í raun stórpólitísk ákvörðun og miklu meiri ákvörðun en svo, jafnvel að breyttum lögum um bankann, að það verði gert með einfaldri heimild í 6. gr. fjárlaga. Það er hins vegar afar athyglisvert að þetta komi fram í umræðunni og það segir okkur hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn umgengst þessar sameiginlegu eigur okkar og þann vilja sem hefur staðið að baki þess að búið er um hluti eins og þeir eru á hverjum tíma með mikilli léttúð að ætla einfaldlega að setja að breyttum lögum inn í 6. gr. fjárlaga ákvæði um sölu ríkisbankanna.