Um fundarstjórn forseta.

68. fundur
Þriðjudaginn 27. desember 1994, kl. 23:20:01 (3230)


[23:20]
     Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það þurfi að koma skýrt fram sem reyndar hefur verið gert að hluta til að tillagan er flutt af meiri hlutanum sem reyndist að vísu í þessu tilviki ekki vera nema fjórir menn því einn af stjórnarliðunum kaus að standa ekki að flutningi brtt. En þetta er hluti af breytingartillögum meiri hlutans við frv. til lánsfjárlaga og 2. liður brtt. er leiðrétting á niðurstöðutölu 1. gr. frv. þannig að þarna er á ferðinni brtt. um tvö aðskilin efni og þessi fiskeldis- eða hafbeitartillaga, sem fræg er orðin, er einungis hluti af breytingartillöguskjalinu sem þarna er á ferðinni. Að sjálfsögðu hefði aldrei komið annað til

greina en að það yrði hlutverk meiri hlutans að flytja brtt. af því tagi því að minni hlutinn stendur ekki að afgreiðslu lánsfjárlaga og situr hjá við við afgreiðslu málsins.
    Í öðru lagi er rétt að það komi fram að þessi brtt. er ekki aðeins flutt að beiðni hæstv. fjmrh. samkvæmt bréfi heldur er hún og kynnt þannig að að baki hennar standi samkomulag í ríkisstjórn um það að staðið verði að málinu með þessum tiltekna hætti. Það var upplýst að upphaflega óskin hefði staðið til þess að fyrirgreiðslan yrði af stærðargráðunni 100 millj. en það hefði orðið niðurstaða í ríkisstjórn að lækka þá fjárhæð í 50 millj., enda kæmi mótframlag hjá eigendum. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta liggi fyrir vegna þess að þar með er það auðvitað svo augljóst mál að eðlilegt er að við stjórnarandstæðingar spyrjum: Hvaða stöðu hefur málið? Hefur þetta breyst úr því að vera mál sem flutt er að ósk ríkisstjórnar og það er hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar sem ber þá beiðni fram við nefndina eða er eitthvað annað orðið upp á teningnum? Ég held að hv. stjórnarliðar og þá ekki síst hv. þm., formaður þingflokks Sjálfstfl., hljóti að átta sig á því að eðlilegt er að við spyrjum um þessa stöðu málsins áður en umræðan heldur lengra. Það eru ekki frambærileg svör að segja að þetta komi í ljós í fyllingu tímans og að öðru leyti komi málið okkur ekki við. Það er ekki þannig þegar spurt er um stöðu sem þingmál hafi. Er áfram meiri hluti á bak við þessa tillögu og ætlar hann að tryggja henni brautargengi eða var ætlunin að reiða sig að hluta til á stuðning stjórnarandstöðunnar? Stjórnarandstaðan vill vita ef hún á að taka þátt í því að bjarga í gegn málum meiri hlutans. Það hljóta allir þingreyndir menn að sjá og skilja. Þess vegna eru þær spurningar sem hafa verið bornar fram eðlilegar og ekki síst í ljósi þess hver aðdragandi og staða málsins er eins og ég hef verið að reyna að rekja hana.