Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 00:02:53 (3238)


[00:02]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Að svo miklu leyti sem það er á mínu valdi að svara þessari fyrirspurn sem er andsvar við ræðu minni, en ég get að sjálfsögðu ekki svarað fyrir þá aðra sem málið var beint til, þá vil ég segja frá því að þetta mál hefur að sjálfsögðu verið rætt í ríkisstjórn og niðurstaðan varð sú að tveir ráðherrar skrifuðu formanni nefndarinnar bréf eins og lýst hefur verið fyrr í umræðu á hinu háa Alþingi. Það er ekki mitt og það er ekki siður að svara því og ég tel mig ekki þurfa að standa fyrir því að segja nákvæmlega um dagsetningar í því sambandi, en ég hygg nú að hv. þm., sem er fyrrv. ráðherra í ríkisstjórn, viti að það hlýtur að vera ætlast til þess að orðum ráðherra sé trúað þegar svona er sagt.
    Ég vil einnig að það komi fram að þessi yfirlýsing sem gefin var áðan er gefin með fullri vitund formanns þingflokks Alþfl. og það gildir um þessa tillögu eins og aðrar tillögur sem fluttar eru á vegum stjórnarflokkanna að það er ekki verið að ætlast til þess að við sækjum atkvæði í raðir stjórnarandstæðinga til þess að tryggja þessari tillögu framgang. ( GHH: Varaformaður flokksins er flutningsmaður). Já, að sjálfsögðu. Það kemur fram á sjálfu þingskjalinu hverjir eru flutningsmenn tillögunnar. Þar á meðal er varaformaður Alþfl. og ég get upplýst það að formaður flokksins kom að þessu máli líka. Ég tel því að Alþfl. eins og Sjálfstfl. styðji þetta mál.
    Ég þarf ekki að endurtaka það, virðulegi forseti, það hefur komið fram í minni ræðu, að það fer með þessa tillögu eins og aðrar slíkar. Við höfum fylgst með atkvæðagreiðslum bæði fyrr á þessu þingi og fyrri þingum og ég held að það eigi ekkert að koma mönnum á óvart í þessu máli og það sé ekkert því til fyrirstöðu að þessari umræðu sé haldið áfram, enda hefur engin beiðni komið um það af hálfu stjórnarþingmanna að umræðum sé frestað.