Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 03:12:04 (3285)

[03:12]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um það sem hér liggur fyrir en mér skilst að það sé einkar hentugt að ég tali nokkra stund meðan hæstv. viðskrh. er á leiðinni í húsið. Það sem ég ætlaði einkum að gera að umræðuefni er 3. tölul. í brtt. á þskj. 509 en áður en að því kemur vildi ég aðeins örlítið og örstutt víkja að tveimur atriðum frv. til lánsfjárlaga á þskj. 508 eftir 2. umr. og þá kannski fyrst að 1. tölul. í 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að endurlánað sé allt að 3,8 milljörðum kr. til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þessi tala kemur í staðinn fyrir 4 milljarða og 30 millj. kr. sem var í upphaflega frv. og þarna munar 230 millj. sem er áætlað lægra framlag til Lánasjóðs ísl. námsmanna en fyrr var gert. Ástæðan er mönnum kunn. Hún er sú að það hefur verið þrengt svo að kjörum námsmanna til þess að taka sér námslán að það er ekki þörf á því fjármagni sem upphaflega var ætlað til þess. Það sér hver maður að þetta er stefna sem hlýtur að vera afskaplega óhagkvæm og ekki síst eins og hér hefur komið fram í umræðum áður á tímum atvinnuleysis þegar okkur er e.t.v. meiri þörf á en nokkru sinni fyrr að mennta það unga fólk sem við höfum í stað þess að það gangi atvinnulaust.
    Í öðru lagi vil ég ræða aðeins um 2. tölul. í 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir að endurlánað verði allt að 2 milljörðum 380 millj. kr. til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Það hefur komið fram á Alþingi fyrr í vetur í umræðum um Þróunarsjóðinn að þessir fjármunir er ætlað til þess að úrelda fiskiskip og fiskvinnslustöðvar og meðan ég beið hér áðan þá reiknaði ég aðeins út hvað þetta felur í sér, þessir 2 milljarðar 380 millj. kr. Það felur í sér að verðmæti 5 milljarða 520 millj. kr. verður eyðilagt með einum eða öðrum hætti. Það verður á sjötta milljarð kr. notað til þess að eyðileggja skip og eins og áður hefur líka komið fram við svari við fsp. hv. þm. Petrínu Baldursdóttur er hér um að ræða oft og tíðum svo til glæný fiskiskip sem eru tekin og brennd á báli eða söguð sundur, gerð ónýt.
    Þessir 5,5 milljarðar kr. miðast þó við eldri viðmiðun, þ.e. þær umsóknir sem höfðu borist fyrir árslok 1994 þær njóta þessarar 45% reglu. Hins vegar ef farið er í þá viðmiðun sem síðan tekur við, þ.e. að 40% verðmæti er notað til úreldingar, þá er um að ræða tæpa 6 milljarða, eða 5 milljarða 950 millj. kr.
    Ég get ómögulega látið hjá líða að lýsa þeirri skoðun minni að þetta sé vond stefna í sjávarútvegsmálum, að þegar við eigum í miklum vanda, bæði útgerðarfyrirtæki og fiskvinnslufyrirtæki, eru á heljarþröm vegna fjárhagsvandræða þá skuli þessir fjármunir vera notaðir til að eyðileggja verðmæti fyrir fleiri fleiri milljarða eða allt að 6 milljörðum kr. Um þetta mætti hafa mörg orð og miklu fleiri þó ég geri það ekki hér en ítreka það sem ég hef áður sagt um þetta að þessi stefna er að mínu viti afskaplega slæm stefna.
    En það er varðandi 3. tölul. á brtt. á þskj. 509, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lántöku Silfurlax hf. allt að 50 millj. kr. gegn skilyrðum sem fjmrh. og landbrh. setja`` og eru að mér skilst nokkuð ströng. Þetta ákvæði kom inn mjög skyndilega og hefur reyndar komið mjög skýrt fram í þessari umræðu að verulegu leyti án þess að menn séu á því hvað það þýðir og hvað á bak við það stendur.
    Vegna þess að hér hefur fiskeldi í Tálknafirði komið til umræðu og einkum fyrirtækið Þórslax þá langar mig til að upplýsa örlítið um það hvaða hlutverki Tálknafjörður hefur gegnt í fiskeldismálum. Það er raunar miklu stærra heldur en hefur komið hér fram í umræðunni og miklu eldra. Því löngu áður en svokallað fiskeldisævintýri hófst þá var byrjað að þróa fiskeldi í Tálknafirði. Ætli það séu ekki rétt um 30 ár síðan þar hófst tilraunastarf í fiskeldismálum og það var reyndar fullorðinn maður, kominn á eftirlaun, sem ákvað að taka upp þessa starfsemi. Hann hafði samráð við fiskeldisfræðing, eftir því sem ég best veit þann fyrsta á Íslandi, Sigurð Helgason, sem reyndar er ættaður úr Tálknafirði og rak stöð rétt hjá Grindavík, þannig að það þróunarstarf sem unnið var í Tálknafirði var unnið í samstarfi við þá frumherja sem unnu að fiskeldismálum. Á þessu þróunarstarfi byggist starf og starfsemi þeirra tveggja stöðva sem aðallega hafa verið í Tálknafirði, það hafa reyndar verið fleiri og smærri, þ.e. Þórslax sem nú er gjaldþrota og Sveinseyrarlax sem enn þá hjarir. Nú veit ég ekki hvort þær aðgerðir eða það aðgerðarleysi sem ríkir í fiskeldismálum þjóðarinnar verður til þess að Sveinseyrarlax fer fyrr eða síðar sömu leiðina. Það vona ég sannarlega að ekki verði því þarna er verið að vinna mikið þróunarstarf. Verði þeim fáu stöðvum sem eftir eru í landinu gert ókleift að starfa þá held ég að allt það starf frumherjans sem unnið hefur verið sé kastað á glæ og til ónýtis unnið.
    Þórslax, sem hér hefur verið mikið til umræðu í dag í kvöld og í nótt, var fiskeldisfyrirtæki sem byrjaði smátt, byrjaði sitt starf á því þróunarstarfi sem ég lýsti áðan og þessu hefur stýrt einstaklingur sem var hér á árum áður mjög kunnur aflamaður, harðduglegur maður sem hefur byggt þetta upp mest af eigin rammleik og þetta hefur smástækkað. Síðan eftir því sem sú þróun hefur orðið sem lýst hefur verið hér

þegar þetta svokallaða fiskeldisævintýri hófst þá var verð á eldisfiski afar hátt. Menn byggðu á tölum frá Norðmönnum sem voru nokkuð á undan okkur með sölu á eldislaxi og gerðu sér áætlanir í samræmi við það. Samkvæmt þeim áætlunum var fiskeldi afskaplega arðvænleg atvinnugrein þegar út í þetta var farið. Það má segja að víða hafi verið allt of geyst farið af stað, fyrirtækin allt of stór í sniðum og kunn eru þau dæmi sem hér urðu mörg að undirbúningurinn og stórhugurinn var svo mikill að hönnunarkostnaður einn nam nokkurn veginn því sem starfræksla Þórslax og uppbygging hefur kostað allan tímann. Enda fóru þær tilraunir illa eins og kunnugt er af þessari sögu.
    Það sem gert hefur verið fyrir fiskeldi á Íslandi er það að Byggðastofnun og þeir sem þar hafa stjórnað hafa vissulega sýnt þessu máli skilning. Þeir hafa lagt sig fram um að reyna að styðja við bakið á þessari grein og veita styrki til uppbyggingar. Hins vegar var mjög fljótlega svo komið fyrir Byggðastofnun að úr henni voru dregnar allar tennurnar, það var dreginn allur máttur úr þeirri stofnun til að sinna þessu verkefni eins og vert væri. Annað sem gleymist er að það voru ýmsar ytri aðstæður sem menn gátu ekki séð fyrir. Hérna var t.d. farið af stað með íslenskan eldisstofn sem reyndist vera mjög óhagkvæmur. Það var ekki fyrr en nú allra síðustu ár sem annar stofn af norskum uppruna er kominn til sögunnar og er fyrst nú á allra síðustu árum farinn að seljast. Sá stofn var mun vænlegri til eldis, óx mun fljótar og skilaði þess vegna miklu betri arði en hinn íslenski. Þarna var um að ræða byrjendavandamál sem menn gátu ekki séð fyrir og e.t.v. hefðu rannsóknir á vegum ríkisins getað komið í veg fyrir svo stórfellt eldi á þessum stofni sem ekki reyndist betur en þetta hefði átt sér stað en því var ekki til að dreifa. Það sem hins vegar gerðist með uppbyggingu Byggðastofnunar var það að þessum fyrirtækjum voru veittir styrkir til uppbyggingar. Það var komið til móts við vandræði þegar þau höfðu skapast til þess að afskrifa skuldir en aftur á móti frá upphafi þessarar greinar þá hefur því aldrei verið sinnt að fiskeldið ætti þá möguleika til rekstrar sem þurfti. Afurðarlán hafa aldrei verið með eðlilegum hætti og eru alls ekki með eðlilegum hætti í dag. Tryggingar á fiskinum voru og eru afskaplega dýrar auk þess sem sjálfsábyrgð var það há að þó að áföll yrðu í greininni þá náðu þær yfirleitt ekki nema rétt upp í sjálfsábyrgðina svoleiðis að það að tryggja fiskinn var því sem næst ókleift. Enda fóru mjög margar stöðvar út í það að hætta að tryggja og taka áhættuna á eigin vegum. Það var í rauninni sú nauðsyn sem ekki varð hjá komist.
    Nú er svo komið að hérna er komin á borðið tillaga um að grípa til sértækra aðgerða fyrir Silfurlax hf. og er verið að tala um 50 millj. kr. Þetta kemur milli 2. og 3. umr. á örstuttum fundi. Það var fróðlegt að heyra hjá hv. 3. þm. Vestf. áðan þegar hann var að lýsa hvernig skoðun sín á þessu máli hefði breyst í umræðunni. Það lýsir því best hvernig þessi tillaga er komin fram og hvernig átti að lauma henni í gegnum þingið án þess að þingmenn og þar með taldir stjórnarliðar áttuðu sig á gildi þessarar tillögu. Hv. 3. þm. Vestf. sagði: Mér leist ekki illa á þessa hugmynd í upphafi. Ég hafði ekki skoðun á fyrirtækinu, sagði hann, og ég hafði ekki þekkingu á stöðu þess. Ég reikna með að hið sama eigi við um flesta hv. þm. hér í salnum þegar þetta er lagt fram. Það kemur síðan í ljós við umræðuna að það eru margir agnúar á og mér sýnist á þeirri ræðu sem hv. 3. þm. Vestf. hélt áðan að það gæti vel verið að margir fleiri hv. þm. hefðu breytt um skoðun og hafi breytt um skoðun við þessa umræðu við þá upplýsingu sem í umræðunni var. Þetta þykir mér afar athyglisvert í þessu máli.
    Það hefur komið fram hér að það eru erfið skilyrði fyrir fiskeldi. Það hefur líka komið fram að Norðmenn, með miklum ríkisstuðningi, hafa náð mjög langt í þessari grein. Það hefur verið nefnd hér talan 70 milljarðar sem fiskeldi skili Norðmönnum. Það hefur líka komið fram að neysluaukning á fiski á næstu árum muni verða því sem næst öll í fiskeldi. Fiskeldi fer í ýmsum tegundum að nálgast og er jafnvel komið lengra en veiðar úr hafinu. Þess vegna held ég að allir þeir sem hafa fylgst með þróun þessarar greinar, fiskeldinu, hér á Íslandi hljóti að hafa miklar áhyggjur af því ef hægt er að grípa til aðgerða, allt að 50 millj. kr., nefndar voru reyndar hugmyndir um 100 millj. kr. aðstoð, ef hægt er að grípa til þeirra á hálftíma eða klukkutíma fundi nefnda hér í þinginu og skella þeim fyrir þingið á sama tíma og ekki er hægt að grípa til aðgerða sem væru þá ekki sértækar heldur almennar. Ég fullyrði að ef fiskeldið hefði fengið eðlilega afurðalánafyrirgreiðslu allan tímann frá upphafi með stuðningi og ábyrgð stjórnvalda þá hefði ekki verið eins mikil þörf fyrir þær aðgerðir sem Byggðastofnun hefur þurft að grípa til. Því mikið af vanda fiskeldisfyrirtækja hefur stafað af erfiðleikum, vanskilum, tryggingagjöldum sem hafa verið óeðlilega há og dráttarvöxtum.
    Hér hefur verið nefnd stórmerk starfsemi í lúðueldi hjá Fiskeldi Eyjafjarðar ef ég man nafnið rétt. Þar er vafalaust geysilega mikil framtíð. Ég held ég hljóti að taka undir að það er alveg nauðsynlegt að það verði farið að móta eldisstefnu hér. Stefnu, ekki bara í laxeldi, ekki bara í lúðueldi, heldur í eldi sjávardýra yfirleitt. Menn reyni að horfa fram í tímann eins og áratug eða svo, móta stefnu og gera sér grein fyrir því að ríkisvaldið verður að koma hérna inn í með rannsóknastarf, með fyrirgreiðslu, með ábyrgðir, því að einmitt nú á tímum þegar mikill samdráttur er í veiðum á Íslandi þá hljóta menn að skoða hvernig hægt sé að komast inn í þann mikla vöxt sem fyrirsjáanlegur er að muni verða á næstu árum og áratugum í eldi. Við hljótum að leita bjargar í því á næstu árum. En það gerist ekki öðruvísi en að stjórnvöld komi til, móti sér stefnu og framfylgi henni síðan. Það hefur einmitt verið nefnd hér sú yfirlýsing hæstv. forsrh., að samkeppnisstaða íslenskra atvinnuvega sé góð og betri en löngum fyrr. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. forsrh. telur samkeppnisaðstöðu fiskeldis góða. Ég leyfi mér að efast um eins og ástandið er í þeim málum í dag eins og sú hætta sem er fyrir hendi að Þórslax verði ekki síðasta fyrirtækið sem fer á hausinn í laxeldi heldur, verði ekki að gert og komið til móts við þessa grein sem þó er búið að þróa svo vel og er komin hjá ýmsum fyrirtækjum allvel á veg, ef ekki verður gripið til þess að fylgja því eftir og styðja þau þessi síðustu skref þá muni fara illa.