Lánsfjárlög 1995

68. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 04:08:12 (3298)


[04:08]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Bæði þessi ríkisstjórn og aðrar á undan henni hafa gert sitt til að reyna að styðja við bakið á þessari atvinnugrein. Staðreyndin er einfaldlega sú að það hefur gengið mjög illa vegna þess að því miður hefur þessi atvinnugrein ekki skilað þeim árangri sem menn væntu þegar fyrstu frumkvöðlar fiskiræktar á Íslandi hófust handa og það er vandamálið. Það er m.a. skýringin á því að bankastofnanir hafa verið mjög erfiðar í taumi um að taka slík fyrirtæki í viðskipti. Svarið sem maður fær þegar spurst er fyrir um ástæðuna er einfaldlega þetta: Við höfum þegar tapað svo miklu fé á viðskiptum við fyrirtæki af þessu tagi. Það er hið einfalda svar sem fæst.