Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1995

69. fundur
Miðvikudaginn 28. desember 1994, kl. 14:22:55 (3345)


     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Formaður efh.- og viðskn. hefur óskað eftir því við forseta að úrskurðað verði, áður en umræða hefst, hvort þær brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1995 á þskj. 451, þ.e. 2. tölul. d- og e-liðir, megi koma til umræðu og atkvæðagreiðslu við þessa umræðu. Ástæðan fyrir þessari ósk eru efasemdir innan nefndarinnar um að brtt., sem eru bornar fram að einróma tilmælum heilbr.- og trn., standist 37. gr. þingskapa þar sem segir að lagafrumvarp sé ekki samþykkt til fullnaðar fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður. Í 44. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert lagafrv. megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Auk þeirrar reglu sem í ákvæðunum felst --- og er ófrávíkjanleg --- hefur greinin verið skilin svo að hún setti því takmörk hversu mikið breyta megi frv. við meðferð þess á Alþingi. ,,Gerbreyting`` frv., þ.e. að því sé efnislega umturnað með brtt. og verði í raun að öðru frv., er þannig óheimil. Því er ekki auðvitað fyrir að fara um áðurgreindar breytingartillögur.
    Enn fremur leiðir af þessari grein stjórnarskrárinnar og 37. gr. þingskapa að óheimilt er að setja í frv. við 2. eða 3. umr. ný og sjálfstæð atriði sem eru utan við efnismörk frv. Þegar metið er hvað eru ný og sjálfstæð atriði í þessu sambandi ber að miða við frv. eins og það var lagt fram en ekki þau lög sem þeim er ætlað að breyta.
    Spurningin hér er því sú hvort brtt., sem fyrr voru tilgreindar, þ.e. c- og d-liðir 2. tölul. á þskj. 451, séu innan efnismarka frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Forseti telur að svo sé tæpast enda segir í skýringum í nefndaráliti um þessar tillögur að þær séu ,,tæknilegs eðlis``. Í umsögn heilbr.- og trn. í fylgiskjali III í nál. segir að fyrri breytingin miði að því að fá rýmri tíma til að afla frekari tekjuupplýsinga um bótaþega, ekki til þess að hækka bætur eða lækka þær heldur til þess að útreikningur þeirra verði auðveldari. Og síðari tillagan felur í sér að færa útborgun bóta fram um tvo daga. Tillögur þessar verða því ekki taldar til ráðstafana í ríkisfjármálum eins og eðlilegt er að skilja þau orð.
    Hins er að gæta að brtt. sem hér um ræðir eru ekki stórvægilegar, raska ekki á neinn hátt meginefni frv., þær eru til hagsbóta þeim sem þeim er ætlað að ná til og jafnframt hefur forseti ástæðu til að ætla að við þessar breytingar sé efnislega almennur stuðningur meðal alþingismanna. Enn fremur ber að nefna að fyrir þremur árum var sambærilegt ákvæði um útborgunardag bóta í stjfrv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
    Af þessum ástæðum mun forseti úrskurða að brtt. megi koma til umræðu og atkvæðagreiðslu.
    Af þessu tilefni vill forseti þó geta þess að með breytingu á skipulagi þingsins, afnámi deildaskiptingarinnar, hlýtur að verða að gera ríkari kröfur um meðferð frumvarpa með hliðsjón af 44. gr. stjórnarskrárinnar og 37. gr. þingskapa. Forseti vill jafnframt beina því til þingmanna og þingnefnda að hafa þetta ákvæði í huga við gerð brtt. og afgreiðslu þingmála. Forseti mun beita sér fyrir því að skrifstofa þingsins gangi frá greinargerð sem send verði þingnefndum og þingmönnum af þessu tilefni þar sem fram komi meginsjónarmið við túlkun þessarar greinar stjórnarskrárinnar og samsvarandi ákvæða 37. gr. þingskapa, svo og leiðbeiningarreglur.