Tekjuskattur og eignarskattur

72. fundur
Fimmtudaginn 29. desember 1994, kl. 17:43:22 (3448)


[17:43]
     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta er nál. minni hluta efh.- og viðskn. en þann minni hluta skipa ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir og Jóhannes Geir Sigurgeirsson.
    Í upphafi ætla ég í örfáum orðum að gera grein fyrir tilkomu þessa frv. og vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar við framlagningu þess á Alþingi.
    Þegar áætlað var strax í byrjun október að þing færi heim í jólafrí 17. des. varð ljóst þegar fjárlagafrv. lá fyrir að gera þyrfti ráðstafanir til að tryggja grundvöll þess bæði með ráðstöfunum í ríkisfjármálum og eins með breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Vinnubrögð ríkisstjórnarinnar voru hins vegar þau að þegar fjórir dagar voru eftir af þingi miðað við þá starfsáætlun er þingið starfaði eftir lagði ríkisstjórnin fyrst fram það frv. sem hér er til umfjöllunar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og þegar tveir dagar voru eftir af áætluðum þingtíma var fyrst mælt fyrir frv. Það verður því að

segjast eins og er að hv. efh.- og viðskn. fékk ekki mikinn tíma til umfjöllunar um málið og það er óeðlilegt í alla staði að gefa nefndum þingsins ekki meiri tíma en þann sem hér um ræðir til þess að fjalla um svo veigamikil mál sem breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru og þær breytingar hafa auðvitað áhrif á hvern einasta Íslending. Því er mjög nauðsynlegt og það á og þarf að breyta þeim vinnubrögðum er þessi ríkisstjórn og aðrar ríkisstjórnir hafa haft á undanförnum árum að koma mjög seint fram með svo veigamiklar breytingar á svo veigamiklum lögum sem lögin um tekjuskatt og eignarskatt eru.
    Í upphafi nefndarálitsins gerum við örlitla grein fyrir yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn lagði fram og sendi frá sér 10. desember sl. en þær breytingar sem lagðar eru til í því frv. sem hér er til umfjöllunar byggja að stærstum hluta til á þeim yfirlýsingum fyrir utan það að hluti af þeim yfirlýsingum nær ekki til þessa frv. heldur er þar um ákveðin fyrirheit að ræða sem ríkisstjórnin ætlar alls ekki að standa við ef af reynslunni má dæma.
    Það hefur borið við og hvað eftir annað hefur það gerst að í tengslum við kjarasamninga, hvort sem um nýja kjarasamninga að ræða eða endurskoðun á kjarasamningum að ríkisstjórnin hefur gefið út yfirlýsingar og fyrirheit og flest þessara fyrirheita hafa verið í þá veru að um stórkostlega aukningu á verklegum framkvæmdum ætti að vera af hálfu hins opinbera. Í tengslum við kjarasamninga í maí 1993 voru gefin fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar um að verja allt að 2.000 millj. kr. til verklegra framkvæmda. Í samantekt, sem efh.- og viðskn. hefur fengið frá Alþýðusambandi Íslands, er talið að enn skorti 700 millj. kr. á að ríkisstjórnin standi við þau loforð sem hún gaf í tengslum við kjarasamningana í maí 1993. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að í fjárlagafrv. því sem nú hefur verið samþykkt fyrir árið 1995 séu verklegar framkvæmdir skornar niður milli ára sem nemur 2.000 millj. kr. Það eru ekki einu sinni tilburðir af hálfu ríkisstjórnarinnar til að standa við þau fyrirheit sem hún gaf í tengslum við kjarasamningana í maí 1993 heldur er haldið áfram á þeirri braut að skera niður verklegar framkvæmdir. Slíkt hlýtur auðvitað í því atvinnuástandi sem nú er að leiða til aukins atvinnuleysis þrátt fyrir að menn séu að spá betri tíð á ýmsum sviðum.
    Það hefur verið siður hjá ríkisstjórninni og í öllum samskiptum við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við flest þau vandamál sem þar hafa komið upp að gefnar hafa verið út yfirlýsingar og það er umhugsunarefni hversu mikið langlundargeð aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt ríkisstjórninni því að þeir hafa í raun látið hana komast upp með að gera ekkert annað en gefa út yfirlýsingar, yfirlýsingar sem menn hafa kannski oft og tíðum vitað að ríkisstjórnin ætlaði alls ekki að standa við. Það langlundargeð er umhugsunarvert sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt ríkisstjórninni.
    Í tengslum við endurskoðun á kjarasamningum nú síðast var ákveðið að fara út í stórkostlegar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu og í kjölfar þess varð uppi mikill vandræðagangur í stjórnarliðinu því að forsrh. lýsti því yfir að þessar vegaframkvæmdir bæri að fjármagna með því að hækka bensíngjald. Þessi ákvörðun forsrh. skapaði andstöðu og varð til þess að aðilar vinnumarkaðarins, bæði Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, vöruðu við þeirri leið sem ákveðið var að fara. Forsrh. dró síðan í land en þvert ofan í yfirlýsingar forsrh. að bensíngjald yrði ekki hækkað var það hækkað 1. des. sl.
    Vorið 1993 lýsti ríkisstjórnin því yfir í tengslum við gerð kjarasamninga að það bæri að koma á fyrir 1. janúar 1994 fjármagnstekjuskatti og skyldi skatturinn miðaður við það að nafnvextir skyldu skattlagðir er næmi 10%. Enn hefur ekkert bólað á þessum fyrirheitum og hafa aðilar vinnumarkaðarins ekki gengið eftir þeim nema með veikum mætti en nú er ríkisstjórnin í yfirlýsingu sinni frá 10. des. að óska eftir því að málið sé sett í nefnd þar sem tilnefndir séu aðildar vinnumarkaðarins og hinna stjórnmálaflokkanna hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu á Alþingi. Um þetta hefur ekki náðst samkomulag og hefur komið fram að stjórnarandstöðuflokkarnir eru ekki tilbúnir til þess að tilnefna menn í nefndina nema hlutverki hennar sé að allverulegu leyti breytt. En það sem er alvarlegast í málinu er að ríkisstjórnin gefur fyrirheit um hvernig þetta skuli framkvæmt, stendur ekki við þau og frestar síðan málinu samkvæmt yfirlýsingu frá 10. des. aftur til upphafs árs 1996 og ætlar þannig enga ábyrgð að bera á þeim yfirlýsingum sem hún er að gefa núna og ekki heldur á því hver framkvæmd málsins verði.
    Í yfirlýsingunni, sem ríkisstjórnin sendi frá sér 10. des., er sérstaklega fjallað um hækkun persónuafsláttar um áramót. Þar er látið að því liggja að sérstök ákvörðun liggi að baki því að hækka eigi persónuafslátt um 2.150 kr. úr 57.228 kr. í 59.300. Hér er því miður um hreinar blekkingar að ræða og það hefur komið fram að ef um raunhækkun á þessum persónuafslætti um 2.150 kr. væri að ræða þýddi það útgjaldaauka fyrir ríkissjóð á bilinu 1.500--1.700 millj. kr. Fjmrn. hefur hins vegar upplýst að útgjaldaauki ríkissjóðs af hækkuninni verði í kringum 200--300 millj. kr. Staðreyndin er sú að í fjárlagafrv. hafði verið gengið út frá því að persónuafsláttur yrði hækkaður eins og uppfærsla verðlags gerir ráð fyrir og í raun og veru er lögbundið í skattalögum að muni gerast um mitt ár. Sú yfirlýsing sem gefin var 10. des. um sérstaka hækkun persónuasláttar er því hrein blekking og var búið að gera ráð fyrir henni og gert ráð fyrir henni í lögum.
    Varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er snýr að húsnæðismálum og lækkun húshitunarkostnaðar er þar fyrst og fremst um að ræða fögur orð á blaði því að ekkert er í fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að fjármunir séu tryggðir til þess að standa undir skuldbreytingum við þá sem eru í mestum greiðsluerfiðleikum við Húsnæðisstofnun ríkisins og ekkert er í fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að lækka húshitunarkostnað. Þetta eru kannski fyrstu orðin sem þarna eru sett á blað í nýrri framhaldssögu sem

ríkisstjórnin mun halda áfram með með yfirlýsingar um hluti sem ekki á að standa við og ekkert stendur að baki.
    Það er mat Alþýðusambands Íslands, hagdeildar sambandsins að í þeirri yfirlýsingu og í frumvarpi því sem hér er til umræðu felist í raun og veru ekki kjarajöfnun heldur í raun og veru aukin mismunun. Það kemur fram í áliti Alþýðusambandsins svo að ég vitni í það orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Það er vandséð [að mati hagdeildar Alþýðusambands Íslands] með hvaða hætti þessi skattkerfisbreyting á að uppfylla þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér með þessum aðgerðum. Þannig hafa þessar tillögur engin áhrif á afkomu þeirra sem eru allra tekjulægstir og eignaminnstir. Hækkun persónuafsláttar um 500 kr. bætir ekki afkomu þeirra sem eru undir skattleysismörkum. Hins vegar lækkar skattbyrði með hækkandi tekjum og meiri eignum. Þannig fá einstaklingar með 250 þús. kr. tekjur á mánuði um 1.750 kr. lækkun á sköttum á mánuði og ef þeir eiga 15 millj. kr. skuldlausa eign yrði skattalækkunin tæplega 4.900 kr. á mánuði. Gagnvart hjónum með 500 þús. kr. tekjur á mánuði eru þessar fjárhæðir tvöfaldaðar eða úr 3.500 kr. í tæplega 9.800 kr. á mánuði. Mælt sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, þ.e. eftir skatt, vegur þessi skattalækkun 3% á mánuði gagnvart 0% hjá þeim tekjulægstu. Því má segja að skattalækkunin nái sérstaklega til stóreignafólks sem venjulegar tekjur og ekki er með nokkru móti hægt að tengja það hugtakinu ,,kjarajöfnun`` --- að mati hagdeildar Alþýðusambands Íslands.
    Til nánari skýringar á þessu vísast til greinargerðar Alþýðusambandsins um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. des. sem fylgir með nefndaráliti minni hluta efh.- og viðskn.
    Þá er ég kominn að þeim þáttum í nefndarálitinu er snúa að þeim lagabreytingum sem gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umfjöllunar og þá fyrst að afnámi tvísköttunar lífeyrisgreiðslna. Þegar staðgreiðslukerfi skatta var tekið upp árið 1988 voru allir frádráttarliðir, sem giltu í eldra tekjuskattskerfi, felldir niður, þar á meðal iðgjaldagreiðslur launafólks í lífeyrissjóði. Það þýddi með öðrum orðum að gert var ráð fyrir að inn í persónuafslættinum væri áætluð ákveðin upphæð fyrir þessu skattfrelsi. Nú hefur það hins vegar gerst eins og allir eru sammála um að persónuafslátturinn hefur dregist saman eða lækkað að raungildi og má því segja að aftur sé komið til ákveðinnar tvísköttunar. Það sem er kannski mikilvægast við þetta er að ríkisstjórnin með þeirri tillögu sem hún boðar hér er í raun og veru að fallast á það grundvallarsjónarmið þeirra sem hafa haldið fram að um tvísköttun væri að ræða. Í flestum löndum í kringum okkur er sú leið farin að skattafslátturinn er veittur af iðgjaldinu þegar það er greitt inn í lífeyrissjóð. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið þá leið að finna út eftir reiknikúnstum að veita 15% afslátt af útgreiðslu úr lífeyrissjóði. 15% ætla ég ekki að deila hér um. Fyrir því eru færð ákveðin rök en um þau má auðvitað deila og sýnist sitt hverjum.
    Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin velur þessa leið er sú að hún er ódýrari í fyrstu, þ.e. útgjaldaáhrifin eða tekjuminnkunin fyrir ríkissjóð mun nema um 250--300 millj. kr. Aftur á móti ef við horfum aftur til ársins 2015 þegar lífeyrissjóðirnir eru í raun farnir að þjóna því hlutverki sem þeim var ætlað strax árið 1970 og gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir séu uppbyggðir með svipuðum hætti þá þýðir þetta að útgjöldin munu verða nákvæmlega þau sömu árið 2015 og ákvörðun sem hefði verið tekin í dag um að taka 4% sem er iðgjald launamannsins inn í lífeyrissjóð og afnema skatt af því. Í raun og veru er ríkisstjórnin með þessu að fría sig þeirri ábyrgð sem felst á þeirri kerfisbreytingu, sem þarna er lögð til, og senda reikninginn sem hlýst af þessu yfir á komandi kynslóðir. Það er mat þeirra sem þurfa að fjalla um þessi mál eins og Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Sambands almennra lífeyrissjóða, sem eins og hann orðaði það sjálfur á fundum í nefndinni, að meira og minna í 25 ár hefði hann verið að fást við lífeyrissjóðamál og margar einkennilegar og skrýtnar tillögur hefðu komið fram í þessum efnum en þetta væri eins og Hrafn orðaði það sjálfur sú vitlausasta sem hann hefði nokkurn tíma heyrt um. Þegar betur er að gáð mun sú breyting, sem lögð er til af hálfu ríkisstjórnarinnar, leiða til mjög mikillar mismununar. T.d. ekki gert ráð fyrir því að öryrkjar njóti nokkurs í þessari tvísköttun. Ekki er gert ráð fyrir því að þeir sem eru undir 70 ára aldri og geta farið að taka lífeyri 67 ára njóti neins. Ekki er gert ráð fyrir því að heil stétt sjómanna njóti neins fyrr en þeir eru orðnir sjötugir og hafa núna í dag heimild til þess að taka lífeyri þegar þeir eru 65 ára, gátu það fyrir ári þegar þeir voru 60 ára. Fyrir utan það að verið er að skapa þeim einstaklingum, þeim mönnum sem eru í þeirri stöðu að geta gert sérsamninga við launagreiðendur sína, möguleika á viðbótar 15% skattafslætti með því að þeir menn sem eru í þeirri stöðu að geta gert sérsamninga um kjör sín, semji um það að launagreiðandi greiði ákveðinn hlut af launum viðkomandi inn í t.d. frjálsa lífeyrissjóðinn eða hvaða annan lífeyrissjóð sem er. Þegar til útgreiðslu úr þeim lífeyrissjóði kemur og launamaðurinn hefur í rauninni aldrei greitt neinn annað en hafa gert þennan hluta af sínum kjörum að greiða þetta framlag inn í sjóðinn mun þessi einstaklingur fá 15% skattafslátt af þeim launum er hann hefur greitt inn í lífeyrissjóðinn og hefur þannig sparað til framtíðar þegar til útgreiðslunnar kemur. Þetta leiðir auðvitað til hrikalegrar mismununar fyrir utan það að þetta mun hvetja til þess að launamenn og þeir menn sem hafa þá aðstöðu til að geta gert slíka sérsamninga við vinnuveitendur sína munu fara þá leið í ríkara mæli en þeir hafa gert í dag og þó er vitað til þess að þessi leið er nú valin. Því miður er af hálfu ríkisstjórnar vanhugsuð, illa undirbúin tillaga sem mun leiða til mismununar og leiða til ófyrirséðs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð og eins og ég sagði áðan er verið að senda reikning komandi tíma yfir á komandi kynslóðir. Með öðrum orðum er ríkisstjórnin að velta vandamálunum á undan sér.
    Stóreignaskattar eru lækkaðir samkvæmt þessu frv. Árið 1989 var lagður sérstakur eignarskattsauki á þá sem voru yfir tilteknum mörkum og miðað við eignarskattsstofn sem á þessu ári er í kringum 10 milljónir kr. hjá einstaklingum og 20 millj. kr. hjá hjónum. Árið 1990 var þessi sérstaki eignarskattsauki, sem var 1,5%, lækkaður um helming eða niður í 0,75% og hann var sérstaklega tekjutengdur. Um leið og tekið var meira mið af tekjum einstaklinganna var þessi skattur í raun miklu réttlátari. Ríkisstjórnin hefur haft alla möguleika á því allt þetta kjörtímabil hefði einhver pólitískur vilji verið fyrir því að afnema skattinn en hann hefur gengið undir nafninu ekknaskattur. Það er hins vegar ekki fyrr en nú rétt fyrir kosningar að menn taka þá ákvörðun að afnema skattinn. Þess vegna hvarflar að manni að þetta sé auðvitað gert í pólitískum tilgangi til þess að sýnast rétt fyrir kosningar og auðvitað er enn þá óeðlilegra að þetta skuli vera gert á þeim tíma þegar ríkisstjórnin er að bjóða upp á samstarf við stjórnarandstöðuflokkana og við aðila vinnumarkaðarins um að koma á fjármagnsteknaskatti því að þessi stóreignaskattur eins og hann er kallaður eða ekknaskatturinn er hluti af því fyrirkomulagi og heildarendurskoðun sem þarf að eiga sér stað á öllu eignar- og tekjuskattskerfinu. Því er enn furðulegra að þessi tími skuli vera valinn.
    Hátekjuskattur er lækkaður en með ráðstöfunum ríkisstjórnar í nóvember 1992 var ákveðið að leggja á sérstakan 5% tekjuskatt, tekjuskattsauka sem hefur verið nefndur hátekjuskattur. Þegar fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar kom fram í upphafi þings í byrjun október kom skýrt fram að ríkisstjórnin hafði ekki í huga að leggja þennan skatt lengur á og stóð til að fella hann niður. Sú breyting varð hins vegar á þegar skattafrv. leit dagsins ljós að ákveðið var að halda hátekjuskattinum að ákveðnu marki áfram en viðmiðunartekjumörkin voru hækkuð um 25 þús. kr. á mánuði hjá einhleypingum og 50 þús. kr. hjá hjónum. Skatturinn hefur skilað á árinu 1994 í kringum 400 millj kr., kannski 350 millj. kr. í innheimtu en áætlað er að með þeirri breytingu, sem nú er lögð til, muni hann skila ríkissjóði um 100 millj. kr. minna en hann gerir á árinu 1994.
    Það er skoðun minni hluta efh.- og viðskn. að óeðlilegt sé við þessar kringumstæður að draga úr hátekjuskattinum, ekki síst þegar haft er í huga að á sama tíma er gert ráð fyrir að lækka greiðslur almannatrygginga, þ.e. lífeyrisgreiðslurnar, um 850 millj. kr. Hvar mun sú lækkun koma fram? Jú, hún mun koma fram hjá ellilífeyrisþegum og öryrkjum. Með öðrum orðum eru menn að lækka bætur almannatrygginga, sem nemur 850 millj. kr., en menn eru að lækka skattabyrði af hátekjufólki um 100 millj. kr.
    Í yfirlýsingu forsrh. frá því í maí 1994 og í tengslum við endurskoðun kjarasamninga var gert ráð fyrir að fyrirtæki geti nýtt sér rýmri heimildir til flýtifyrninga vegna fjárfestingnarfyrirtækja í atvinnulífinu á árinu 1994 og árinu 1995. Frá því í maí hafa aðilar vinnumarkaðarins hvað eftir annað gengið á eftir því við ríkisstjórnina að fram kæmu skýrar reglur með hvaða hætti fyrirtækin gætu nýtt sér flýtifyrningarnar, vildu þau fara út í aukna fjárfestingu. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir í þessum efnum hefur ekkert komið fram frá ríkisstjórninni fyrr en núna um miðjan desember 1994 með hvaða hætti fyrirtækin geti nýtt sér flýtifyringuna. Flýtifyrningin tekur aðeins til tveggja ára, þ.e. ársins 1994 og 1995. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að atvinnulífið þori að leggja út í fjárfestingar við þær kringumstæður sem nú eru þegar algerlega er óljóst með hvaða hætti menn gætu nýtt sér þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að reglur yrðu settar um flýtifyrninginu fyrirtækja. Það liggur fyrir vegna þess að reglurnar hafa ekki verið settar þá hafa fyrirtæki heldur ekki ráðist í að fjárfesta í þeim mæli sem annars hefði kannski orðið. Þar sem ekki eru nema fáir dagar eftir af þessu ári er fyrra árið liðið af þeim tveimur sem ríkisstjórnin gaf fyrirheit um að flýtifyrningarnar giltu. Það má því segja að sú yfirlýsing, sem gefin var í maí 1994, komi ekki að nema litlu gagni og kannski ekki að neinu gagni fyrir þau fyrirtæki sem annars hefðu viljað ráðast í fjárfestingar á þessu ári en hafa ekki gert af því að reglurnar voru ekki skýrar og munu á árinu 1995 hugsanlega ráðast í einhverja fjárfestingu en það mun þó ekki nýtast til atvinnusköpunar nema að litlu leyti.
    Ég hef í framsögu fyrir nefndarálitinu í fyrsta lagi gert grein fyrir þeim yfirlýsingum sem ríkisstjórnin hefur verið með og á hvern hátt hún hefur ekki staðið við þau fyrirheit sem þar hafa verið gefin og svo í öðru lagi gert grein fyrir þeim stærstu hlutum sem koma fram í því frv. sem hér er til umfjöllunar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og hvað í því felst og hvaða áhrif það muni hafa.
    Eins og ég sagði í upphafi er þetta álit minni hluta efh.- og viðskn. Minni hlutinn stendur sameiginlega að nefndarálitinu en mun við 2. umr. málsins flytja sjálfstæðar brtt. og láta á það reyna við atkvæðagreiðslu hvort þær hafa stuðning eða ekki.