Frestun á fundum Alþingis

75. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 01:56:44 (3506)


[01:56]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar sameinast var um að gera þá breytigu á stjórnskipan íslenska lýðveldisins að Alþingi starfaði í einni málstofu og það sæti í reynd allt árið var það hugsun margra sem að þeirri breytingu stóðu að notkun bráðabirgðalagavaldsins hlyti að hverfa að öllu eða a.m.k. smátt og smátt. Breyttir starfshættir þingsins og breyttar aðstæður í þjóðfélagi okkar gera það auðvitað að verkum að þingið á auðvelt með að koma saman með litlum fyrirvara og breyta þannig starfsáætlun sinni eins og dæmin hafa sýnt.
    Það form sem hæstv. ríkisstjórn hefur nú valið hefur þá afleiðingu að færa löggjafarvaldið í hendur ríkisstjórnarinnar þann tíma sem þingið kemur ekki saman. Fyrir ári ákvað ríkisstjórnin að hafa sama hátt á. Þá stóð einnig svo á eins og nú að hörð vinnudeila hafði staðið í landinu. Ríkisstjórnin notaði þá þinghléið til þess að leysa þá vinnudeilu með bráðabirgðalagaaðferðinni. Það var mjög umdeild ákvörðun.
    Nú hefur verkfall sjúkraliða staðið í margar vikur. Við höfum mörg hér knúið á um það að ríkisstjórnin leysti það verkfall með samningum. Ég vona satt að segja að þær tilraunir, sem hafa verið gerðar á þeim sólarhring sem nú er nýliðinn og á þeim klukkustundum sem liðnar eru af þessum sólarhring, verði til þess að það verkfall verði leyst og ríkisstjórnin noti ekki vald sitt sem hún fær með samþykkt tillögunnar til þess að beita bráðabirgðalagavaldinu. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að það komi hér fram, a.m.k. af hálfu okkar alþýðubandalagsmanna að við leggjum á það mjög ríka áherslu að sú tilraun til að ljúka samningum í sjúkraliðaverkfallinu, sem nú hefur staðið um nokkra hríð á liðnum og nýhöfnum sólarhring, leiði til þess jákvæða árangurs að verkfallinu verði lokið fyrir áramót. Í trausti þess höfum við ákveðið að greiða ekki atkvæði gegn þessari frestunartillögu. Ef við hefðum ekki þá trú og þá von að raunverulegur vilji sé til þess að leysa verkfallið en beita ekki bráðabirgðalagavaldinu á þeim vikum sem tillagan felur í sér þá mundum við beita okkur mjög hart gegn efnisákvæðum frestunartillögunnar. Ég ætlast ekki til þess við umræðuna að hæstv. ráðherrar skýri frá gangi viðræðnanna en vildi hins vegar víkja

að þessu og láta afstöðu okkar koma mjög skýrt í ljós.
    Ég vona að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að það ástand sem nú er á vinnumarkaði með lausa samninga eftir fáeina daga muni breytast í sprengjusvæði ef því valdi, sem fæst með frestuninni, verður beitt til þess að reyna að brjóta á bak aftur tilraunir launafólksins að leiðrétta lífskjör sín á fyrstu vikum nýs árs. Þess vegna er það frumskilyrði að því valdi, sem ríkisstjórnin fær með samþykkt tillögunnar, verði ekki beitt til að nota bráðabirgðalagavaldið með sama hætti og gert var fyrir ári.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fjalla meira um tillöguna en vona að afstaða okkar hafi komið skýrt í ljós.