Frestun á fundum Alþingis

75. fundur
Föstudaginn 30. desember 1994, kl. 02:01:33 (3507)


[02:01]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim tveimur hv. þingmönnum sem hafa talað næst á undan mér og vonast til þess að tillagan um frestun á fundum Alþingis, verði hún samþykkt eins og hún liggur hér fyrir, leiði ekki til þess að ríkisstjórnin beiti eða notfæri sér þá heimild að grípa til setningar bráðabirgðalaga. Það er auðvelt að kalla þing saman ef eitthvað slíkt kynni að koma upp í þinghléinu sem hæstv. ríkisstjórn teldi leiða til þess að nauðsynlegt væri að setja lög og það væri þá gert með eðlilegum hætti en ekki með bráðabirgðalagasetningu.
    Eins og fram kom hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni vita allir að þessi harða og hatramma vinnudeila við sjúkraliðana, sem hefur staðið allt of lengi, hefur skapað alvarlegt ástand í þjóðfélaginu, alvarlegt ástand á sjúkrastofnunum og alvarlegt ástand á fjölmörgum heimilum. Við skulum sannarlega vona að sú tilraun sem nú er í gangi leiði til þess að verkfallið leysist og samningar náist með einhverjum hætti. Það yrði sannarlega ánægjuleg áramótagjöf til þjóðarinnar ef það gerðist nú á þessum sólarhring. Ég veit svo sem ekki hvort það verður endilega ánægjuleg áramótagjöf til sjúkraliðanna sjálfra sem hafa háð þessa erfiðu deilu. Lausn í deilunni er nauðsynleg og í þeim skilningi væri það ánægjulegt ef það væri nú að gerast og a.m.k. vænti ég þess að ekki verði gripið til bráðabirgðalagaheimildar til þess að leysa þá deilu eða setja hana niður með slíkum hætti.
    Ég hefði talið æskilegt að hæstv. forsrh. mundi heita Alþingi því nú á eftir áður en tillagan gengur til atkvæða að hann muni ekki beita bráðabirgðalagaheimildinni heldur kalla Alþingi saman ef eitthvað slíkt kemur upp að hæstv. ríkisstjórn telji nauðsynlegt að grípa til lagasetningar.