Ferill 12. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 12 . mál.


12. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir.



1. gr.


    1. málsl. 6. mgr. 30. gr. laganna orðast svo: Sektir eftir lögum þessum má jafnt gera lögaðila sem einstaklingi og skulu þær að lágmarki nema þrefaldri þeirri upphæð sem undan var dregin.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er efnislega samhljóða frumvarpi til breytinga á lögum um tekjuskatt og eignarskatt og frumvarpi til breytinga á lögum um virðisaukaskatt sem lögð hafa verið fram á Alþingi en með þeim er lagt til að lögfest verði tiltekið refsilágmark sem tryggja á betur að refsiákvæðum skattalaga sé beitt á þann hátt að þau veiti raunverulegt aðhald gegn skattsvikum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að sektir vegna skattsvika skuli aldrei nema lægri fjárhæð en þrefaldri þeirri upphæð sem undan er dregin, en algengt er að sektirnar nemi aðeins hluta af þeirri fjárhæð sem undan er dregin þótt heimildir skattalaga kveði á um að þær geti numið allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan er dregin.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.