Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 102 . mál.


178. Svar


samgönguráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um útboð Vegagerðar ríkisins.

    Notar Vegagerð ríkisins sérstakan skilmála í sínum útboðsgögnum sem heitir ÍST 30?
    Um verk, sem boðin eru út af Vegagerðinni, gilda almennir útboðs- og samningsskilmálar um verkframkvæmdir, ÍST 30, frá september 1988 með nokkrum breytingum og viðbótum sem gerðar hafa verið af Vegagerðinni. Sérskilmálar Vegagerðarinnar við ÍST 30 hafa verið felldir inn í meginmál staðalsins og hann gefinn þannig út af Staðlaráði Íslands 1. júní 1990.

    Hversu margir verktakar hafa lögsótt Vegagerðina síðustu fimm ár þar sem þeir telja að hún hafi ekki sjálf farið að eigin skilmálum?
    Frá árinu 1989 hafa tveir verktakar sótt mál á hendur Vegagerðinni vegna ágreinings um verksamning:
a.    Hagvirki hf. gegn Vegagerðinni rekið fyrir gerðardómi Verkfræðingafélags Íslands. Dómur var kveðinn upp 21. mars 1989. Krafa Hagvirkis hljóðaði upp á 30.922.795 kr. Vegagerðin bauð að greiða 1.200.000 kr. af tilgreindum ástæðum. Gerðardómurinn ákvað greiðslu til Hagvirkis að fjárhæð 1.910.000 kr. Málskostnaður, sem var verulegur, skiptist til helminga milli málsaðila.
b.    Þrotabú Óskars Hjaltasonar gegn Vegagerðinni og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, rekið fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Dómur var kveðinn upp 12. mars 1990. Krafa þrotabúsins hljóðaði upp á 10.509.487 kr. Vegagerðin hafnaði kröfunni. Vegagerðin og ríkissjóður voru sýknuð í bæjarþingi Reykjavíkur og þrotabúið var dæmt til að greiða stefndu 450.000 kr. í málskostnað.

    Hversu margir verktakar hafa gert kröfur á hendur Vegagerðinni síðustu fimm ár af því að þeir telja að um rangar upplýsingar hafi verið að ræða í útboðsgögnum?
    Hversu mörgum aðilum hefur Vegagerðin boðið bætur vegna ósamkomulags eða vegna aukaverka í kjölfar ónákvæmra útboðsgagna á síðustu fimm árum?
    Hversu oft hefur Vegagerðin viðurkennt galla í útboðslýsingu eftir samninga í kjölfar tilboða?

    Frá og með árinu 1989 hefur Vegagerðin boðið út um það bil 300 verk í sjö umdæmum. Yfirgnæfandi meiri hluti þessara verka er jarðvinnuverk sem taka yfir allstór eða stór svæði, bæði vegstæði og í námum. Vegna breytileika jarðvegs í vegstæði og jarðefna á námusvæðum er almennt ekki gerlegt að rannsaka aðstæður og útbúa gögn með þeim hætti að ekki þurfi að breyta neinu eða leiðrétta í verkinu sjálfu. Í samræmi við þetta koma fram einhverjar kröfur af hálfu verktaka í mjög mörgum verkum. Kröfur þessar eru settar fram með ýmsum hætti, sjaldnast skriflega, oft ræddar á verkfundum og skráðar í verkfundargerðir ef þess er farið á leit af verktaka. Oft kemur til aukagreiðslna vegnabreytinga á verki eða aukaverka og í flestum tilvikum kemur slíkt ekki fram fyrr en við uppgjör, þ.e. á reikningum sem samþykktir eru.
    Langoftast eru breytingar og leiðréttingar mjög smáar í hlutfalli við verkið sjálft. Einstöku sinnum kemur þó fyrir að verktakar telja að verulegar breytingar á forsendum séu fyrir hendi og hafa uppi stærri kröfur. Þessi tilvik eru þó varla nema þrjú til fimm á ári. Þegar svona stendur á er reynt að semja og tekst það oftast. Í útboðsgögnum eru ákvæði sem segja til um hvernig með ágreiningsmál skuli fara ef samningar takast ekki. Í svari við 2. spurningu koma fram þau tvö dæmi um málsskot til gerðardóms og héraðsdóms sem átt hafa sér stað frá og með 1989. Niðurstöður beggja dómanna eru mjög nálægt afstöðu Vegagerðarinnar eins og hún lá fyrir áður en málin gengu til dóms.
    Hér hefur verið fjallað almennt um þau málefni sem um er rætt í 3.–5. spurningu. Beinar tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir. Með hliðsjón af því hvernig þessi mál eru vaxin og lýst er stuttlega hér að framan er mjög torvelt að afla tölulegra upplýsinga og í sumum tilvikum ógerlegt.

    Ber Vegagerðin ábyrgð á eigin útboðsgögnum?
    Ekki þykir með öllu ljóst hvað átt er við með þessari spurningu. Ef um er að ræða ábyrgð á röngum eða villandi útboðsgögnum er svarið já.