Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 219 . mál.


253. Frumvarp til laga



um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Bannað er að framleiða hér á landi eða flytja til landsins ofbeldiskvikmyndir. Enn fremur er bönnuð sýning, dreifing og sala slíkra mynda.
     Kvikmynd merkir í lögum þessum hvers kyns hreyfimyndaefni sem gert er með hvers konar tækni, þar með taldar leiknar kvikmyndir og teiknimyndir, hvort sem ætlað er til sýningar í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða öðrum myndflutningstækjum.
     Ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara er kvikmynd þar sem sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar eða hrottalegar drápsaðferðir á mönnum og dýrum.
    Ákvæði laga þessara taka ekki til fréttaefnis, auglýsinga eða fræðsluefnis.
    

2. gr.


    Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til. Ráðherra skipar sex manna kvikmyndaskoðunarnefnd til þriggja ára í senn þannig: Þrjá nefndarmanna að fengnum tillögum félagsmálaráðherra, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, einn að fengnum tillögum Félags kvikmyndagerðarmanna, einn að fengnum tillögum dómsmálaráðherra og einn án tilnefningar. Menntamálaráðherra skipar einn nefndarmanna forstöðumann kvikmyndaskoðunarnefndar og skal kveðið á um verksvið hans í reglugerð.
    Á vegum kvikmyndaskoðunarnefndar fer fram skoðun allra kvikmynda sem ætlaðar eru til sýningar eða dreifingar hér á landi, sbr. þó 5. gr. Nefndin metur hvort kvikmynd teljist vera ofbeldiskvikmynd í skilningi laga þessara og hvort kvikmyndin sé við hæfi barna.
    Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun skoðunar kvikmynda hjá kvikmyndaskoðunarnefnd.
    Þóknun kvikmyndaskoðunarnefndar og annar rekstrarkostnaður vegna starfa nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði samkvæmt sérgreindri fjárveitingu í fjárlögum.
    

3. gr.


    Telji kvikmyndaskoðunarnefnd kvikmynd vera ofbeldiskvikmynd í skilningi þessara laga úrskurðar nefndin að dreifing og sýning kvikmyndarinnar skuli vera bönnuð hér á landi.
    Teljist kvikmynd geta haft skaðleg áhrif á siðferði eða sálarlíf barna, að mati kvikmyndaskoðunarnefndar, ákveður nefndin hvort banna skuli að sýna eða afhenda kvikmyndina börnum innan 16 ára aldurs eða á tilteknum aldursskeiðum innan þess aldurs samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Heimilt er nefndinni að ákveða sérstök aldursmörk fyrir mismunandi myndmiðla.
    Bann skv. 1. mgr. 1. gr. tekur ekki til kvikmynda þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upplýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar.
    Úrskurðir kvikmyndaskoðunarnefndar skulu vera skriflegir og skal fylgja þeim rökstuðningur. Þeir skulu kynntir aðilum sem hlut eiga að máli og vera almenningi aðgengilegir. Úrskurðir kvikmyndaskoðunarnefndar eru endanlegir. Þó er kvikmyndaskoðunarnefnd heimilt, ef sérstök ástæða þykir til, að meta að nýju án endurgjalds sýningarhæfni kvikmynda sem áður hafa verið metnar.
    

4. gr.


    Þeim aðilum sem framleiða kvikmyndir hér á landi, flytja þær til landsins eða ætla að sýna, dreifa og eða selja kvikmyndir hérlendis er skylt að sjá til þess að kvikmyndaskoðunarnefnd fái þær umsvifalaust til skoðunar, sbr. þó 5. gr.
    Þeim aðilum sem getið er í 1. mgr. ber að greiða skoðunargjöld sem renna í ríkissjóð. Skoðunargjöldin ákvarðast í reglugerð og skal fjárhæð þeirra taka mið af kostnaði vegna skoðunar kvikmynda.
    

5. gr.


    Sjónvarpsstöðvar sem leyfi hafa til útvarps annast skoðun kvikmynda sem sýna á í dagskrá, að höfðu samráði við kvikmyndaskoðunarnefnd. Menntamálaráðherra getur þó ákveðið að tiltekin kvikmynd skuli skoðuð af kvikmyndaskoðunarnefnd sem hefur þá úrskurðarvald um það hvort sýning kvikmyndarinnar brjóti gegn ákvæðum laga þessara.
    

6. gr.


    Kvikmyndaskoðunarnefnd gefur út vottorð um skoðun kvikmyndar sem skal að skoðun lokinni látið skoðunarbeiðanda í té ásamt eintaki kvikmyndar gegn greiðslu skoðunargjalds.
    Sala, dreifing eða sýning kvikmyndar er óheimil nema fyrir liggi skoðunarvottorð kvikmyndaskoðunarnefndar, sjá þó 5. gr.
    

7. gr.


    Aðilum skv. 1. mgr. 4. gr. er skylt að sjá til þess að öll eintök hinnar skoðuðu kvikmyndar séu merkt af kvikmyndaskoðunarnefnd. Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður kvikmyndaskoðunarnefndar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Kvikmyndaskoðunarnefnd skal a.m.k. tvisvar á ári gefa út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra.
    

8. gr.


    Ef kvikmynd, sem sýna á í kvikmyndahúsi, er bönnuð börnum innan tiltekins aldurs ber forstöðumaður kvikmyndahússins ábyrgð á að banninu sé framfylgt. Bannið gildir einnig þó að barn sé í fylgd þess sem heimild hefur til að sjá viðkomandi kvikmynd.
    Óheimilt er að lána, leigja eða selja börnum eintak kvikmyndar ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að banninu sé framfylgt að því er tekur til kvikmyndaefnis sem þar er á boðstólum.
    

9. gr.


    Barnaverndarnefndir og löggæslumenn skulu hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum kvikmyndarskoðunarnefndar sé framfylgt og að aðeins séu sýndar kvikmyndir eða þeim dreift sem merktar eru af kvikmyndaskoðunarnefnd.
    Tollyfirvöld og kvikmyndaskoðunarnefnd skulu koma sér saman um verklagsreglur í þeim tilgangi að hamla gegn innflutningi ofbeldiskvikmynda samkvæmt lögum þessum.

10. gr.


    Brot gegn ákvæðum laga þessara skulu varða sektum eða varðhaldi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Um rannsókn og meðferð mála vegna meintra brota á lögum þessum skal farið að hætti laga um meðferð opinberra mála.
    Heimilt er að gera upptækar kvikmyndir ef sýning, dreifing eða sala þeirra fer í bága við ákvæði laga þessara. Hið upptæka skal vera eign ríkissjóðs.
    

11. gr.


    Heimilt er ráðherra að setja reglur um skoðun tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki til að tryggja að notkun þeirra sé ekki í ósamræmi við tilgang laga þessara, sbr. 1.–3. gr. Skal þá haga slíkri skoðun með áþekkum hætti og skoðun kvikmynda að fengnum tillögum kvikmyndaskoðunarnefndar.
    

12. gr.


    Menntamálaráðherra skal setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
    

13. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og þá falla jafnframt úr gildi lög nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum, með síðari breytingum.
         

Ákvæði til bráðabirgða.


    Skipun núverandi skoðunarmanna og ráðning forstöðumanns fellur niður við gildistöku laga þessara. Menntamálaráðherra skipar kvikmyndaskoðunarnefnd og forstöðumann hennar frá og með sama tíma.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi því sem hér liggur fyrir er stefnt að því að fella saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum, sbr. lög nr. 33/1983, og ákvæði um skoðun kvikmynda til að meta sýningarhæfni þeirra fyrir börn en slík ákvæði voru áður í lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966.
    Frumvarpið er samið með hliðsjón af tillögum nefndar sem menntamálaráðuneytið skipaði til að endurskoða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum en nefndin skilaði tillögum að frumvarpi árið 1992. Í nefndinni voru Þórunn J. Hafstein, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, formaður, Haraldur Johannessen, þáverandi formaður Barnaverndarráðs Íslands, og Snorri Olsen, deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu. Við undirbúning frumvarpsins var leitað umsagnar og álits ýmissa aðila en lokagerð þess var unnin í menntamálaráðuneytinu.
    Auk lagaákvæða þeirra sem að framan getur var m.a. tekið mið af eftirfarandi ákvæði 1. mgr. 22. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnskipunarfyrirmælum í aðildarríkjum um sjónvarpsrekstur (89/552/EBE) sem er hluti af samningi um EES, svohljóðandi:
    „Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að sjónvarpssendingar, sem lögsaga þeirra nær yfir, innihaldi ekki dagskrárefni sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, einkum og sér í lagi dagskrár sem í felst klám eða tilefnislaust ofbeldi. Þetta ákvæði skal einnig ná til dagskrárefnis sem líklegt er til þess að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, nema þegar tryggt er, með vali á útsendingartíma eða með einhverjum tæknilegum ráðstöfunum, að börn og ungmenni á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar.“
    Frumvarpið felur ekki í sér nýmæli að því er varðar þann megintilgang löggjafarinnar sem kemur fram í 1.–3. gr. og má orða þannig: Að stemma stigu við sýningu kvikmynda þar sem gróft ofbeldi er birt án þess að þjóna tilgangi upplýsinga eða listar, svo og að vernda börn eins og kostur er gegn öðru kvikmyndaefni sem talið er þeim skaðvænlegt. Vert er þó að vekja athygli á nýmæli í 11. gr. þar sem ráðherra er fengin heimild til þess að fella svokallaða tölvuleiki undir hliðstæða skoðunarkvöð og kvikmyndir lúta. „Myndefni“ af þessu tagi er tiltölulega nýtt fyrirbæri en í örri útbreiðslu og kann að reynast full ástæða til að fylgjast með því hvaða viðfangsefni börnum eru fengin á þeim vettvangi.
    Frumvarpið gerir ekki heldur ráð fyrir stórfelldum breytingum á tilhögun kvikmyndaeftirlits frá því sem tíðkast hefur. Fjöldi skipaðra skoðunarmanna hefur ekki verið bundinn í lögum en þeir hafa í raun verið sex talsins undanfarin ár og hér er gert ráð fyrir því að það haldist óbreytt. Tekið er upp heitið kvikmyndaskoðunarnefnd fyrir skoðunarmannahópinn og gert ráð fyrir að einn nefndarmanna gegni starfi forstöðumanns en sú framkvæmd hefur tíðkast um árabil.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Þessi grein er efnislega óbreytt frá ákvæðum núgildandi laga. Bann á innflutningi, framleiðslu og hvers kyns dreifingu ofbeldiskvikmynda nær til allra slíkra kvikmynda hvort heldur þær eru ætlaðar til sýninga í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða í öðrum myndmiðlum innan íslenskrar lögsögu.
    Skilgreining á ofbeldiskvikmynd er hin sama og verið hefur í lögum um ofbeldiskvikmyndir. Sama gildir um skilgreiningu á „kvikmynd“ að því frátöldu að nú er tekið fram að fréttaefni, auglýsingar og fræðsluefni sé undanskilið efnissviði laganna.
    

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um skipan sérstakrar nefndar sem annast skoðun kvikmynda og mat á sýningarhæfni þeirra. Í reynd hefur slík starfsemi verið við lýði á grundvelli laga um bann við ofbeldiskvikmyndum og laga um vernd barna og ungmenna og reglugerðar um skoðun kvikmynda hjá Kvikmyndaeftirliti ríkisins.
    Æskilegt er að skoðunarmenn kvikmynda hafi til að bera menntun á sviði uppeldisfræði, sálfræði, kvikmyndagerðar, fjölmiðlafræði, lögfræði, afbrotafræði eða öðrum sviðum sem hlutverk þeirra tengist en ekki þykir ástæða til þess að binda slíkar kröfur í lögum. Skoðunarmenn kvikmynda samkvæmt fyrri lögum hafa verið tilnefndir af barnaverndarráði einvörðungu. Í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á starfssviði barnaverndarráðs með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, er hér lagt til að í stað barnaverndarráðs tilnefni félagsmálaráðherra þrjá fulltrúa í kvikmyndaskoðunarnefnd sem jafnframt verði skipuð fulltrúa kvikmyndagerðarmanna og dómsmálaráðuneytis, auk þess sem menntamálaráðherra skipar einn nefndarmanna án tilnefningar.
    Hlutverk kvikmyndaskoðunarnefndar er fyrst og fremst að skoða kvikmyndir og meta sýningarhæfni þeirra og móta stefnu um þau atriði. Við það er miðað að forstöðumaður nefndarinnar fáist við eða sjái um daglegan rekstur, þar með talda færslu skráa og gerð heildaryfirlits yfir skoðaðar myndir og enn fremur merkingar kvikmyndaeintaka og önnur framkvæmdaratriði.
    

Um 3. gr.


    Hlutverk kvikmyndaskoðunarnefndar er að meta hvort um ofbeldiskvikmyndir er að ræða og hvort kvikmyndir séu við hæfi barna, sbr. athugasemdir við 2. gr. Með börnum samkvæmt frumvarpi þessu er átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs. Gert er ráð fyrir að aldursmörk þau sem sýningarhæfni kvikmynda miðast við séu ákveðin með reglugerð. Aldur barns miðist við afmælisdag þess. Þá er nú kveðið á um að mat kvikmyndaskoðunarnefndar á sýningarhæfni kvikmynda geti verið mismunandi eftir því um hvers konar myndmiðla er að ræða.
    Ákvarðanir nefndarinnar skulu vera í ákveðnu formi og aðgengilegar aðilum og almenningi. Áskilið er að kvikmyndaskoðunarnefnd rökstyðji niðurstöður sínar ef takmarkanir eru settar á sýningu eða dreifingu kvikmynda og að þær niðurstöður séu opinberar. Þótt fyrirmæli um þessi atriði hafi ekki verið í lögum eru þau í samræmi við það sem tíðkast hefur í framkvæmd undanfarin ár. Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir og er ekki gert ráð fyrir því að unnt sé að skjóta niðurstöðu kvikmyndaskoðunanefndar til menntamálaráðuneytisins, enda er ætlast til þess að skoðunarmenn kvikmynda hafi til að bera fullnægjandi sérþekkingu til að meta kvikmyndir og tryggja efnislega rétta niðurstöðu samkvæmt þessum lögum. Eftir sem áður er unnt að leita til ráðuneytis sem yfirstjórnvalds málaflokksins með erindi er varðar eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk þess og að sjálfsögðu útilokar ekki lagaákvæði þetta að leitað sé til dómstóla um lögmæti úrskurða nefndarinnar en slíkt málskot frestar ekki framkvæmd á úrskurði nefndarinnar.
    

Um 4. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skyldu til þess að koma kvikmyndum til skoðunar.
    Kveðið er á um gjaldtöku vegna skoðunar. Í meginatriðum er miðað við að gjaldtaka vegna skoðunar kvikmynda breytist ekki frá því sem nú er en gjöld vegna skoðunar kvikmynda eru nú þrenns konar:
    Sérstakt gjald fyrir skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsum.
    Sérstakt grunngjald vegna skoðunar myndbanda að viðbættu mínútugjaldi sem tekur mið af mismunandi lengd kvikmynda á myndböndum.
    Miðagjald, þ.e. sérstakt gjald vegna kostnaðar við prentun vottorðsmiða, þar sem niðurstöður mats kvikmyndaskoðunarnefndar koma fram og fylgir hverju eintaki myndbands.
    Miðað er við að gjöld þessi renni í ríkissjóð og að þau verði aldrei hærri en sem nemur kostnaði við starfsemi kvikmyndaskoðunarnefndar.
    

Um 5. gr.


    Ekki þykir ástæða til að hverfa frá þeirri tilhögun að sjónvarpsstöðvar annist sjálfar skoðun kvikmynda sem þær hyggjast sýna í dagskrá sinni enda sé haft um það samráð við kvikmyndaskoðunarnefnd. Telja má þennan hátt eðlilegan með hliðsjón af þeirri ábyrgð á dagskrárefni sem sjónvarpsstöðvunum er lögð á herðar samkvæmt útvarpslögum, auk þess sem hagkvæmnisástæður mæla með honum. Ákvæði sama efnis og hér er gert ráð fyrir að lögfesta eru nú í reglugerð.
    

Um 6. gr.


    Hér er fortakslaust kveðið á um að hvers kyns dreifing kvikmynda sé óheimil nema að undangenginni skoðun hjá kvikmyndaskoðunarnefnd og að niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir. Um undantekningu að því er varðar sjónvarpsdagskrár er mælt í 5. gr., sjá athugasemd við þá grein.
    

Um 7. gr.


    Hér eru tekin af tvímæli um skyldu framleiðenda kvikmynda, innflytjenda og dreifingaraðila til þess að sjá um að öll eintök kvikmynda er þeir hafa undir höndum séu rétt merkt að því er varðar mat kvikmyndaskoðunarnefndar. Jafnframt er áskilið að þessir aðilar skuli láta niðurstöður kvikmyndaskoðunarnefndar fylgja auglýsingum og kynningu á kvikmyndunum.
    Nýmæli er að skylda kvikmyndaskoðunarnefnd til að gefa út a.m.k. tvisvar á ári heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir en slíkar skrár hafa þó verið gerðar að undanförnu. Tilgangur með slíkri útgáfu er fyrst og fremst að gera mat skoðunarmanna á sýningarhæfni aðgengilegt almenningi. Rétt er að senda slík yfirlit til fjölmiðla, barnaverndaryfirvalda, lögreglustjóra og annarra hlutaðeigandi aðila. Æskilegt er einnig að gera sérstakt yfirlit yfir þær kvikmyndir sem bannaðar hafa verið.
    

Um 8. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að áfram verði í gildi ótvíræðar reglur um aðgang barna og ungmenna að kvikmyndum í kvikmyndahúsi. Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að óheimilt sé að afhenda börnum kvikmynd ef hún er bönnuð börnum á þeirra aldri. Töluverður misbrestur hefur verið á því að þess sé gætt og á það einkum við um myndbandaleigur. Því er í frumvarpi þessu gerð tillaga um skýr ákvæði er lúta að ábyrgð þess sem rekur myndbandaleigu á að framfylgja niðurstöðum kvikmyndaskoðunarnefndar í starfsemi sinni.
    

Um 9. gr.


    Þessi grein er efnislega sambærileg við ákvæði fyrri laga, sbr. 8. mgr. 58. gr. áðurgildandi laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, og 3. gr. laga um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33/1983. Þó er gert ráð fyrir því að eftirlit löggæslu og barnaverndarnefnda verði skipulegra en tíðkast hefur.
    Rétt er að vekja athygli á því að við setningu nýrra laga um vernd barna og ungmenna árið 1992 var tekið mið af því að þá stóð yfir endurskoðun löggjafar um skoðun kvikmynda og um bann við ofbeldiskvikmyndum. Skilja má orðalag 56. gr. laga nr. 58/1992 þannig að barnaverndarnefndir séu undanþegnar þeirri skyldu að hafa eftirlit með því að börnum séu aðeins sýndar kvikmyndir sem kvikmyndaeftirlitið hefur leyft.
    Þar sem í frumvarpi þessu er gerð tillaga um óbreytta skipan í þessum efnum frá áðurgildandi löggjöf um skoðun kvikmynda, sbr. það sem áður segir, þykir jafnframt nauðynlegt að breyta orðalagi 56. gr laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, þannig að skylda barnaverndarnefnda í þessum efnum sé ótvíræð. Er tillaga gerð um það í frumvarpi til laga um breyting á þeim lögum.
    Þá er rétt að vekja athygli á því að með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir samvinnu kvikmyndaskoðunarnefndar og tollyfirvalda í þeim tilgangi að stemma stigu við innflutningi ofbeldiskvikmynda.
    

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að refsiramminn er lækkaður frá því sem nú er og höfð hliðsjón m.a. af 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá þótti nauðsynlegt að lögin kveði á um heimild til eignaupptöku á ólöglegum kvikmyndum, sbr. 4. gr. laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    

Um 11. gr.


    Með grein þessari er ráðherra heimilað að setja sérstakar reglur um skoðun svokallaðra tölvuleikja, þ.e. tölvuforrita sem hafa að geyma gagnvirka leiki. Talsvert hefur færst í vöxt að tölvuleikir innihaldi umtalsvert ofbeldi sem kann að vera börnum og unglingum háskalegt, ekki síst vegna þess að gert er ráð fyrir virkri þátttöku þeirra í leiknum.
    

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir nokkurri formbreytingu á kvikmyndaeftirlitinu þykir eðlilegt að skipun núverandi skoðunarmanna og ráðning núverandi forstöðumanns falli niður við gildistöku laganna enda taki skipun kvikmyndaskoðunarnefndar og forstöðumanns hennar gildi frá sama tíma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um


skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.


    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að fella saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og byggir frumvarpið í meginatriðum á núverandi framkvæmd og ákvæðum laga nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna, og laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Fyrrnefndu lögin voru endurskoðuð 1992 en þá var felldur brott kafli um skoðun kvikmynda. Í þessu frumvarpi er það nýmæli að skoðun tekur einnig til tölvuleikja. Gert er ráð fyrir að skipuð verði sex manna kvikmyndaskoðunarnefnd og verður einn nefndarmanna forstöðumaður nefndarinnar. Á vegum kvikmyndaskoðunarnefndar fer fram skoðun allra kvikmynda sem ætlaðar eru til sýningar eða dreifingar hér á landi, að því frátöldu að sjónvarpsstöðvar, sem hafa leyfi til útvarps, annast skoðun kvikmynda sem sýna á í dagskrá að höfðu samráði við kvikmyndaskoðunarnefnd. Þetta er í reynd í meginatriðum það skipulag sem ríkt hefur undanfarin ár þó kveðið sé nánar á um ýmis atriði.
    Í 2. gr. segir að þóknun kvikmyndaskoðunarnefndar og annar rekstrarkostnaður greiðist úr ríkissjóði en í 4. gr. er kveðið á um skoðunargjöld og er sagt að þau skulu taka mið af kostnaði vegna skoðunar kvikmynda. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að miðað sé við að gjaldtaka vegna skoðunar kvikmynda breytist ekki frá því sem nú er en verði aldrei hærri en sem nemur kostnaði við starfsemi kvikmyndaskoðunarnefndar.
    Í ljósi framangreinds er ekki gert ráð fyrir kostnaðarauka vegna þessa frumvarps. Framlag til Kvikmyndaeftirlits ríkisins er áætlað 1,6 m.kr. í frumvarpi til fjárlaga 1995 og er það svipað og undanfarin ár.