Ferill 251. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 251 . mál.


294. Frumvarp til laga



um samsetta flutninga o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

(Lagt fyrir Alþingi á 118. löggjafarþingi 1994.)



1. gr.


    Tilgangur laga þessara er að fullnægja þeim skuldbindingum sem leiðir af ákvæðum 6. kafla III. hluta samnings um Evrópskt efnahagssvæði um flutningastarfsemi og XIII. viðauka við samninginn og eigi verður skipað í önnur lög.
    

2. gr.


    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga á grundvelli 1. gr.
    

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Ákvæði EES-samningsins um lögfestingu gerða og aðlögun.


    Í 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er kveðið á um að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila og skuli teknar upp í landsrétt.
    Í 6. kafla III. hluta EES-samningsins, sbr. lög 2/1993, eru almenn ákvæði um flutningastarfsemi og í XIII. viðauka hans eru taldar allar þær gerðir eða samþykktir Evrópusambandsins er lúta beint að flutningastarfsemi og lögfesta þarf hér á landi með beinum eða óbeinum hætti samkvæmt samningnum, sbr. hér að framan. Alþingi samþykkti með þingsályktun dags. 11. maí 1994 viðbætur við ofangreinda viðauka. Hér er um að ræða 11. viðauka við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 7/94. Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði nokkrar gerðir sem taldar eru upp í viðauka við upphaflega samninginn og í viðbótarbókuninni.
    Á síðasta þingi var lagt fram sérstakt „frumvarp til laga um flutninga á járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu“. Þetta lagafrumvarp náði til ýmissa gerða XIII. viðauka um flutningastarfsemi, einkum þess hluta sem fjallar um flutninga á landi og vegum, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum. Íslensk flutningafyrirtæki starfa takmarkað á sumum þeim sviðum og hefur því gildistaka þeirra ekki mikla raunhæfa þýðingu hér á landi.
    Nú hefur eftirlitsstofnun EFTA fallist á að Ísland þurfi ekki að taka upp í landsrétt þær gerðir er lúta að flutningum með járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum. Hins vegar er Íslendingum skylt að lögfesta aðrar gerðir, m.a. á sviði samsettra flutninga, sem geta haft áhrif hér á landi. Með þessu frumvarpi er lagt til að svo verði gert.

II. Hvaða gerðir XIII. viðauka er ætlunin að setja í lög


með þessu lagafrumvarpi?


    Hér á eftir eru taldar tæmandi gerðir EES sem falla undir þetta frumvarp. Auk þess er greint frá meginefni hverrar gerðar og aðlögun að ákvæðum EES-samningsins.
     1. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1107/70 frá 4. júní 1970 um aðstoð vegna flutninga á járnbrautum, vegum og skipagengum vatnaleiðum (nr. 11 í XIII. viðauka).
    Ásamt breytingum:
—    172B Lög um aðildarskilmála og aðlögun að sáttmálunum.
—    375R1473: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1473/75 frá 20. maí 1975.
—    382R1658: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1658/82 frá 10. júní 1982.
—    389R1100: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 110/89 frá 27. apríl 1989.
—    392R3578: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3578/92 frá 7. desember 1992.
     Innihald gerðar: Reglugerðin gildir um aðstoð sem veitt er til flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum að svo miklu leyti sem slík aðstoð tengist starfsemi á þessu sviði. Samkvæmt henni skulu slíkir styrkir veittir í samræmi við 61. grein EES-samningsins (sem samsvarar 92.–94. gr. Rómarsáttmálans). Meginregla þessara greina sáttmálans er bann við opinberum styrkjum sem raska samkeppnisstöðu fyrirtækja. Þó er heimilt að veita styrki í ákveðnum tilvikum. Í þessari reglugerð eru talin upp þau tilvik eða verkefni sem réttlætt geta styrkveitingu. Eftirlit með framkvæmd styrkjanna er bæði í höndum framkvæmdastjórnarinnar og sérstakrar ráðgjafanefndar sem skipuð er henni til stuðnings. Síðastnefnda breytingin (reglugerð ráðsins nr. 3578/92 frá 7. desember 1992) er hluti af breytingu á viðaukum EES-samningsins. Samkvæmt henni er framlengdur gildistími áætlunar um styrki til samsettra flutninga til ársloka 1995.
     Aðlögun EES-samningsins: Í 5. gr. reglugerðarinnar komi „lögbæru yfirvaldi eins og það er skilgreint í 62. gr. EES-samningsins“ í stað „framkvæmdastjórninni“.
     2. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4060/89 frá 21. desember 1989 um afnám á eftirliti sem framkvæmt er á landamærum í aðildarríkjum vegna flutninga á vegum og skipgengum vatnaleiðum (nr. 12 í XIII. viðauka).
    Ásamt breytingum:
—    391 R 3356: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3356/91 frá 7. nóvember 1991.
     Innihald gerðar: Fjallar eins og að ofan greinir um afnám eftirlits sem framkvæmt er á landamærum vegna flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum með farartækjum sem eru skráð eða viðurkennd í viðkomandi aðildarríki. Reglugerðin hefur ekki áhrif hér á landi. Breytingin (reglugerð ráðsins nr. 3578/92 frá 7. desember 1992) er hluti af breytingu á viðaukum EES-samningsins. Samkvæmt breytingunni er lögð áhersla á að eftirlit með hættulegum varningi fari fram innan landamæra ríkja, en ekki á landamærunum.
     Aðlögun EES-samningsins: Sérákvæði um landamæraeftirlit er varða lýðveldið Austurríki. Vísað er til 17. gr. samnings milli Evrópubandalagsins og lýðveldisins Austurríki (svokallaður umflutningssamningur).
     3. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3912/92 frá 17. desember 1992 um eftirlit innan bandalagsins á sviði flutninga á vegum og skipgengum vatnaleiðum með samgöngutækjum sem eru skráð eða tekin í notkun í þriðja landi (kemur sem nýr liður í viðaukann: nr. 12.a. í XIII. viðauka).
     Innihald gerðar: Reglugerðin rýmkar gildissvið reglugerðar 4060/89 svo hún gildir einnig um farartæki sem skráð er í þriðja ríki.
     Aðlögun EES-samningsins: a. Fram til 1. janúar 2005 getur Austurríki viðhaft áfram á landamærum sínum eftirlit sem getur um í b-lið 2. hluta viðaukans við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4060/89 og einnig eftirlit til að sannreyna að ökutæki sem er skráð eða sett í umferð í þriðja landi uppfylli kvótafyrirkomulag milli Austurríkis og hlutaðeigandi þriðja lands og landslög í Austurríki um þyngd, mál og önnur einkenni ökutækja. b. Eftirfarandi komi í stað 1. málsl. 4. gr.: „Við framkvæmd þessarar reglugerðar, og í samræmi við 13. gr. bókunar 10 við EES-samninginn, skulu ákvæði bókunar 11 við EES-samninginn gilda að breyttu breytanda.“
     4. Tilskipun ráðsins 92/106/EBE frá 7. desember 1992 um setningu sameiginlegra reglna fyrir tilteknar tegundir samsettra vöruflutninga milli aðildarríkja (kemur í stað 13. liðar XIII. viðauka).
     Innihald gerðar: Tilskipun fellir úr gildi eldri tilskipun um samsetta flutninga og rýmkar skilgreininguna á samsettum flutningum, þannig að þeir ná nú einnig til þess hluta flutnings sem fer fram með skipum.
     Aðlögun EES-samningsins: a. Við 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar bætast heiti viðkomandi gjalda í EFTA-ríkjum EES-samningsins. Fyrir Ísland bætist við „Þungaskattur“.
     5. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4058/89 frá 21. desember 1989 um ákvörðun flutningsgjalda í vöruflutningum á vegum milli aðildarríkja (nr. 27 í XIII viðauka).
     Innihald gerðar: Reglugerðin gildir um vöruflutninga á vegum gegn gjaldi milli aðildarríkjanna, jafnvel þótt farið sé gegnum land utan bandalagsins eða farartækið sé flutt á annan hátt. Samkvæmt reglugerðinni eru flutningsgjöld ákveðin í frjálsum samningum milli aðila.
     6. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3572/90 frá 4. desember 1990 um breytingu vegna sameiningar Þýskalands á tilteknum tilskipunum, ákvörðunum og reglugerðum er varða flutninga á vegum, járnbrautum og skipgengum vatnaleiðum (nr. 36 í XIII. viðauka).
     Innihald gerðar: Heiti gerðar skýrir efni hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er skilgreindur tilgangur laganna sem er að fullnægja þeim skuldbindingum sem leiðir af ákvæðum 6. kafla III. hluta samnings um Evrópskt efnahagssvæði og XIII. viðauka við samninginn og breytingu á þeim og eigi verður skipað í önnur lög.
    

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði heimild samgönguráðherra til þess að setja í reglugerð þær gerðir EES-samningsins á grundvelli 1. gr. og um er getið í XIII. viðauka EES-samningsins. Um efni þeirra vísast til upptalningar gerða í almennum athugasemdum.
    

Um 3. gr.


    Ákvæðið um gildistöku þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um samsetta flutninga o.fl.


vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.


    Með frumvarpinu er fullnægt ýmsum skuldbindingum á sviði samsettra flutninga o.fl. sem leiðir af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.