Ferill 363. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 363 . mál.


589. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Páll Pétursson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir, Guðni Ágústsson,


Stefán Guðmundsson.



1. gr.


    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo: Mótframlag eigin iðgjalds einstaklings í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi til lífeyrissjóðs sem hlotið hefur staðfestingu fjármála ráðuneytisins.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1996 á tekjur ársins 1995.

Greinargerð.


    Iðgjöld í lífeyrissjóði eru yfirleitt um 10% af launum og er algengast að launþeginn greiði 4% og launagreiðandinn 6%. Launagreiðendum er almennt heimilt að draga þann iðgjaldahluta er þeir greiða frá skattskyldum tekjum atvinnurekstrarins en launþeganum er hins vegar gert að greiða fullan skatt af sínum hluta. Sjálfstæðir atvinnurekendur greiða allt iðgjaldið sjálfir, oft um 10% af reiknuðum launum, en fá hins vegar engan skattfrádrátt á sínar iðgjaldagreiðslur, ekki einu sinni af samsvarandi 6% hluta og launagreiðendum er heimilt að nýta til frádráttar.
    Í flestum löndum Evrópu eru iðgjöld, sem greidd eru vegna lífeyris, frádráttarbær frá tekjum til skatts að hluta eða öllu leyti óháð því hvort það er launþeginn eða launagreiðandinn sem greiðir iðgjöldin. Slíkar skattareglur eru mun skynsamlegri en sú leið sem ríkisstjórnin valdi nú fyrir áramót um að hluti greidds lífeyris yrði frádráttarbær en ekki iðgjöldin. Brýnast er þó að koma til móts við sjálfstæða atvinnurekendur enda ekki rök fyrir því að þeir búi við sínu verri stöðu í skattalegu tilliti en aðrir borgarar þessa lands.