Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1994–95. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 419 . mál.


683. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum, sbr. lög nr. 102/1994, orðast svo:
    Viðskiptaráðherra er heimilt að setja reglugerðir um öryggi vöru sem boðin er neytendum hér á landi í atvinnuskyni eða neytendum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins af aðilum sem staðfestu hafa hér á landi að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði og að því leyti sem ekki er kveðið á um öryggi hlutað eigandi vöru og eftirlit með því að hún uppfylli settar kröfur í öðrum löndum.
    Í reglugerð skal kveðið á um hvernig eftirliti með því að vara uppfylli þær kröfur sem til hennar eru gerðar skuli háttað og rétt skoðunarstofa til aðgangs að eftirlitsskyldri vöru.
    Löggildingarstofan annast eftirlit skv. 2. mgr.
    Ákvæði þetta fellur úr gildi 1. janúar 1997.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd hefur í vetur legið frumvarp til laga um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, 198. mál. Sams konar frumvarp lá fyrir nefndinni á síðasta þingi en ekki náðist samkomulag um að afgreiða málið. Vegna EES-samningsins taldi nefndin þó nauð synlegt að veita viðskiptaráðherra heimild til að setja reglugerðir um öryggi þeirra vöruflokka sem ekki er kveðið á um í öðrum lögum og hvernig eftirliti með þeim skuli háttað. Þetta var gert með lögfestingu ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, sem skyldi falla úr gildi 1. júní 1995. Nú er sýnt að ekki mun takast að afgreiða frumvarp um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu á þessu þingi og hefur því nefndin ákveðið að framlengja hið umrædda bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 100/1992 til 1. janúar 1997. Ein efnisbreyting hefur verið gerð á ákvæðinu sem á að tryggja rétt skoðunarstofa til að skoða vöru hjá seljendum. Um skýringar vísast að öðru leyti til greinargerðar með frumvarpi nefndarinnar eins og það var lagt fram á 117. löggjafarþingi, þskj. 1227.