Tilkynning um dagskrá

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 10:46:37 (48)


[10:46]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. vék nú ekki að því hér í sinni seinni ræðu að í upphafi máls síns í dag lýsti hann því yfir að ef ekki yrði fallist á þessa beiðni hans þá liti hann svo á að þar með væri verið að beina þeim tilmælum nánast, þó ég muni nú ekki nákvæmlega orðlagið, til stjórnarinnar að hún taki upp þann sið að setja frv. í bandorm. Það var það sem ég kallaði hótun, hæstv. fjmrh., að ríkisstjórnin færi að taka upp svo óeðlileg vinnubrögð.
    Áður en ég svara endanlega beiðni hæstv. fjmrh. þá vil ég spyrja hann að því hvort hann geti þá fallist á það á móti að málið verði ekki tekið fyrir í fjarveru hans. Hæstv. fjmrh. lýsti því yfir að hann þyrfti að fara á þessa mikilvægu fundi. Það má vel vera að fjármálaráðherrafundir Norðurlanda séu nú allt í einu orðnir svona merkilegir. Þeir voru nú satt að segja einhverjir ómerkilegustu hreppsnefndarfundir sem ég hef nokkurn tímann setið þegar þeir voru haldnir í minni tíð. Aðalvandamálið var að finna eitthvað til að tala um þá tvo tíma sem fundurinn átti að standa. En það er nú gott að þessir fundir séu orðnir mikilvægir. Um OECD-fundinn skal ég ekkert segja, ég þekki það ekki. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Er hann reiðubúinn til að fallast á að málið verði ekki rætt í fjarveru hans? Eða er óskin sem sagt bæði sú að hann fái að tala fyrir málunum báðum í einu og svo eigi umræður að halda áfram á meðan hann er í burtu? Ef það er verið að biðja um hvort tveggja, hæstv. ráðherra, þá vil ég segja að það er fullkomlega óeðlilegt að ráðherra sé að biðja um hvort tveggja í senn, að fá að mæla fyrir málunum í einu og svo eigi þingið að tala um málin þegar hann er í burtu. Ef ráðherrann aftur á móti er tilbúinn til þess að málið sé tekið fyrir þegar hann er hér til andsvara en það sé ekki verið að nota einhvern staðgengil sem veit lítið um málið þá er alveg sjálfsagt að skoða þetta en mér finnst ekki koma til greina að fallast á hvort tveggja.
    Hins vegar hefði ég talið eðlilegra, hæstv. ráðherra, að umræður af þessu tagi færu fram við forseta þingsins áður en fundur hæfist. Við ræddum þessi mál, ég og forseti þingsins, fyrir þennan fund. Honum var fullkomlega ljós afstaða okkar alþýðubandalagsmanna. Það er fjmrh. sem er að nota ræðustólinn hér og þingfundinn til þess að halda áfram umræðum sem við töldum okkur í þingflokki Alþb. vera búna að ljúka við forseta þingsins áður en fundur hófst. Og af því að þetta er hér í byrjun þings þá vil ég eindregið lýsa þeirri skoðun minni að það eigi að ræða mál af þessu tagi við forseta þingsins áður en fundir hefjast en ráðherra sem ekki vill una því sem verður niðurstaðan á ekki að vera að taka fundartíma hér í ræðuhöld af þessu tagi.