Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

4. fundur
Mánudaginn 22. maí 1995, kl. 18:29:51 (127)



[18:29]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég vil aðeins árétta í þessu sambandi að það verður eitt að gilda yfir alla þingmenn, hv. þm. Vilhjálm Egilsson jafnt sem aðra þingmenn. Það er nefnilega þannig eins og ég sagði að hin almenna regla stjórnsýslunnar getur ekki gilt hér. Hér hefur verið dreift í þinginu frv. til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka og hver skyldi nú flytja það? Formaður stjórnmálaflokks. Um fjárreiður stjórnmálaflokka, og sér ekkert athugavert við það náttúrlega sem það er ekki. En þá verður það sama að gilda. Við ákveðum hér sameiginlega við hver einustu fjárlög fjárframlög til stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna, við greiðum atkvæði, ég og aðrir formenn og aðrir formenn þingflokka, og það er ekkert óeðlilegt vegna þess að það er ekki hægt að láta hinar almennu vanhæfisreglur stjórnsýslunnar gilda hér en það þarf eitt yfir alla að ganga í þeim efnum. En ég skal þó segja eins og ég sagði áðan að auðvitað kunna að vera einhver takmarkatilfelli sem er þá æskilegt að viðkomandi þingmenn sjálfir vegi og meti þannig að ekki séu þá erfiðleikar í samskiptum af þeim sökum.