Forsetaúrskurður um hæfi þingmanns til umfjöllunar um þingmál

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 14:00:52 (157)


     Forseti (Ólafur G. Einarsson) :
    Áður en 5. dagskrármál, Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, er tekið fyrir, mun forseti kveða upp úrskurð sem varðar það mál. Ætlun forseta var að kveða upp úrskurðinn þegar að því kæmi að vísa málinu til nefndar, en vegna eindreginna óska nokkurra hv. þm. getur forseti þó fallist á að lesa úrskurðinn nú, áður en umræðunni verður fram haldið. Forseti vill leggja á það sérstaka áherslu að þessi úrskurður tengist á engan hátt efnisumræðu í málinu. Úrskurðurinn er svohljóðandi:
    Í umræðum sl. föstudag um frv. til laga um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf óskaði hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, eftir því að forseti skæri úr um það, eins og hv. þm. orðaði það, hvort hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, sem hefur átt frumkvæði að því fyrir hönd Verslunarráðsins að kæra starfsemi áfengiseinkasölunnar til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, væri hæfur til að stýra þeirri nefnd sem á að fjalla um þetta mál, þ.e. efh.- og viðskn. Forseti vill vekja athygli á því að hér mun fyrst og fremst verið að draga í efa hæfi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar til að gegna formennsku í nefndinni þegar þetta ákveðna mál verður þar til meðferðar, ekki formennsku hans að öðru leyti.
    Þessi ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur gefur tilefni til hugleiðinga um það hvort einhverjum vanhæfisreglum sé til að dreifa á vettvangi löggjafarvaldsins líkt og er hjá dómstólum og stjórnsýsluhöfum. Svarið er nei. Slíkar vanhæfisreglur ná ekki til starfa þingmanna. Hvorki í stjórnarskránni né þingskapalögunum er að finna neinar reglur sem útiloka þingmann frá því að taka þátt í meðferð máls sem hann varðar sérstaklega ef undan er skilið ákvæði í 4. mgr. 64. þingskapalaga þar sem segir að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. En þar með eru vanhæfisreglur á vettvangi löggjafarvaldsins tæmandi taldar og engum öðrum til að dreifa.
    Alþingismenn eru í störfum sínum eingöngu bundnir við sannfæringu sína og standa aðeins kjósendum skil gerða sinna. Þeir eru ekki bundnir af hæfisreglum í störfum sínum og geta því tekið þátt í meðferð og afgreiðslu allra mála á þinginu. Það er einmitt ein af grundvallarreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að þingmenn taki ákvarðanir um hvaða hagsmuni á að taka fram yfir aðra. Séu þeir tengdir þeim með mjög persónulegum hætti er þeim auðvitað í sjálfsvald sett af siðrænum ástæðum að segja sig frá máli. Það er þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð.
    Forseti lítur svo á að afskipti hv. þm. Vilhjálms Egilssonar af málefnum áfengiseinkasölunnar utan þings geti á engan hátt haft áhrif á hæfi hans til að fjalla um umrætt mál í efh.- og viðskn. en telur að öðru

leyti eðlilegt að formleg ákvörðun um það hvort hv. þm. Vilhjálmur Egilsson stýrir fundum nefndarinnar, þegar málið er þar til umfjöllunar, sé í höndum nefndarinnar sjálfrar.