Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 15:05:44 (168)


[15:05]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Varðandi þann tíma sem ég hélt fram að Norðmenn hefðu til þess að afgreiða málið af sinni hálfu fyrir næstu áramót --- þó var þetta upplýst í umræðum um málið og nefndin hlýtur að skoða það þá sérstaklega. Ég ætla ekki að draga í efa orð ráðherrans um það að Norðmenn hafi sett það fram sjálfir að þeir munu afgreiða málið á því þingi sem nú stendur yfir.
    Mér finnst það mjög athyglisvert sem fram kom hjá hæstv. utanrrh. þar sem ég skildi orð hans svo að hann héldi því fram að utanrrn. hefði alltaf sagt að það þyrfti að skoða breytingar á skipan áfengismála í tengslum við þetta. Mér finnst það nýtt innlegg í umræðuna og ég vitna til skjals frá fjmrn. þar sem stendur að á fundi í sameiginlegu EES-nefndinni í febrúar sl. var fjallað um einkasölumálið. Lögð voru fram bréf Finnlands og Svíþjóðar til ESB sem skipuð voru í tengslum við aðildarviðræður þessara landa. Þar lýsa þessi ríki sig sammála því viðhorfi ESB að afnema þurfi einkasölu á öðrum stigum en smásölu við aðild þeirra við ESB þar sem annað sé andstætt Rómarsáttmálanum. Á fundi nefndarinnar lýsti fulltrúi íslenskra stjórnvalda, Hannes Hafstein sendiherra, því yfir að yfirlýsingar Svía og Finna sem gefnar voru í tengslum við aðildarviðræður þessara landa hefðu engin áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda. Hver var afstaða íslenskra stjórnvalda til þessa máls? Það kom m.a. fram í svari dómsmrh. við fyrirspurn hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar þar sem dómsmrh. hélt því fram að engar breytingar þyrfti að gera á skipan áfengismála í kjölfar EFTA-samningsins. Fjmrh. hefur ítrekað haldið því fram í umræðum um þetta mál, t.d. á síðasta þingi, að þetta hefði ekkert með það að gera að við þyrftum að breyta þessu vegna kröfu frá ESA heldur væri um að ræða breytingar á skipan áfengismála sem ríkisstjórnin teldi hagkvæmara. Þetta stangast því gersamlega á við það sem hér er haldið fram ef utanrrn. hefur alla tíð talið það vera svo að þetta hefði í för með sér breytingar á skipan áfengismála. Ég fæ ekki betur séð en það sé þvert á yfirlýsingu annarra ráðherra um þetta mál.