Ástand á geðdeildum og sumarlokun sjúkrahúsa

5. fundur
Þriðjudaginn 23. maí 1995, kl. 18:29:53 (208)


[18:29]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa menn komið inn á að nú væri komið að því að stjórnmálamenn þyrftu að taka ábyrga afstöðu. Það var gert í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og af fyrrv. heilbrrh. sem þá hafði taumhaldið á rekstri Ríkisspítalanna nokkuð í hendi sér og sá hvernig landið lá. Það er því nokkuð djarft teflt hér og nokkuð að ósekju deilt á núv. hæstv. heilbrrh. hvar hann stendur í þeim sporum sem fyrrv. heilbrrh. stóð. ( ÖS: Í sömu skóm.) Jæja, gekk fyrrv. heilbrrh. í háhæluðum skóm. Ég vissi það ekki.
    Vandi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu liggur alveg ljós fyrir. Hann er sá að stór hluti þess fólks sem býr úti á landi og þarf í aðgerð á spítala fer ekki til þess spítala sem næstur er heldur kemur til Reykjavíkur. Við þekkjum dæmi af því sem fyrrv. heilbrrh. hafði orð á. Það var dæmi um það að í fullbúnum spítala norðanlands með fullkominni skurðstofu, með einni og hálfri læknisstöðu hefðu verið framkvæmdar 40 aðgerðir á þessari merku skurðstofu sem kostaði jú mikið fé. En hverjar voru þær? Það voru 39 vörtur fjarlægðar og ein holskurðsaðgerð. Málið er einfaldlega það í hnotskurn að það þarf að endurbyggja og endurskoða allt spítalakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er slíkt ófremdarástand bæði á Landspítalanum og á Borgarspítalanum. Það er ekki orðið hægt að bjóða hjúkrunarfólki þá aðstöðu sem þar er lengur. Við erum komin langt aftur í gráa forneskju varðandi aðbúnað fyrir heilbrigðisstéttina á þessum tveimur spítölum. Það að hafa tekið það upp að sameina Borgarspítalann og Landakot er umhugsunarefni, hvort ekki hafi verið stigið þar rangt spor í stað þess að byggja nýjan spítala.
    En ég vil að lokum, hæstv. forseti, koma aðeins að því sem menn hafa verið að tala um varðandi heimahjúkrunina að það er mál út af fyrir sig og væri gott að fá upplýsingar um það hvað hún kostar. Hvað kostar heimahjúkrun í samanburði við það að takast á við byggingu hjúkrunarheimila og að fjölga þeim?