Framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kvenna og karla

6. fundur
Miðvikudaginn 24. maí 1995, kl. 15:46:44 (259)

[15:46]
     Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það var mikill misskilningur hjá hv. þm. ef hann hefur haldið að það sem ég sagði hafi verið það að ég ætlaðist til þess að hv. flutningsmenn færu eitthvað að skammast sín fyrir fyrri störf. Það er síður en svo. Ég tel víst að þær hafi gegnt þeim prýðilega vel og veit reyndar í mörgum tilfellum að þær gerðu það. Ég er reyndar ekki sammála alveg öllu sem þær hafa gert og ætla ekkert að taka alveg ábyrgð á fortíð þeirra en það er kannski ekki hægt að ætlast til þess.
    En ég ætla hins vegar úr því að ég er kominn hér í örstuttu máli að láta það koma fram vegna fyrirspurnar sem kom, og hefði reyndar átt að koma í andsvari frá mér fyrr, að ég lít ekki svo á að það sé skynsamlegt að skylda feður til þess að taka fæðingarorlof. Mér er það heldur andstæð hugmynd. Það getur vel verið að það sé rétt að auka rétt þeirra til að taka fæðingarorlof, en mér er það andstætt að skylda fólk til þess að taka orlof. Mér er líka andstætt að skylda mæður til að taka fæðingarorlof svo og svo lengi.