Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

7. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 16:15:33 (280)

[16:15]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alls ekki svo að ég ætli að að koma hér upp og verja almennt einhver sinnaskipti manna í stjórnmálum bara vegna þess að þeir færist úr stjórn yfir í stjórnarandstöðu og þaðan af síður svik við kjósendur, það er fjarri öllu lagi og ég vona að hv. þm. sé ekki að ætla mér neitt slíkt. Sömuleiðis er ekki rétt að ég sé að víkjast undan því að telja almennt óskynsamlegt að ræða liðna tíð í stjórnmálum og liðna atburði. Þetta er frekar spurningin um hvernig slíkir hlutir eru ræddir, í hvaða tilgangi þeir eru ræddir. Væntanlega þarf það að þjóna einhverjum uppbyggilegum tilgangi til þess að það sé þess virði að eyða tíma sínum í það. Ég hvet svona frekar að breyttu breytanda til þess að umræðan um það sem við stöndum frammi fyrir í dag og er fram undan okkur í þessum samskiptum t.d. við Evrópu og umheiminn almennt verði á slíkum nótum en ekki á þeim sem mér finnst brydda á í fari hv. þm., þ.e. að taka menn upp og reyna að negla menn fyrir það að þeir hafi haft rangt fyrir sér en ég rétt. Mér finnst þessi sjálfbirgingsháttur í tali hv. þm. enn koma fram, sem sagt ekki vottur af efasemdum að hann hafi í öllum tilvikum haft rétt fyrir sér, ævinlega farið með rétt mál og ef misskilningur hafi komið upp í sambandi við fullyrðingar hans þá er það ævinlega einhverjum öðrum að kenna, Þjóðhagsstofnun eða einhverjum slíkum sem fór með eitthvert fleipur, Hagfræðistofnun háskólans eða einhverjum slíkum. Sökinni er ævinlega komið á einhverja slíka.
    Varðandi trúnað við kjósendur er ég líka hvenær sem er tilbúinn til að fara í smáumræður um það og þá m.a. um hlutverk Alþfl. og hlutskipti í því. Eigum við þá t.d. að byrja á stjórnarskiptunum 1991? ( Gripið fram í: Til 1930.) Eigum við að byrja 1991 þegar Alþfl. lét svo í allri kosningabaráttunni að hann vildi halda áfram því vinstra samstarfi sem hann var þá í en strax á kosninganóttina var þáverandi og reyndar enn þá núverandi formaður flokksins kominn í bullandi stjórnarmyndunarviðræður með íhaldinu. Er það dæmi um trúnað við kjósendur, framkomu í kosningabaráttu og efndir eftir kosningar sem við eigum að hafa þá með í umræðunum, hv. þm.?