Aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði

8. fundur
Mánudaginn 29. maí 1995, kl. 17:30:22 (298)


[17:30]
     Margrét Frímannsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Það er rétt að það kemur fram í grg. með brtt. nefndarinnar að nefndin hefur verið sammála um að frv. eins og það var lagt fram taki ekki af allan vafa og gæsluvarðhaldsúrskurður sé aðeins heimild sem vonandi verði ekki nýtt. En ef ástæða var til --- ég ítreka það --- ef ástæða var til að taka af vafa varðandi annars konar dómarastörf var þá ekki full ástæða til þess að taka af allan vafa varðandi gæsluvaktirnar og gæsluvarðhaldsúrskurði? Frelsissvipting er einhver alvarlegasti dómur sem upp er kveðinn að mínu mati. Var þá ekki ástæða til að taka þann vafa af með því að fjölga héraðsdómurum vegna þess ástands á landsbyggðinni? Þar er oft aðeins starfandi einn héraðsdómari og einn dómarafulltrúi og það var það ástand sem kallaði á þessa undantekningu. Fannst þá nefndinni ekki ástæða til þess að taka þann vafa af með því að fjölga fullgildum héraðsdómurum?