Alþjóðaviðskiptastofnunin

10. fundur
Þriðjudaginn 30. maí 1995, kl. 17:39:32 (336)


[17:39]
     Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með það, ef ég má skilja orð hv. þm. svo, að henni sé mjög umhugað um það að landbrh. hafi forræðið í málinu. Ég held að það sé mikilvægt og ég leita þá eftir stuðningi hv. þm. ef það hefur eitthvað misfarist í því, þ.e. forræðismálinu, þannig að við getum þá lagað það í nefnd og séð til þess að það verði fært til rétts vegar og þess vegar sem þingið hafði ályktað um.
    Ég sagði það áðan að ég teldi að það væri ekki óeðlilegt að í tollalögum eða breytingum á tollalögunum væri kveðið á um forræði fjmrh., í þeim lagabálki. Nú er mér ekki alveg ljóst, ég hef ekki haft möguleika á því að lesa mig svo nákvæmlega til í því hverju er verið að breyta í 10. gr. tollalaganna með 4. gr. frv. og er sjálfsagt að skoða það nánar, líta eftir því hvað hér er átt við, en ég geri mér alveg ljósa grein fyrir því að það verður ekki tekið af fjmrh. allt forræði í tollalögunum. Hins vegar er skýrt kveðið á um það í þessu lagafrv. að það sem skiptir máli fyrir landbúnaðinn og það sem skiptir máli eins og þáltill. kvað á um er að það sem heyrði undir og varðaði innflutning á landbúnaðarafurðum væri á forræði landbrh. og ákvarðanirnar sem taka þarf í því sambandi eru greindar í 19. og 20. gr. og ég tel að þær séu mjög afdráttarlausar.
    Það má aðeins nefna það sem hefur kannski ekki komið mikið fram í umræðunni að það er gert ráð fyrir samstarfsnefnd þriggja ráðuneyta til þess að vera landbrh. til aðstoðar við að undirbúa þessi mál öll sömul um þessar reglur, um úthlutunarkvótana og annað sem þarf að ákveða, innflutningstímabil o.s.frv., en forræðið er eftir sem áður algjört hjá landbrh. í því máli einnig. En þarna er um að ræða samstarfsnefnd ráðuneyta sem að málinu koma þannig að ég hygg að það sé nokkuð vel séð fyrir þessu forræði eins og þingið hafði áður ályktað.