Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:03:40 (356)



[14:03]
     Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir þá ræðu sem hann flutti í upphafi fundar í dag. Mig minnir nú að við höfum skipst á skoðunum um erfðabreytingu lífvera einhvern tíma áður og hv. 4. þm. Austurl. hafi skrifað greinar í Þjóðviljann sem ég var þá ekki sammála. Núna verð ég að segja að eftir reynslu mína af því að reyna að fara út á þessi svið er ég honum fyllilega sammála. Við verðum að vara okkur mjög vel. Ég stóð að því á sínum tíma að fjármagna ásamt fleirum stöð til þess að framkvæma tilraun með erfðabreyttar lífverur, lax og þorsk. Þegar við sem stóðum þá í viðskiptum, höfðum sett í þetta peninga, fórum að sjá aðeins undir yfirborðið á því sem við vorum að gera urðum við hræddir. Vísindamennirnir vildu halda áfram. Við sem höfðum fjármagnað ákváðum að pakka saman. Við vorum hræddir við afleiðingarnar af því sem við vorum að gera lífríkinu og ég held að vísindamönnum sé ekki treystandi í þessu efni til þess að horfa á siðferðilega þáttinn. Þeir keyra áfram út á það að þeir vilji sjá árangur af því starfi sem þeir eru að vinna. Það eru svo margar siðferðilegar spurningar sem við eigum eftir að svara í kringum þetta að ég hvet til mikillar varfærni og ítreka að við eigum eftir að taka þetta mál til gagngerðrar skoðunar í nefnd.