Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:10:40 (358)


[14:10]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir réttmætar ábendingar um störfin að einkaleyfaþættinum sem ég fylgdist nokkuð með og m.a. þau mörgu álitaefni sem þar voru uppi og eru auðvitað uppi. En þar var ef ég man rétt um að ræða ákveðna viðmiðun sem menn töldu sig þurfa að taka við aðra því að ef það er nokkurs staðar á einhverju sviði þar sem má segja að sé eðlilegt að menn þurfi að stilla saman er það á sviði einkaleyfalöggjafarinnar að því er varðar framleiðslu. Í aðdraganda þess máls lá fyrir, ég hygg að það sé það frv. og síðar löggjöf sem hv. þm. vék að, þar var um að ræða veruleg álitaefni varðandi spurninguna hversu langt skyldi gengið í sambandi við einkaleyfi og harður ágreiningur á milli Norðurlanda, hvort ætti að hlýða Evrópuréttindum á þessi sviði eða draga það við sig. Þar voru Norðmenn mjög andsnúnir og reyndu að hafa uppi í starfshóp á vegum EFTA varnir gagnvart því sjónarhorni

að taka upp einkaleyfi á lifandi verum. En þar er knúið mjög á að það verði gert og hefur verið innleitt af aðilum að nokkru marki nú þegar.
    Ég vildi svo bæta úr því, virðulegur forseti, að ég gleymdi að nefna nafn Íslendings sem hefur verið þátttakandi í norrænu nefndinni um siðfræði en það Jórunn Erla Eyfjörð erfðafræðingur og býr áreiðanlega yfir verulegri vitneskju um þessi efni og er auðvitað sjálfsagt að nýta slíka krafta og alla sem hægt er að draga inn í athugun máls til að við áttum okkur sem best á þessu og fleiri aðila sem hafa unnið að málinu. Núverandi framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs átti m.a. sæti í nefnd sem vann fyrstu drögin að þessu máli hér.