Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 14:13:24 (359)


[14:13]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna það að þetta frv., frv. til laga um erfðabreyttar lífverur, er eitt af þeim frumvörpum sem hér hafa komið inn sem ég átta mig ekki alveg á og hef ekki þekkingu til þess að skilja hverja grein. En e.t.v. hefði það hjálpað mér eitthvað ef allar þær reglugerðir sem boðaðar eru við nánast hverja einustu grein frv. sem hér um ræðir, ef þær lægju frammi eða væru kynntar um leið. Það hefði e.t.v. hjálpað mér til þess að skilja hvað það er nákvæmlega sem ég á að fara að taka þátt í að afgreiða. En það er eins með þetta frumvarp og svo mörg önnur EES-frumvörp sem hér koma inn að í nánast hverri einustu grein frv. er kveðið á um nánari útfærslu með reglugerð.
    Ég hef áður hreyft því á hv. Alþingi að það er nauðsynlegt með svona víðtækar reglugerðir, sem við höfum kynnst eftir að aðild okkar að EES-samningi var samþykkt, að kynna a.m.k. viðkomandi fagnefnd þær reglugerðir sem fylgja þessum frumvörpum eða frumvörpin munu hafa í för með sér. Meira að segja hefur gerst að reglugerð hefur verið birt undirrituð af starfsmanni ráðuneytis áður en viðkomandi lög höfðu verið afgreidd í nefnd eða frá Alþingi. Ég las þetta frv. yfir og merki við hversu oft og hversu margar reglugerðir á að setja og þær eru æðimargar og sjálfsagt mjög flóknar en það eru spurningar sem ég vildi beina til hæstv. ráðherra og biðja um svör við.
    Það er í fyrsta lagi 19. gr. þar sem segir: ,,Ef fyrir liggur leyfi útgefið af lögbæru yfirvaldi í öðru landi á EES-svæðinu til markaðssetningar erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær jafngildir sú leyfisveiting leyfi til markaðssetningar hér á landi.`` Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um er þetta: Ef um erfðabreytta lífveru er að ræða sem er staðsett hér á landi við það loftslag, jarðveg og umhverfi sem við búum við, ef síðan er sams konar erfðabreytt lífvera staðsett einhvers staðar annars staðar við allt annað loftslag, allt annan jarðveg og umhverfi, er þetta þá alveg það sama? Er hægt að alhæfa svona um EES-svæðið að það séu nákvæmlega sömu aðstæður sem gilda, ef við höfum erfðabreytta lífveru þá getum við komið henni inn til allra þeirra þjóða sem eiga aðild að EES-samningnum og það muni ekki breyta neinu þær aðstæður sem gilda í hverju landi?
    Síðan er það 20. gr. sem segir: ,,Hollustuvernd ríkisins eða öðrum eftirlitsaðilum er heimill óhindraður aðgangur að rannsóknarstofum eða svæðum þar sem fram fer notkun eða starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Jafnframt geta eftirlitsaðilar krafist þess að fá aðgang að öllum skjölum og efni sem máli kann að skipta vegna eftirlitsins.`` Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað um aðra eftirlitsaðila EES? Geta þessir tilkvöddu eftirlitsaðilar annarra þjóða innan EES komið og krafist þessara sömu gagna hvar sem er?
    Síðan segir í 21. gr.: ,,Starfsmönnum Hollustuverndar ríkisins, ráðgjafanefnd eða öðrum sem fjalla um umsóknir og tilkynningar samkvæmt lögum þessum er óheimilt að greina frá trúnaðarupplýsingum sem þeir kunna að komast að í starfi sínu. Óheimilt er að greina frá umsóknum sem dregnar hafa verið til baka. Trúnaðarskyldan helst þó að látið sé af starfi.``
    Hvað ef trúnaður er brotinn? Eru einhver sérstök refsiákvæði ef þessi trúnaður er brotinn?
    Síðan segir í 26. gr. að þrátt fyrir öll þessi varúðarákvæði sem eru í IV., V. og VI. kafla sem heita slepping eða dreifing erfðabreyttra lífvera, markaðssetning erfðabreyttra lífvera eða vörur sem innihalda þær og afmörkuð notkun erfðabreyttra lífvera að skv. 26. gr. er hægt að ákveða með reglugerð að starfsemi með tilteknar erfðabreyttar lífverur hér á landi sé undanþegin ákvæðum IV., V. og VI. kafla laga þessara. Síðan segir: ,,Það skal þó ekki ákveðið fyrr en reynsla hefur fengist af starfsemi með erfðabreyttu lífverurnar og tryggt sé að af þeim stafi ekki hætta fyrir heilsu manna, vistkerfið eða umhverfið. Þessa ákvörðun skal tilkynna lögbærum yfirvöldum á EES-svæðinu.``
    Hversu langan tíma þarf til að þessi reynsla liggi fyrir? Ef þessi undanþága frá þeim reglum, sem eru í IV., V. og VI. kafla, hefur verið ákveðin í einu EES-landanna --- því að mér sýnist að þessi lög séu til samræmis við það sem gerist annars staðar og í sumum tilvikum sýnist mér aðeins vera um beina þýðingu að ræða. En ef þessar undanþágur hafa verið veittar innan EES-svæðisins er þá skylda að veita þær hér? Ef reynslan fæst annars staðar verður hún þá eins og allt annað --- því að þetta er allt svo óskaplega samrýmt og gott innan EES-svæðisins og við verðum að hafa þetta eins og allir hinir og um að gera að vera alveg eins á öllum sviðum. Er það þá þannig að ef ein þjóð innan EES hefur ákveðið undanþágu þá gildi sú undanþága hér og nægir að tilkynna það lögbærum yfirvöldum á EES-svæðinu þá undanþágu og mun hún þá taka sjálfkrafa gildi alls staðar á EES-svæðinu?

    Í 28. gr. segir: ,,Hollustuvernd ríkisins er heimilt að ákveða dagsektir, allt að 50.000 kr. á dag, til þess að knýja á um framkvæmdir.`` Verið er að fjalla um þvingunarúrræði stjórnvalda, málsmeðferð og viðurlög. Mér hefði fundist eðlilegra að dagsektirnar væru ákveðnar af því ráðuneyti sem fer með málaflokkinn frekar en Hollustuvernd ríkisins sem á jafnframt að fara með allt þetta eftirlit og veita umsagnir til undanþágu og á að hafa eftirlitið með hendi. Því hefði mér fundist eðlilegra að dagsektirnar væru ekki ákveðnar af sama aðila.
    Í 29. gr. segir: ,,Með rannsókn á brotum samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim skal fara að hætti opinberra mála.``
    Verði frv. samþykkt og verði það að lögum hvort er verið að tala um brot á þeim lögum sem hugsanlega taka gildi þegar Alþingi er búið að fjalla um og fara nákvæmlega yfir þetta allt saman eða brot samkvæmt lögum þessum, sem sagt þar sem farið er eftir einhverju allt öðru? Ég átta mig ekki alveg nákvæmlega á því hvað átt er við ,,með rannsókn á brotum samkvæmt lögum þessum``. Er ekki réttara að segja að brotið sé í bága við lög heldur en að brot sé í samræmi við lög?