Starfsemi og fjárreiður stjórnmálasamtaka

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 14:15:59 (461)


[14:15]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka þeim sem hafa rætt um þetta frv., nú síðast hv. 12. þm. Reykn., Kristínu Halldórsdóttur, og jafnframt undirtektir hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, sem ræddi þessi mál þegar við frestuðum umræðunni fyrir viku.
    Frv., sem er til umræðu, er drög að heildarlöggjöf um starfsemi og fjárreiður stjórnmálaflokka. Það er í fyrsta skipti sem gerð er tilraun til að setja slíka heildarlöggjöf sem nær til stjórnmálaflokka, ekki einungis þeirra sem bjóða fram til Alþingis heldur líka þeirra sem bjóða fram til sveitarstjórna.
    Hugmyndin hér á bak við er vitaskuld sú að styrkja löggjafarvaldið í þjóðlífi okkar. Helstu efnisatriði frv. hafa verið rakin í framsögu af hv. 1. flm., 13. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, en kveðið er á um að stjórnmálaflokkar séu skráðir sérstaklega, að þeir séu opnir, að jafnræðis skuli gætt í starfsemi þeirra og það skuli setja reglur um störf fulltrúa, að æðsta vald í málefnum stjórnmálasamtaka skuli vera í höndum félagsmanna, að lagt sé bann við skráningu á kjörstað. Síðan eru ítarleg ákvæði um fjárreiður stjórnmálaflokka þar sem er m.a. krafist að stjórnmálasamtök verði bókhaldsskyld og þeim beri einnig að skila skattframtali en það er ekki í núverandi lögum.
    Jafnframt eru ákvæði um að árlega skulu reikningar stjórnmálasamtaka endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og lagðir fram til samþykktar á æðsta fundi viðkomandi samtaka og jafnframt er gert ráð fyrir að fái stjórnmálasamtök framlög af opinberri hálfu endurskoði Ríkisendurskoðun ársreikningana. Hér er því kveðið nokkuð ítarlega á um að eftirlit með fjárreiðum stjórnmálaflokka sé gott og það er auðvitað lykilatriði í starfsemi stjórnmálaflokka.
    Það er einnig getið um að fari framlög yfir vissa upphæð, 300 þús. kr. á reikningsári. Varðandi þá spurningu sem kom hér fram hjá fyrri ræðumanni um af hverju 300 þús., þá eru vitaskuld ekki nein stór vísindi þar á bak við. Flm. fannst þetta vera nokkuð eðlileg fjárhæð að miða við en ef um er að ræða hærri fjárframlög skuli birta nafn styrktaraðila. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra í starfsemi stjórnmálaflokka og fjölmörg dæmi eru um það að um þessi mál séu ákvæði í löggjöf viðkomandi þjóða. Má þar nefna Bandaríkin og fleiri lönd því til hliðsjónar. Jafnframt er fellt inn í

frv. ákvæði sem hafa reynst býsna vel á Alþingi, þ.e. ákvæði um sérfræðiaðstoð til þingflokka. Þannig er gerð tilraun í frv. að ná yfir helstu þætti í starfsemi stjórnmálaflokka, svo og er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að mótaðar verði reglur sem varða sambærilega hluti gagnvart framboðum til sveitarstjórna.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrímur J. Sigfússon, gerði nokkur atriði að umtalsefni, ræddi m.a. um að víðtæk sátt þyrfti að ríkja um frv. af þessum toga. Það er vitaskuld rétt enda er markmiðið m.a. með því að leggja fram frv. í þessu formi að vekja upp umræðu um þetta mjög svo mikilvæga mál og laða fleiri til samstarfs um gerð heildarlöggjafar. Það er alltaf spurning þegar svona löggjöf er afgreidd hvort hún eigi að vera mjög ítarleg eða vera rammalöggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka. Hér var sú leiðin farin að hafa skýrt ákveðnar meginlínur í starfsemi stjórnmálaflokka en ekki að vera með mjög ítarleg ákvæði sem er vitaskuld hægt. Ég held að það sé betra og heppilegra varðandi stjórnmálaflokka að meginreglur, útlínur starfseminnar, séu dregnar skýrt af hálfu löggjafans.
    Einnig má benda á nokkur viðbótaratriði, sem að hluta til hafa komið fram í umræðunni, sem ekki er getið um í frv., t.d. hvort aðgreina ætti kosningaútgjöld og hefðbundna starfsemi. Það væri væntanlega nokkuð erfitt í framkvæmd að koma slíku fyrir í löggjöf. Sömuleiðis hefur verið nefnt hvort setja ætti sérstök lög um prófkjör en það er vitaskuld matsatriði þar sem flokkarnir kjósa að haga þeim málum á misjafnan hátt.
    Einnig má nefna varðandi auglýsingar í kosningabaráttu hvort löggjafinn telji ástæðu til að setja einhverjar almennar reglur þar um. Ég vil benda á einn hlut sem er lögbundinn í Frakklandi og varðar birtingu skoðanakannana rétt fyrir kjördag. Þar er óheimilt að birta skoðanakannanir viku fyrir kjördag. Hér er ekki tekið á ákvæðum eða hugmyndum um þessa hluti en vitaskuld gætu þeir komið inn í umræðuna þegar frv. fær þinglega meðferð.
    Ég sé að hæstv. forsrh. er ekki í þingsalnum en gerð var fyrirspurn til hans þegar málið var áður til umræðu hvernig stæði á því að nefnd, sem átti að skipa, hefði aldrei komið saman og í hverju það lægi að það hefði ekki átt sér stað. Það þýðir þá ekki að spyrja um það hér. Ég geri þá ráð fyrir að það mál komi síðar til umræðu en ég legg áherslu á það að þetta frv. er gert þannig úr garði að mjög auðvelt er fyrir aðra þingmenn og þingflokka að vinna út frá því heildarlöggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka og fjárreiður þeirra og ef það tekst er tilganginum náð.