Lánasjóður íslenskra námsmanna

14. fundur
Miðvikudaginn 07. júní 1995, kl. 15:35:46 (473)


[15:35]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það var réttilega að því vikið af hv. síðasta ræðumanni að það er þó nokkurt tilefni til að hefja umræður um það hvers eðlis lýðræðið er í okkar landi. Við höfum mörg hver talið að lýðræðið væri sáttmáli milli almennings í landinu, kjósenda og þeirra sem gefa kost á sér til þess að þjóna þjóðinni í ákveðinn tíma á grundvelli ákveðinna fyrirheita. Ef fyrirheitin eru marklaus og þau svikin þá verða kosningarnar í reynd marklausar. Oft á tíðum hafa menn fjallað um lýðræðiskerfið annars vegar og markaðskerfið hins vegar með sambærilegum hætti. Grundvöllur markaðskerfisins felst í því að menn geti treyst orðum og gjörðum sem birtast á markaði. Ég tek dæmi:
    Við höfum sjálfsagt öll oft á ævinni komið í verslun og keypt pakka af kornflögum. Við förum með pakkann að borðinu og greiðum fyrir hann. Förum með hann heim og setjum hann upp í skáp. Við tökum hann svo út úr skápnum eftir nokkra daga þegar búið er úr gamla pakkanum og opnum hann og treystum því að það séu kornflögur í pakkanum. Ef við hins vegar kæmumst að raun um það þegar við tökum hann niður úr skápnum og opnum hann að það er sag í pakkanum en ekki kornflögur þá mundum við umsvifalaust fara með pakkann aftur í verslunina, kæra fyrir vörusvik og gripið yrði til aðgerða gagnvart viðkomandi viðskiptaaðila af hæstv. viðskrh. og stofnunum hans. Við opnum ekki alla kornflögupakkana sem við förum með út úr stórmörkuðunum til þess að ganga úr skugga um að það séu í raun og veru kornflögur í þeim. ( JBH: Nú veit hv. þm. að það á að borða hafragraut.) Látum það vera. Það gildir alveg sama um það, hv. þm., vegna þess að til þess að geta borðað hafragrautinn þyrftum við að kaupa haframjöl og við þyrftum að geta treyst því að það væri haframjöl í pakkanum sem við færum með heim en krefðumst þess ekki af afgreiðslufólkinu við kassana að pakkarnir yrðu opnaðir svo við gætum krafist þess að varan væri ekki svikin.
    Þeir menn sem maður stundum kynnist í alþjóðastarfi sem hafa barist fyrir lýðræði í heimalöndum sínum og sumir félagar þeirra og samherjar látið lífið eða setið í fangelsum í þágu þess málstaðar telja þann sáttmála sem gerður er í kosningum vera nánast heilagan. Ef lýðræðið hins vegar tekur á sig þá mynd að þeir sem gefa kost á sér til þjónustu svíkja sín fyrirheit öll þannig að yfirlýsingarnar eru marklausar, þá er í eðli sínu enginn munur á framkvæmd slíks lýðræðiskerfis og í þeim löndum þar sem skipt er um atkvæðaseðlana í kjörkössunum áður en talið er. En það eru því miður til lönd í heiminum þar sem svokallaðar kosningar eru framkvæmdar með þeim hætti að það er skipt um seðla áður en talið er.
    Við sátum á fundi í Háskólabíói, ég og hv. síðasti ræðumaður, Jón Baldvin Hannibalsson, fyrir fullu húsi háskólastúdenta. Þar var meðal ræðumanna formaður Framsfl., núverandi utanrrh. Hann lýsti því yfir formlega aðspurður af kjörnum forustumanni stúdenta í Háskólabíói að Framsfl. mundi beita sér fyrir því að afnema eftirágreiðslurnar. Það var formleg yfirlýsing formanns Framsfl. gagnvart stúdentum í fullum sal í Háskólabíói að þessi breyting sem Framsfl. hafði staðið að að boða hér á Alþingi hefði forgang, væri forgangsatriði af hálfu Framsfl. í málefnum lánasjóðsins. Og hér á Alþingi fluttu þingmenn Framsfl. allnokkrum sinnum yfirlýsingar um það að sú skipan sem verið hefði á málefnum lánasjóðsins væri brot á jafnrétti í landinu og væri á þann veg að það væri ekki hægt að líða að það yrði óbreytt. Ég vil lýsa hér t.d. orðum Páls Péturssonar, núv. hæstv. landbrh., ( Gripið fram í: Nei.) núv. hæstv. félmrh., sem vildi verða landbrh. og lætur ekkert tækifæri ónotað að lýsa því yfir að hann hefði frekar viljað vera landbrh., þannig að það er eðlilegt að mér verði á þessi mismæli hér í ræðustólnum, sem hann mælti hér á Alþingi fyrir tæpu ári síðan. Hvað sagði þm. Framsfl., Páll Pétursson, núv. ráðherra, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Það er býsna ömurlegt hlutskipti sem hæstv. menntmrh. hefur fengið. Hann er búinn að vera bráðum fjögur ár í menntmrn. og hver er svo slóðin hans? Þetta er ráðherrann sem afnam jafnrétti til náms með meðferð sinni á Lánasjóði ísl. námsmanna. Jafnrétti til náms er grundvallaratriði í mínum huga.``
    Framsfl. var fyrir tæpu ári síðan þeirrar skoðunar á Alþingi eins og birtist í tilvitnuðum orðum frá 25. okt. 1994 af hálfu Páls Péturssonar að sú skipan sem gilti í málefnum lánasjóðsins jafngilti því að afnema jafnrétti til náms. Hvenær á, hæstv. viðskrh., að innleiða á nýjan leik jafnrétti til náms af þessari ríkisstjórn? Eða er Framsfl. líka reiðubúinn að hlaupa frá þessu fyrirheiti?
    En þetta var ekki eina yfirlýsingin sem var gefin af forustumönnum Framsfl. og núv. ráðherrum. Annar núv. ráðherra, Guðmundur Bjarnason, --- og hann er nú örugglega núv. landbrh. --- lýsti því yfir hér á þingi í desember í fyrra fyrir u.þ.b. sex mánuðum síðan, hæstv. viðskrh., ,,að breyttar úthlutunarreglur hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna á undanförnum árum hafa og eru nú að ógna jafnrétti til náms sem hefur verið meginmarkmið íslenskra stjórnvalda um langt árabil.``
    Hér eru tilvitnanir í tvo ráðherra í núv. hæstv. ríkisstjórn, forustumenn Framsfl., varaformann flokksins, núv. félmrh., sem ásamt formanni Framsfl. lýstu því allir yfir í aðdraganda kosninga að grundvallarbreytingar á reglum lánasjóðsins til þess að endurreisa jafnréttið væri forgangsatriði af hálfu Framsfl. Og ég er alveg viss um það, þótt núv. hæstv. viðskrh. hafi kannski ekki lýst því yfir hér í þingsalnum, að miðað við þann sess sem hann hefur haft í málefnum námsmanna innan Framsfl. þá hefur hann gert það við fjölmörg önnur tækifæri.
    Það er hægt að nefna hér fjölmörg önnur tækifæri á þingi, bæði á síðasta þingi og þinginu þar á undan, þar sem talsmenn Framsfl. töluðu á þann veg að alveg var ótvírætt að Framsfl., fengi hann til þess

umboð, mundi beita sér fyrir afgerandi breytingum á úthlutunarreglum lánasjóðsins og starfsreglum sjóðsins til þess að hefja á ný til vegs það sem framsóknarmenn hér á þingi og við margir hverjir aðrir kölluðum jafnrétti til náms.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson, núv. formaður fjárln., mótmælti því t.d. harðlega, svo notuð séu hans eigin orð, hér á þinginu að þær skerðingarreglur sem innleiddar hefðu verið á lánasjóðnum væru látnar viðgangast.
    Satt að segja verð ég að játa það hér að ég trúði yfirlýsingum forustumanna Framsfl., bæði þeim sem við heyrðum í kosningabaráttunni og þeim sem voru fluttar á Alþingi að a.m.k. afnám reglunnar um eftirágreiðslunnar yrðu forgangsatriði ef Framsfl. kæmist til valda. Nú sýnist manni hins vegar stefna í að þúsundir íslenskra námsmanna þurfi að hefja nám núna í haust án þess að þessu sé breytt. Mér er fullkunnugt um það af samtölum við ýmsa þá einstaklinga sem hafa verið að útskrifast úr a.m.k. einum menntaskólanum hér í höfuðborginni þetta vorið að það er þáttur í ákvörðunum ýmissa nýstúdenta að hefja vinnu næsta haust í stað þess að ganga beint í háskólanám þó að þeir séu með góða útkomu á stúdentsprófi vegna þess að þeir hafa ekki tekjur í hendi til þess að geta hafið nám við háskólann strax í haust. Þeir eru tilknúnir vegna þeirra reglna sem síðasta ríkisstjórn bjó til og núv. ríkisstjórn ætlar að halda áfram a.m.k. á þessu ári ári, að gera hlé á námsferli sínum til þess að geta brugðist við þessu óréttlæti, þessari ósanngirni og þessu ójafnrétti sem er í gildandi reglum. Þess vegna finnst mér lágmarkskrafa að þetta frv. eða annað með sömu efnisatriðum verði samþykkt áður en þingi lýkur. Það er alveg ljóst af hálfu Framsfl., Alþb., Þjóðvaka, Kvennalistans og Alþfl. var því lýst yfir fyrir kosningar að a.m.k. þessi breyting yrði gerð. Kannski var ágreiningur um ýmislegt annað en samstaðan var afdráttarlaust um þetta atriði og hún birtist skýrt á þessum fundi í Háskólabíói þar sem Framsfl. hafði svo mikið við gagnvart stúdentum að formaður flokksins mætti á fundinum og gaf yfirlýsingarnar. Ég ætla þess vegna að vonast til þess að frv. eða þá annað með sama efnisinnihaldið verði afgreitt áður en þingi lýkur. Það er sanngirnismál og það er í samræmi við anda lýðræðisins. Annað væri svik á þeim fyrirheitum sem voru gefin. Við skulum átta okkur á því, hæstv. viðskrh., að það voru þúsundir af ungum Íslendingum sem núna eftir menntaskóla- og fjölbrautaskólanám standa í fyrsta skipti í þeim sporum að ákveða sjálfir göngu sína. Menntakerfið á Íslandi hefur í grófum dráttum verið þannig í eðli sínu að menn hafa gengið upp eftir skólakerfinu fram að stúdentsprófi eftir nokkuð föstum brautum. En eftir að menntaskólanámi og fjölbrautaskólanámi er lokið kemur að því að hver og einn stendur með sjálfum sér og tekur ákvörðun. Það er alveg ljóst að efnahagslegu skilyrðin, sem sköpuð voru með núverandi reglum lánasjóðsins, hafa áhrif á ákvarðanir þessara einstaklinga.
    Sú ríkisstjórn, sem nú situr, hefur þar að auki sett sér það markmið að koma atvinnulífinu í gang, draga úr atvinnuleysinu, efla hagvöxtinn. Það var eitt af fyrstu verkum núv. hæstv. viðskrh. að fara á ráðstefnu OECD um þau efni. Allir sérfræðingar eru sammála um það að lykilatriðið í þróun atvinnulífs á komandi árum er fjárfesting í menntun. Það mál sem við erum að ræða er þess vegna ekki aðeins réttindamál þeirra einstaklinga sem stunda nú nám á Íslandi. Þetta er spurning um fjárfestingarstefnu íslensks samfélags, spurning um atvinnustefnu íslensks samfélags og ríkisstjórn sem ætlar ekki að gera það að forgangsatriði að skapa jafnrétti til náms til þess að þúsundir af ungu fólki geti búið sig þannig úr garði að íslensku þjóðfélagi nýtist fjárfestingin sem er í menntuninni er að segja að ekki sé heldur að marka yfirlýsingarnar um hagvöxtinn, yfirlýsingarnar um að efla atvinnulífið, yfirlýsingarnar um að styrkja fjárfestingargrundvöllinn. Þess vegna segi ég eindregið að framlög til menntamála á Íslandi eru ekki bara framlög til velferðarmála eins og stundum er gert þegar verið er að ræða velferðarkerfið. Framlög til menntamála á Íslandi eru fjárfesting í atvinnulífinu og væri þess vegna alveg eins skynsamlegt að flokka þær tölur í ríkisreikningum og þjóðhagsreikningum með fjárfestingarkostnaði og að flokka þær einfaldlega sem útgjaldalið í velferðarkerfinu.
    Ef núv. hæstv. viðskrh. ætlar ekki að beita sér fyrir því að þessu verði kippt í liðinn varðandi lánasjóðinn strax á sumarþinginu þá er hann um leið að segja að sú atvinnustefna, sem hann er fulltrúi fyrir, sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn, sé líka innihaldslaus. Hún er þá álíka innihaldslaus og loforðin sem voru gefin á kosningafundunum, hér í þessum ræðustól, í kosningastefnuskránni af hálfu a.m.k. annars stjórnarflokksins.
    Við þingmenn Alþb. biðum með að flytja þetta frv. eða taka ákvörðun um það þar til við sáum að samkvæmt þeim boðum sem gengu út frá ríkisstjórninni í aðdraganda þingsins virtist það ekki vera ætlun ríkisstjórnarinnar að afgreiða mál af þessu tagi á þinginu. Ég vona hins vegar að þetta verk okkar hafi orðið til þess að menn sjái að það er ekki sæmandi, hæstv. viðskrh., að tilkynna núna þeim þúsundum Íslendinga sem eru að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að hefja háskólanám í haust að ekkert hafi verið að marka fyrirheitin sem voru gefin af hálfu meiri hluta þings fyrir kosningar því að það er alveg ljóst að miðað við þær yfirlýsingar er dúndrandi meiri hluti í þingsalnum til að gera þessa breytingu. Ef hún er ekki gerð blasir bara tvennt við: Annaðhvort hefur Framsfl. ekki meint neitt með því sem hann hefur sagt í kosningunum, hefur selt mönnum sag í kornflögupakkanum eða haframjölspakkanum í staðinn fyrir hina raunverulegu vöru eða þá að Sjálfstfl. hefur krafist þess að breytingin yrði ekki gerð. Ég tel afar mikilvægt að annaðhvort fulltrúi Framsfl. eða þá fulltrúi Sjálfstfl. upplýsi í umræðunum hvort svo er, hvort Sjálfstfl. hefur gert kröfu til þess að breytingunni yrði hafnað. Ef það liggur fyrir er hægt að skoða það. Ef það liggur ekki fyrir er hins vegar alveg ljóst að áhugaleysi Framsóknar á þessum málaflokki er það mikið að þeir hafa ekki einu sinn tekið það upp við Sjálfstfl. að gera breytinguna nú þegar.
    Þá má vel vera að hæstv. ráðherrum Framsfl. og þingmönnum finnist dálítið þreytandi að við séum að taka þá upp í fyrri yfirlýsingum sínum. En það er gott að núv. hæstv. viðskrh. gefur til kynna með því að hrista höfuðið að svo er ekki vegna þess að það er stór bunki af yfirlýsingum, af frumvörpum, af nefndarálitum, af kosningaplöggum, af ræðum og auglýsingum og myndbandsspólum sem við eigum frá Framsfl. og þjóðin í kosningabaráttunni og síðustu þingum þar sem bæði þessu og aragrúa af öðru var lofað.
    Ég vil svo að lokum segja það að mér finnst ekki alveg sanngjarnt hjá Alþýðublaðinu sem fer nú að vísu batnandi þessa dagana að gera athugasemd við það að nýr þingmaður af Seltjarnarnesi, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, skuli hafa sagt eitthvað annað á Alþingi en hún sagði í kosningabaráttunni, þegar formaður Framsfl., varaformaður Framsfl. og núv. viðskrh. eru vaðandi upp fyrir haus í yfirlýsingum þar sem þeir segja annað eftir kosningar en þeir sögðu í kosningabaráttu. Mér fyndist meiri manndómsbragur af Alþýðublaðinu að ráðast þá á húsbændurnar á staðnum heldur en gera út sérstakan leiðangur til þess að ráðast á þennan nýja þingmann af Seltjarnarnesinu.