Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 19:11:41 (530)


[19:11]
     Gísli S. Einarsson :
    Herra forseti. Við höfum til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum, nr. 38/1990, um stjórn

fiskeiða, með síðari breytingum. Efnið sem liggur fyrir snýr aðallega að einum flokki útgerðar, þ.e. að smábátum. Ég segi aðallega vegna þess að frá upphaflegum hugmyndum eru allar heimildir varðandi stærri báta, varðandi úreldingu, skerðingu eða flota rýmkaðar.
    Ég gerði mér satt að segja vonir um annað þegar ég heyrði öll loforðin eða fyrirheit þingmanna mjög víða á landinu, ekki síst af Vesturlandi og Vestfjörðum og frá frambjóðendum á Reykjanesi. Þau fyrirheit, sem gefin voru, kveiktu vonir hjá mér um að nú mundi nást samstaða um aðalvandamál varðandi fiskveiðistjórnunina. En því er ekki að heilsa. Þau fyrirheit, sem þessir ágætu menn sem nú eru stjórnarliðar, hv. þingmenn víða að af landinu gáfu, standast í engu. Ég tel að aðeins sé verið að klóra í bakkann og ég tel að það sem hér er lagt fram sé hálfgerð sýndarmennska enda segir Landssamband smábátaeigenda varðandi það sem hér liggur fyrir, með leyfi forseta, að það leiki enginn vafi á því að verði frv. þetta að lögum séu eigendum krókabáta settir þvílíkir afarkostir að mjög stór hluti þeirra muni ekki sjá nokkra glufu til að nýta atvinnutæki sín sér til viðurværis. Hér er mikið sagt. Ég hygg að færa megi rök að þessu öllu saman sem hér er sagt í þessari setningu.
    Þá er auðvitað rétt að ítreka þær spurningar sem þeir setja fram í bréfi sínu til hv. þingmanna og væri rétt að inna eftir því hjá hæstv. sjútvrh. hvort hann getur gefið svör við eftirfarandi spurningum sem ég leyfi mér að vitna til, með leyfi forseta:
  ,,1. Stenst sú framkvæmd ákvæði laga um jafnræði að gera í einni sviphendingu hluta krókaflotans að verðmiklum eignum á sama tíma og hinn hlutinn er gerður verðlaus?
    2. Stenst frv. ákvæði stjórnarskrár um atvinnufrelsi og eignarrétt?
    3. Er frv. í samræmi við samþykktir sem Íslendingar hafa skrifað undir á alþjóðavettvangi, svo sem Ríó-sáttmálann?
    4. Hafa stjórnvöld sýnt fram á að þau hafi undir höndum nægilega traust vísindaleg gögn sem réttlæta lagasetningu á borð við fram komið frv.?``
    Herra forseti. Ég tel að hér sé um mjög alvarlegar spurningar að ræða sem skylt sé að svara og ég vonast til þess að hæstv. sjútvrh. svari þeim og svari því þá þannig að menn fái þar vitneskju um það efni sem þeir eru að leita eftir svörum við. Ég vil taka það fram að Landssamband smábátaeigenda mótmælir harðlega frv. eins og það var og það mótmælir einnig þeim breytingartillögum sem fram eru settar.
    Á sama tíma og rætt er um að það þurfi að laga stærri skipin, gúanó-skipin, sem við getum verið hálfhrygg yfir að nýtist aðeins fyrir gúanófisk, það þurfi að að laga þau og koma í þau kælitönkum, þegar menn átta sig á því að þeir búa við þetta þá er strax rýmkað til. Ég virði hæstv. sjútvn. fyrir það að koma á móti þessu erfiða sjónarmiði. En hv. alþm. sem sitja í sjútvn. gleyma því að það er verið að gera auknar kröfur til þeirra manna sem eru á litlu bátunum um það að sá afli sem þeir draga á land fái miklu betri meðferð heldur en var hér áður fyrr þegar menn komu með ókúttaðan afla að landi og ókældan. Nú er ekki pláss í þessum smærri bátum til þess að fara með afla á þann hátt sem við þurfum að gera ráð fyrir. Það er ekki páss í þeim. Og hvað er þá gert? Þeir, sem ekki hafa nú þegar skrifað undir samning um það að þeir ætli að stækka bátana, eygja ekki nokkurn möguleika á að laga þá til. Það er ekkert samræmi í því hvað menn eru að gera gagnvart smáum bátum og stærri bátum.
    Ég viðurkenni þann vanda sem er í þessu kerfi. Ég viðurkenni alveg að það er við mikinn vanda að fást og gæti hugsað mér að koma með ýmsar tillögur sem lytu að því hvernig ætti að leysa þetta þannig að um það yrði sátt. Og úr því að menn gerðu ekki meira varðandi stjórnun fiskveiða en að leggja þetta frv. fram, þá tel ég að menn ættu heldur að láta það liggja en að keyra það í gegnum þingið, sennilega gegn vilja töluverðs hluta stjórnarmeirihlutans.
    Mig langar að ræða um það sem ég hef áður vakið máls á, helsta vanda fiskveiðistjórnunarkerfis á Íslandi. Ég hef m.a. verið með í því að flytja frv. til laga varðandi meðafla. Helsti annmarki þess kerfis sem notaður er til stjórnunar fiskveiða á Íslandi er að kerfið er með innbyggðan hvata, innbyggðan hvata til að henda fiski í stórum stíl ef ekki fást út úr honum hámarksverðmæti. Þetta leiðir beint til þess að veiðar eru miklu meiri en það sem skilar sér til vinnslu í landi og oft á tíðum miklu meiri heldur en það sem fer til vinnslu á hafi úti. Það má leiða að því líkur að alls sé hent í sjóinn 80--110 þús. tonnum samtals af fiski af öllum tegundum á ári hverju þar sem aflasamsetningin er óhagkvæm vegna þess að veiðarfæri eru þannig búin að hver fiskur sem í þau kemur sleppur ekki. Það er kannski rétt að taka sýnidæmi því sjón er auðvitað sögu ríkari. Ef menn telja að möskvastærð skipti miklu máli í þessu tilliti, t.d. í trollum, þá tel ég að það sé rangt því það fer eftir því hvernig togað er í möskva í trollum hvernig hann er opinn. Ef togað er á þennan veg í möskvann þá er möskvinn, nákvæmlega sama hvað hann er stór, næstum alltaf lokaður. Ef togað er á legg, sem gert er, þá er möskvinn vel opinn og þá er verið að hlífa smáfiskinum. Þetta er rétt að sýna mönnum hvað um er að ræða.
    Ég þekki vel til þess að í vængjum trolla er þannig háttað að það er togað á legg og möskvinn er þannig opinn. En almennt held ég að möskvinn sé lokaður. Reyndar má sjá á myndum sem hafa verið teknar neðan sjávar af trolli á veiðum að fiskurinn fælist jú straumiðuna frá trollnetinu þannig að kannski hefur möskvastærð minni áhrif heldur en menn hafa haldið fram.
    Ég held að það þurfi ekki að fara í grafgötur með það að á togurum er hent miklu af smáfiski og hann sleppur ekki lifandi. Þetta vita allir þeir sem togveiðar hafa stundað. Sjómaður sem ég talaði við

skýrði málið á eftirfarandi hátt: ,,Við erum sendir á sjó til að koma með afla að landi og okkur ber að koma með sem mest verðmæti í takmörkuðum kvóta.`` Og hann sagði einnig: ,,Menn hugsa fyrst og fremst um að lifa daginn af áður en þeir fara að hugsa tíu ár fram í tímann.`` Þetta hef ég beint eftir sjómanni á þekktu aflaskipi.
    Það er líka hægt að ræða um það að eftir slæm veður, þegar bátar hafa ekki getað vitjað neta, er miklu magni hent í sjóinn vegna þess að kvótinn er svo skertur að ef menn ætla að reyna að bjargast þá koma þeir eingöngu með verðmætasta fiskinn að landi. Ég tel enn rétt að vitna í grein Sigfúsar Schopka frá 16. des. sl., þar sem raunverulega má lesa á milli línanna að fiskverndunin hafi brugðist. Og fiskvernduninni má kannski líkja við nýju fötin keisarans. Ég held að fiskverndunin sé mjög takmörkuð og seiða- og smáfiskadráp sé geysimikið. Ég vil meina að það sé með ólíkindum hversu mikil blindni hafi ríkt að það er varla hægt að tala um þessi mál án þess að minnast á hversu lítinn trúnað hæstv. sjútvrh. lagði á að tugum þúsunda tonna af fiski hafi verið hent í sjóinn, samanber umræðu á síðasta þingi. Þó ber svo við að í ár hefur hann viðurkennt á fiskiþingi að miklu magni sé hent þó ekki sé tiltekið hversu miklu.
    Ég sagði að viðurkennt sé að miklu magni af meðafla hafi verið hent sem hefði getað skapað fjölda starfa í landi og þar með minnkað atvinnuleysi og bætt þjóðarhag. Enn er bætt við nú með því að reglugerð um að allur smáfiskur sem undanþeginn var kvóta skuli teljast til kvótans. Ég trúi því ekki að menn viti ekki og hafi ekki skynjað það og áttað sig á því núna frá áramótum hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að á mörkuðunum er enginn smáfiskur boðinn fram. Það voru vinnslur hér um allt land með smáfisk sem lögðust af vegna þess að þessi fiskur er ekki lengur á markaði. Og hvað þýðir þetta? Halda menn að þessum fiski sé sleppt lifandi í sjóinn ef hann er tekinn af kannski 30 faðma dýpi? Þessi fiskur er sprunginn. Ég segi að hann er sprunginn ef hann er tekinn fyrir neðan 20 metra dýpi. Flugfiskvinnslan sem var í þessu, þ.e. fiskur sem var fluttur í neyslu á erlendan markað með flugvélum, lagðist öll af. Það væri gaman að fá að vita það hversu margar fiskvinnslur eru eftir sem voru starfandi um áramót sem unnu eingöngu við smáfisk. Ég legg til að hv. sjútvn. kanni hvernig þessu máli er varið --- og hefði átt að gera það með fyrirspurnum varðandi þetta mál --- hvernig því er varið með smáfiskinn, hvort það er ekki rétt sem ég er að segja að smáfiskur sést ekki í afla á mörkuðum núna.
    Fiskistofu er gert að áætla hversu mikill afli þorsks kemur í net þegar veidd er ýsa á einhverju svæði. Ég vona að menn hafi tekið eftir því þegar sett var fram frv. um eftirlit með veiðum og auðlindinni. Ég held að menn ættu að vita að þorskurinn gengur jafnt í ýsunet eins og ýsa í þorskanet ef ýsan á annað borð festist en þorskurinn festist í smáriðnum möskvum ýsuneta. Það er vitað mál, menn hafa sagt frá því sjálfir að þegar þeir hafa verið að reyna að særa upp það litla magn --- eða mikla eftir atvikum sem þeir hafa af ýsu þá hafa þeir lent í því að fá kannski allt að 2--3 tonn af þorski í ýsutrossurnar og orðið að henda þeim í sjó vegna þess að þeir hafa ekki aflaheimild fyrir því. Þetta hefði ég allt saman viljað taka til umræðu frekar en að ráðast, eins og ég tel að sé gert, að smábátunum.
    Ég tek undir þær aðgerðir sem reynt var að grípa til, þ.e. að seiðaskiljur séu settar á troll a.m.k. á rækjutrollin. En ég tel að það þurfi seiðaskiljur og sé hægt að koma þeim fyrir á öllum trollum. Og a.m.k. þar sem verið er að veiða í svokölluðum hlýjum sjó þar þarf skiljur vegna þess að í hlýjum sjó er uppfæðingurinn.
    Ég vil geta þess að fyrir nokkrum árum síðan var gerð seiðatalning á bátaflota við rækjuveiðar á Húnaflóa. Það kom í ljós að seiðafjöldinn nam sem svaraði öllum leyfðum afla við Ísland, á átta klukkustunda fresti. Þetta gerðu menn á einum báti. Þarna var heill floti en þetta var bara á einum báti sem þessi fjöldi smáfiska, seiða, kom í trollið. Þetta er það sem menn ættu að kanna. Og ég held að menn hafi ekkert átt að verða hissa á því að afli hafi tregðast við Ísland.
    Eins og ég sagði áðan tel ég að það verði að breyta togstefnu á möskva þannig að hann sé opinn, það sé togað á legg í eins miklum mæli og hægt er, ekki á möskvann. Ég hef talað um það hér áður að það þurfi að gera samkomulag á milli togaraflotans og smábátaflotans og vertíðarflotans um það hvar hver á að veiða vegna þess að getan og hæfileiki skipanna til að stunda veiðar á dýpri miðum er mjög mismunandi.
    Ég vil gjarnan að gerð verði úttekt á stærð báta sem eru við krókaveiði með línu og á handfærum og ég hefði líka viljað vita um skiptinguna á milli þessara veiðarfæra. Það væri auðvitað rétt að taka inn í dæmið að það er ekki sama hvort landað er 100 tonnum af þorski á Suðurnesjum eða 100 tonnum af þorski í Grímsey. Það getur munað allt að 1,2 millj. á þessum 100 tonnum. Það liggur hreinlega í því að menn hafa ekki komið fiski á markað í Grímsey. (Gripið fram í.) Það er grundvallaratriði að allur fiskur komi að landi og skapi með því störf.
    Ég hóf ræðu mína á því að fjalla um þær tillögur sem liggja fyrir um breytingar á lögunum. Ég held að tillögurnar ómerki hreinlega orð stjórnarliða sem margir töluðu mjög fjálglega fyrir kosningar. Og ég spyr: Hvar ber að leita áhrifa tillagna framsóknarmanna af Suðurnesjum? Hvar er umtalsverða aukningin sem hv. þm. Magnús Stefánsson, sem nú er illa fjarri, marglofaði kvótabátum og mönnum á Vesturlandi? Hvar er hið aukna frelsi til fiskveiða með krókum sem einnig var lofað? Og hvar eru stóru orðin hv. þingmanna fjarstaddra, Einars og Einars, eða Einars Guðfinnssonar og Einars Kristjánssonar, af Vestfjörðum? Það vekur athygli mína, herra forseti, að þeir aðilar af Vestfjörðum, hv. þm. Einar Guðfinnsson og hv. þm. Einar Kristjánsson, eru hvorugur viðstaddir í salnum þegar verið er að ræða um þessi mikilsverðu mál. ( Gripið fram í: Einar K. Guðfinnsson hefur leyfi frá þingstörfum.) (Gripið fram í.)
    Og enn vil ég spyrja: Hvar eru efndir fyrirheita sjálfstæðismanna á Vesturlandi sem ekki eingöngu gáfu kvótamönnum á smábátum og hefðbundnum vertíðarbátum fyrirheit um verulega úrbætur þeim til handa? Þeir gáfu þeim líka í skyn að líkur væru engar á áframhaldandi stjórn fiskveiða frá LÍÚ í gegnum hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorstein Pálsson. Það er í takmörkuðum mæli í þeirra tillögum að finna sjónarmið sem koma á móti þörfum þeirra og ákvörðunarrétti til sóknar sem hafa krókaveiðar að aðalatvinnu.
    Herra forseti. Ég hef nokkrum sinnum lýst því hvílík hörmung það er fyrir sjómenn og útgerðir að verða að henda veiddum fiski aftur í hafið. Ég sagði áðan að hæstv. sjútvrh. hefði þagað þunnu hljóði og ekki svarað spurningum, hvorki á síðasta þingi né þinginu 1993 sem til hans var beint um þetta efni, heldur sendi hann skósvein sinn, hv. 5. þm. Norðurl. v. til að segja eitthvað um þetta alvarlega mál. En ég verð þó að viðurkenna að nokkuð hefur breyst undanfarið ár því að hæstv. ráðherra hefur m.a. á fiskiþingi viðurkennt að um grafalvarlegt mál sé að ræða, enda er hann einnig æðsti maður grafarmála.
    Herra forseti. Hverjar eru svo aðgerðirnar sem gripið hefur verið til? Á vordögum leigðu fiskistofumenn sér Sómabát og þeir þóttust vera við veiðar og þeir njósnuðu um sjómenn sem vegna kvótakerfisins eða laga um stjórn fiskveiða urðu að henda fiski í sjóinn, þeir urðu að henda fiski í sjóinn, annars var þeim refsað. Ég segi að leiguliðasægreifakerfið er með þessum ágöllum að það neyðir menn til að koma ekki að landi nema með verðmætasta aflann og þetta eru hreinlega einfaldar og ómótmælalegar staðreyndir. Og það eru einnig ómótmælanlegar staðreyndir að það er alls ekkert sem liggur fyrir í þessum tillögum sem hér eru til umfjöllunar til lagfæringar á þessum ósóma.
    Herra forseti. Það er ekki nóg að tala bara um það sem að er. Ég vil því beina orðum mínum að því sem ég tel að sé unnt að gera til bóta og ég vil biðja hæstv. sjútvrh. að hlýða á það sem ég ætla að reyna að setja fram í þessu sem hugmyndir og taka til athugunar.
    Ég tel að það eigi að verðmætatengja allar fiskveiðiheimildir. Það á að meta þessi 450 þús. tonna þorskígildi til fjármuna fyrir fram og það á að gera það að skilyrði að tekjuöflun ríkisins yrði t.d. 4,5 milljarðar af þessum úthlutuðu verðmætum. Ég tel að þessi tekjuöflun gæti létt verulega skattbyrði borgaranna sem nú eru að sögn margra sjálfstæðismanna þrautpíndir. Þessi tekjuöflun í ríkissjóð gæti bætt stöðu rannsókna á lífríki hafsins, en þegar á hólminn kemur gera menn ekkert í því. Ég segi það að ef úthlutun afla eða veiðiheimilda væri verðmætatengd, þ.e. heimild til að fiska fyrir ákveðið margar krónur, þá kæmi allur fiskur á land, ekki eingöngu sá verðmætasti. Og ég spyr þá: Hvað vinnst með þessu? Ég segi það að fiskverndun yrði raunveruleg. Það kæmi allur heimilaður afli á land. Það yrði miklu meiri verðmætasköpun. Það yrði miklu meiri festa og stöðugleiki hvað varðar fiskverð og það er klárt mál að veiðistofninn mundi byggjast upp allt að helmingi hraðar. Ég tel að framsal og brask með veiðiheimildir mundu takmarkast mjög eða verða úr sögunni. Ákvæðið um sameign þjóðarinnar í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna yrði raunverulegt. Og ég er sannfærður um það að hagkvæmni veiðanna yrði miklu meiri og þá gætu menn e.t.v. náð hámarksafrakstri af auðlindinni sem menn hafa verið að ræða um og dreymt um.
    Herra forseti. Ég nefndi stöðugleika, ég nefndi verðmætasköpun og ég nefndi margt fleira. Reyndar má segja að það sem sætt hefur mestu ámæli í þessu stjórnarkerfi sem við höfum búið við, þ.e. kvótabraskið, hyrfi því að það yrði afmarkað að þær útgerðir sem ekki gætu náð sínum úthlutuðu verðmætum gætu ekki framselt þær. Mér er ljóst að það er ekki unnt að lækna núverandi heimildakerfi á svipstundu, en hugtakið ,,verðmæti í stað tonna`` gæti skipt mjög miklu. Þessi breyting krefðist meiri sveigjanleika en núverandi kerfi býður upp á því að 450 þús. tonna þorskígildin eru sett saman úr mörgum fisktegundum og það mundi krefjast allt að 20% sveigjanleika milli fisktegunda í verðmætakerfi ef tilgangurinn sem er að vernda fiskstofnana og að allur afli komi á land á að nást.
    Ég er líka sannfærður um að það eru margir sem munu rísa gegn þessum hugmyndum. En það er líka mín trú að með varfærni sé unnt að ná meiri og betri samstöðu um stjórn fiskveiða innan svona kerfis. Menn munu auðvitað benda á að útgerð og fiskverkandi geti í upphafi vertíðar samið um hversu mörgum tonnum útgerðin á að skila í land fyrir t.d. úthlutaðar milljónir til báts eða skips og að unnt verði að stinga undan eins og gert er frá hlutaskiptum þegar tonn á móti tonni er fiskað.
    Í ljósi reynslunnar og þess sem verkfall sjómanna sem nú stendur yfir byggist á, þá tel ég að það sé ekki þörf að hafa stórar áhyggjur af undanskotsleiðum þó að ávallt megi reikna með því að reynt verði að finna smugur því að það er jú þjóðaríþróttin. Auðvitað er hægt að hafa nýtingarprósentu til viðmiðunar fyrir hverja fisktegund. Það er vel þekkt og þess vegna er óþarfi annað en að bera saman innveginn afla og vinnsluskýrslur hvers dags fyrir sig, þá muni koma í ljós hvort um framhjáskot er að ræða. Það er líka vitað að hvert þorskígildistonn skilar um 150 þús. kr. verðmætum í gegnum vinnslu og einhver slík viðmiðun gæti verið notuð við ákvörðun verðmætatengingar.
    Herra forseti. Mér er ljóst að það er endalaust hægt að finna mótbárur gegn breytingum. En þessari hugmynd er fyrst og fremst komið á framfæri til að reyna að koma í veg fyrir að 80--110 þús. tonnum af veiddum fiski af öllum fisktegundum sé fleygt aftur dauðum í sjóinn. Ég er að reyna að koma á framfæri nýju viðhorfi varðandi stjórn fiskveiða eða fiskverndun.
    Ég nefndi aukna verðmætasköpun með verðmætatengingu. Með hæfilegum sveigjanleika mundi allur veiddur fiskur koma á land. Það er ljóst að tonnin yrðu fleiri. Vinnsla smáfisks færi aftur af stað en hún

lagðist af þegar allur smáfiskur var felldur inn í kvóta og síðan, eins og ég sagði áðan, er enginn smáfiskur seldur á markaði.
    Það er tímabært, virðulegur forseti, að aðgreina flotann í úthafsveiðiflota, loðnu- og síldveiðiflota, rækjuveiðiskip fyrir úthafsveiðar og rækjubáta, smábáta og vertíðarbáta. Gagnvart kjarasamningum er mikil nauðsyn að koma slíkri flokkun á. E.t.v. væri rétt að koma á verðmætatengingu hjá vertíðar- og smábátum. Ég vil minna á það að öll okkar fullvinnsluskip gefa upp aflaverðmæti en ekki tonnafjölda og það hlýtur að vera unnt að gefa upp verðmæti upp úr sjó eins og eftir vinnslu. Munurinn er bara sá að allur afli báta sem á land kemur nýtist að fullu, en aflaúrgangi nær allra vinnsluskipa er fleygt aftur í sjó, þar með talinn of stór og smár fiskur sem ekki hentar í vinnsluvélar. Ég trúi ekki öðru heldur en menn vilji ljá máls á að skoða slíkar breytingar sem ég er hér að tala um. Ef ekki, þá felst það í því að menn vilja viðhalda þeirri eyðingarstefnu sem felst í að fleygja veiddum fiski aftur í sjóinn vegna stjórnunarkerfis sem ekki má hreyfa við.
    Ég hef ekki mikið talað um krókabáta og brottkastaðan fisk. En auðvitað getur komið að því að þegar takmarkanir gagnvart krókabátum fara fyrir alvöru að virka þá sjái menn að það er verið að gera þeim að koma aðeins með verðmætasta fiskinn að landi. Ef aflinn er ekki verðmætatengdur, þá gerist þetta á þennan veg. Það er þó kannski bót í máli að þeir einu sem ég held að geti sleppt veiddum lifandi fiski í sjóinn eru krókabátar.
    Ég gæti nefnt fjölmargt um það sem nauðsyn væri að gera varðandi stöðu fiskirannsókna og eftirlit. Það er t.d. algjör óhæfa að sá aðili sem fer með hrygningarrannsóknir á þorski á Hafró skuli þurfa að eyða 5/12 af árinu í að semja skýrslur og setja fram rök til að ná peningum til þessara rannsókna. Þetta tel ég að sé óhæfa.
    Ég held líka að það sé mjög slæmt hversu seint kerfið bregst við ýmsum ábendingum sjómanna, t.d. bréfi sem undirritað var af humarbátaskipstjórum fyrir fjórum árum um humarveiðislóðir sem væru að eyðileggjast á sóknarslóðum Suðurnesjabáta. Það voru engin viðbrögð við þessu bréfi humarbátaskipstjóranna fyrr en Sólmundur Einarsson fiskifræðingur skrifaði grein nú fyrir örskömmu síðan um eyðileggingu veiðislóðarinnar fyrir humar.
    Herra forseti. Ég held að það sé bráðnauðsynlegt að vekja athygli á því sem stendur í ritinu Vísbendingu og styður það mál sem ég var að flytja um verðmætatengingu og eðlilegan hlut til ríkisins af þeim verðmætum.
    Á árinu 1993--1994, ef þessi viðskipti væru metin á verðlagi þessa kvótaárs, þá væru viðskiptin í braskinu 9,4 milljarðar. Finnst mönnum þetta ekki alvarlegt? Finnst mönnum ekki alvarlegt að það skuli vera braskað á þessu ári fyrir 9,4 milljarða miðað við það magn sem fór milli manna 1993--1994? Viðskipti sem voru með varanlegan kvóta á kvótaárinu 1993--1994 voru 4 milljarðar röskir og ég vil benda mönnum á að líta á þessa grein sem fjallar um veltu í kvótaviðskiptum.
    Herra forseti. Ég viðurkenni það að ég fór nokkuð langt frá því frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Ég viðurkenni það að menn standa frammi fyrir miklum vanda þegar þeir ætla að leysa slík mál sem þessi á örskömmum tíma. Það verður handarbakavinna út úr því. Ég held að það væri réttast að fresta öllum breytingum á framkvæmd þessara laga til haustsins og að menn gæfu sér tíma og næðu sáttum, ekki einvörðungu við LÍÚ heldur við smáútgerðarmenn, smábátakarla, og þá sem eru í útgerð víðs vegar um landið til þess að bærileg sátt geti ríkt um stjórnun fiskveiða.
    Herra forseti. Ég hef í nokkrum orðum talað um hvernig fiskveiðistjórnunin hefur brugðist. Ég er hér með safn greina sem ég gæti endalaust lesið upp þar sem talað er um að færa allan fiskinn á land. Þarf meiri ofstjórn af fyllsta ábyrgðarleysi? Ég gæti vitnað í greinar þar sem hv. þingmenn af Vestfjörðum segja: Við getum ekki, munum ekki og viljum ekki, eftirminnilegar greinar. Rétt væri að vitna í grein úr Morgunblaðinu ritaða af hv. þm. Kristjáni Pálssyni og væri gaman að bera hana saman við frv. til laga sem hér liggur fyrir, hvað er sammerkt með þeim hugmyndum sem hv. þm. var með og því sem hér er fyrir okkur á borðunum.
    Herra forseti. Ég hefði viljað beina einni spurningu til viðbótar til hæstv. sjútvrh. Er unnt að fá hann í salinn að nýju? Á meðan er rétt að vitna í greinar frá hv. 1. þm. Vestf. þar sem hann krefst tafarlausrar breytingar á fiskveiðistjórnuninni. Ekki liggur það fyrir hér, herra forseti. Rétt á meðan verið er að bíða eftir hæstv. sjútvrh. í salinn.
    ( Forseti (GÁS): Forseti vill láta þess getið að það er verið að gera ráðstafanir til þess að fá hæstv. sjútvrh. í sal.)
    Þá er rétt, með leyfi forseta, að vitna í orðaskipti sem eru í ljósvakahandriti frá 18. apríl 1995 frá Ríkisútvarpinu/sjónvarpi. Þar er verið að ræða við hæstv. forsrh. og kemur fram að Einar Kristinn Guðfinnsson, hv. 1. þm. Vestf., hafi sagt að hann vilji sjá breytingar á fiskveiðistjórnun og fiskveiðistefnu. Þá segir hæstv. forsrh. að hann haldi að hann sé ekki að tala þar um grundvallarbreytingar á þessu stigi máls. Herra forseti. Það er með ólíkindum hvað menn leyfa sér að segja fyrir kosningar og hvað kemur svo fram þegar verið er að ræða um málin.
    Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að koma í salinn. Ég vil spyrja hann til viðbótar þeim fjórum spurningum sem ég lagði fyrir hann: Telur hæstv. sjútvrh. að unnt sé að koma á verðmætatengingu við úthlutun aflaheimilda á einhverjum slíkum grundvelli sem ég var að reyna að fjalla um mest í mínu máli?