Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:02:33 (554)


[22:02]
     Kristján Pálsson :
    Herra forseti. Umræða um stjórn fiskveiða er tímafrek eins og gefur að skilja þar sem um mesta hagsmunamál þjóðarinnar er að ræða og skiljanlegt að menn hafi skiptar skoðanir. Þær umræður sem hér hafa farið fram eru að mörgu leyti keimlíkar þeim sem fóru fram við 1. umr. frv. Ég hygg að allir þeir sem mæltu hér þá hafi kannski ekki séð allt það rætast í þessu frv. sem þeir óskuðu eftir. Ég er einn af þeim sem lögðu mjög mikla áherslu á það við 1. umr. frv. að lending hv. sjútvn. yrði sú að róðrardagakerfi væri sá kostur sem menn fyndu út að væri fær. Því miður hefur í meðförum nefndarinnar ekki náðst fram sú sannfæring sem menn töldu að væri til fyrir því að menn gætu farið þá leið. Ég verð að lýsa því yfir að ég harma það að það skyldi ekki hafa tekist og lýsi því yfir að að mínu viti sé mjög erfitt og, svo ég segi ekki hættulegt, að fara með stóran hluta af smábátunum inn í svokallað banndagakerfi.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þm. Vestf., Guðjóni A. Kristjánssyni, þegar hann lýsti því yfir að miðað við það blað sem liggur hér fyrir um banndaga sé út af fyrir sig hægt að sjá að hægt væri að nota kerfið fram að áramótum eða jafnvel fram að mánaðamótunum janúar/febrúar. Eftir það má segja að kerfið sé svo þétt að verið sé að bjóða mönnum upp á það að róa jafnvel einn dag í viku. Það er t.d.

verið að tala um það að í febrúar megi róa í vikunni 18.--24. bara á mánudeginum 19. Í mars er t.d. í fyrstu vikunni einungis leyft að veiða einn dag og það er mánudaginn 4. Ég hef aldrei getað skilið það hvernig Alþingi getur ákveðið það fyrir sjómenn hvenær þeir eiga að fara á sjó, hvort þeir eiga að fara á sjó á mánudegi eða þriðjudegi algjörlega óháð því hvernig veður er eða hvernig aðstæður eru að öðru leyti. Þess vegna held ég og tek undir með öllum þeim sem hafa gagnrýnt þetta banndagakerfi að það er nánast óverjandi, hefur verið það og verður enn frekar með þessum auknu banndögum sem núna eru. Ég held að þeir þingmenn sem samþykktu þetta á sínum tíma hafi kannski aldrei gert sér grein fyrir því hvernig þessi þróun gæti orðið. Þess vegna verð ég að taka undir með þeim mönnum sem hafa miklar áhyggjur af því ef þetta kerfi mundi ganga veturinn.
    Ég lýsi því aftur á móti yfir að ég treysti sjútvrh. og hans orðum um að hann af fullum heilindum mundi vinna að því að róðrardagakerfi yrði komið á og það yrði ekki neinn dráttur af því af hans hálfu. Við sem höfum kannað þá leið erum búnir að sjá að það á ekki að þurfa að taka svo langan tíma að koma þessu kerfi fyrir ef menn setja í það mannafla og peninga. Ég er sannfærður um það að við eigum að geta gert þetta fyrir þann tíma sem ég hef lýst hér.
    Hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, mærði mig og fleiri þingmenn áðan og las upp úr greinum sem skrifaðar voru í kosningabaráttunni. Hann er að biðja mig um að útskýra stefnu Framsfl. í sjávarútvegsmálum eða tillögur framsóknarmenna í Reykjanesi. Að sjálfsögðu getur þingmaður ekki ætlast til þess að ég sé að skýra út fyrir honum hverjar tillögur framsóknarmanna eru, þeir eru á þingi til þess að útskýra sínar eigin tillögur og þeir hljóta að standa undir þeim brýningum þar til sú skýring kemur sem hv. 15. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, telur gilda. Þó svo að slegið hafi í brýnu með okkur framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum í kosningabaráttunni þá er ekki þar með sagt að við getum ekki samræmt okkar sjávarútvegsstefnur þegar kemur að því að vinna saman í ríkisstjórn. Ég ber fullt traust til framsóknarmanna í þessu samstarfi og vil bara minna á það að þrátt fyrir að menn hafi greint á í þessu máli í báðum þingflokkum þá verður það að sjálfsögðu endirinn að við náum þeirri lendingu sem allir --- og ég tek fram allir, í þingflokkum beggja flokkanna eru sammála um að stýra þessu sjávarútvegskerfi þannig að krókabátum, trillukörlum og öllum þeim sem í kerfinu þurfa að vinna stafi sem minnst hætta af og náttúrlega að sem bestur árangur náist af þeirra störfum.
    Ég ætla ekki að tala mjög mikið um þau atriði sem eru annars staðar í frv., ég hef áður gert það í þeim umræðum sem hafa farið fram, en ég vil ítreka þá skoðun mína að þetta mál allt saman kemur inn á stutt vorþing en er gríðarlega viðamikið mál og skiptir afkomu þúsunda manna mjög miklu máli. Þess vegna hefði ég óskað þess að þetta mál hefði fengið meiri tíma og hefði kannski frekar átt heima í umræðu á haustþingi eða þegar menn hefðu meiri tíma til að skoða alla þá hugsanlegu möguleika sem eru í stöðunni þannig að við þyrftum ekki að standa uppi með einhvers konar bráðabirgðakerfi. Ég velti því fyrir mér á milli umræðna hvort hægt sé með einhverju móti að koma því inn í hvernig menn muni vinna að framtíðarlausn í sumar þannig að menn geti kynnt hana þegar haustþing byrjar þegar væntanlega verður aftur umræða um sjávarútvegsmál sem munu alltaf verða þau mál sem heitast brenna á landsmönnum. Þetta eru þau mál sem íslenskir alþingismenn ráða alfarið hvernig eru þróuð. Þetta er ekkert EES-mál sem kemur utan úr heimi, þetta er okkar mál. Þess vegna er svo afskaplega mikilvægt að að þessum málum sé þannig staðið að sátt sé um þau í þjóðfélaginu og allir þingmenn geti verið sannfærðir um að rétt sé að þeim staðið.