Stjórn fiskveiða

16. fundur
Fimmtudaginn 08. júní 1995, kl. 22:25:53 (556)


[22:25]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta hefur verið nokkuð athyglisverð umræða sem hér hefur farið fram svo sem vænta mátti. Sérstaklega tel ég athyglisverðar ýmsar ræður sem stjórnarsinnar, stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar, hafa flutt hér. Ég á þar til að mynda við ræður eins og þær sem fluttar voru hér af hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Vestf. og hv. 10. þm. Reykn., Kristjáni Pálssyni, þar sem lýst var miklum og afdráttarlausum stuðningi við það að fiskveiðistjórnun gagnvart krókaleyfisbátum ætti að byggja á róðrardagakerfi.
    Hv. 10. þm. Reykn. gekk svo langt að harma það að sjútvn. hefði ekki náð að lenda því máli með sameiginlegri niðurstöðu, leggja það til hér og lögfesta það. Ég vil segja við hv. 10. þm. Reykn. að það strandar ekki á sjútvn. í þeim efnum sem slíkri, sem stofnun, að vinna það verk ef vilji er til þess og meiri hluti er fyrir því hér. Við skulum ekki láta það slys henda að við afgreiðum eitthvað annað en það sem meiri hlutinn á Alþingi vill. Við skulum ekki gera það. Þannig að ef það er svo útbreiddur stuðningur meðal stjórnarþingmanna við það að hér verði tekið upp og lögfest róðrardagakerfi strax þá skulum við gera það því stjórnarandstaðan sameiginlega leggur það til. Það er ekki hægt að láta þessa umræðu ganga þannig til og henni ljúka þannig að allmargir stjórnarþingmenn komi upp og lýsi stuðningi við þetta mál, sumir gangi svo langt að harma að sjútvn. skuli ekki hafa náð saman um að leggja það til án þess að farið sé í að kanna hver er hinn raunverulegi vilji meiri hluta Alþingis. Og raunverulegur vilji meiri hluta Alþingis á ekki að stjórnast af tillitssemi við einhvern einstakan hæstv. ráðherra þó ég sé ekkert að lasta það að menn sýni ráðherrum nærgætni að breyttu breytanda. Þeir eru auðvitað mannlegar verur eins og aðrir og eiga skilið sinn skammt af hlýju og nærgætni en æskilegt er að þeir hafi þann skráp að þeir þoli það sem starfinu fylgir. Auðvitað er það það sem þingræðið snýst um að vilji meiri hlutans nái fram að ganga og ef það er meirihlutastuðningur við það hér á þingi að taka upp róðrardagakerfi nú, lögfesta það og reikna með að á grundvelli þess verði sókn krókaveiðibáta stýrt frá og með haustinu, eða þess vegna frá og með áramótum, þá er það það sem á að gera.
    Hæstv. forseti. Ég vil þess vegna í framhaldi af þessum ræðum og orðaskiptum hér láta það koma alveg skýrt fram að það er vilji til þess af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni að vinna þetta mál áfram. Okkur er það væntanlega ekki fast í hendi að halda til streitu tillögu okkar við atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. málsins. Ég mundi þá leggja það til að við byðum upp á það til að auðvelda frekari vinnu í málinu að draga þá tillögu til baka þannig að ekki komi til þess að hún verði felld í atkvæðagreiðslu ef fyrirkomulag af þessu tagi er raunverulega það sem menn vilja þannig að það þvælist þá ekki fyrir mönnum að búið að sé fella slíka tillögu áður. Það má þá kalla hana aftur eins og sagt er til 3. umr. Æskilegt væri að mörgu leyti að meiri hlutinn gerði þá slíkt hið sama með þann þátt sinna brtt. sem lýtur að sama atriði og menn gætu skoðað það betur yfir helgina hvort hér er raunverulegur meiri hluti og meirihlutavilji til þess að ganga í það að lögfesta breytingar af þessu tagi.
    Það eina sem mér sýnist vera hugsanlega óútkljáð og eitthvert vandamál í þessu sambandi er spurningin um eftirlitsþáttinn. Auðvitað látum við ekki málið verða úti hér, lenda í einhverri útideilu út af því einu heldur göngum þá frá því þannig að það sé skilyrt gildistökuákvæði eða heimild til frestunar eða einhver annar slíkur frágangur sem fullnægir málinu.
    Mér finnst þetta, hæstv. forseti, ekki ásættanleg niðurstaða út úr umræðunni eftir þann mikla stuðning sem kom fram við þetta í 1. umr. og þegar það svo gerist hér þrátt fyrir brtt. og nál. meiri hlutans að fjölmargir stjórnarþingmenn lýsa stuðningi við þetta sama fyrirkomulag að afgreiða þá málið við þær aðstæður, eins og nú horfir til, að brtt. minni hlutans um róðrardagakerfið verði þá væntanlega felld og málinu lokið á grundvelli tillögu meiri hlutans sem ekki virðist vera nein ánægja með og jafnvel minnihlutastuðningur standa á bak við. Það eru ekki vinnubrögð, ekki efnisleg niðurstaða af því tagi sem við getum látið menn horfa upp á eða horfa framan í. Vitandi svo af þeim afleiðingum sem menn hafa bent á og dregið upp af því banndagakerfið sem þá tekur við og verður hlutskipti manna að sækja eftir, enginn veit í raun og veru hve lengi, hve stóran hluta næsta fiskveiðiárs eða jafnvel allt næsta fiskveiðiár.
    Hæstv. forseti. Ég vil því láta þetta koma hér fram. Við sem minni hlutann skipum höfum út af fyrir sig ekki rætt það en ég leyfi mér að trúa því að um það gæti orðið fullkomin samstaða af okkar hálfu að draga þessar brtt. okkar til baka og bjóða upp á það að nefndin starfaði áfram að málinu, t.d. yfir helgina. Ég vil ekki láta sjútvn. liggja óbætta hjá garði sem slíka, að það sé vegna þess að hún hafi ekki klárað þetta verkefni að málið sé ekki í þeim búningi sem menn geti afgreitt eins og ráða mátti til að mynda af ræðu hv. 10. þm. Reykn., Kristjáns Pálssonar. Það er misskilningur hjá þeim hv. þm. að málið strandi þar, þar sé flöskuhálsinn eða erfiðleikarnir liggi þar. Þeir liggja frekar í hinu, því miður, enn sem komið er, að þrátt fyrir fögur orð og mikinn vilja margra stjórnarþingmanna þá hafa menn einhvern veginn ekki náð utan um það að láta hann birtast í verki í stuðningi við og afgreiðslu á róðrardagakerfi ef það er vilji manna.
    Kannski yrðu menn með einhverjum hætti að mætast í málamiðlun og að niðurstaðan yrði lögfesting valkosta en þar sem þó a.m.k. róðrardagakerfið, útfært og lögfest, væri annar helmingurinn en ekki það sambland sem hér er á ferðinni samkvæmt tillögum meiri hlutans.
    Að öðru leyti, herra forseti, ætla ég ekki að blanda mér í sjálfu sér í þá að mörgu leyti ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og orðaskipti stjórnarandstæðinga og stjórnarsinna. Eðli málsins samkvæmt þá hafa orð og yfirlýsingar manna í kosningabaráttunni nokkuð verið dregin inn í umræðuna og allt í lagi með það. En ég kýs að halda mig við efnisþætti málsins sem hér liggja til afgreiðslu, tel að hv. 15. þm. Reykv. hafi gert hinum þættinum fullnægjandi skil í orðaskiptum sínum við hv. þm., ekki síst þingmenn Reyknesinga og Vestfirðinga og þar verði svo sem engu við bætt.
    Að þessu leytinu til þá tel ég ástæðu til að málin lægju skýrar fyrir en þau gera enn þá og það geti ekki verið boðlegur grundvöllur afgreiðslu málsins að menn hafi fallið á tíma við að ljúka mikilvægu verkefni eins og því að fræða endanlega upp og setja í búning efnislega samstöðu sem liggi í loftinu um mál af þessu tagi. Það eru bara ekki boðleg vinnubrögð, það er ekki boðleg frammistaða af okkar hálfu sem löggjafa að ætla að ljúka málinu þannig og þvo hendur okkar með einhverjum slíkum hætti eða bera fyrir okkur tillitssemi við hæstv. ráðherra. Ég held að hæstv. ráðherra sé að sjálfsögðu ekkert að vanbúnaði að sæta niðurstöðu meirihlutavilja Alþingis frekar en annarra manna í landinu. Það er einu sinni svo að þegnum landsins er ætlað að búa við það sem er vilji meiri hluta löggjafans, ekki satt? Hverjum og einum og öllum í senn og þar með talið einnig hæstv. ráðherra. Þeim er ekki vandara um en til að mynda þolendunum, í þessu tilviki smábátasjómönnum, eða hvað? Það held ég ekki.
    Herra forseti. Ég lýsi þessum sjónarmiðum og áskil okkur rétt til þess að haga okkar framgöngu í málinu með hliðsjón af þessu án þess að um það þurfi að taka ákvörðun hér og nú hvort við köllum okkar brtt. til baka. Ef þannig er í pottinn búið og það er að verða ljóst í þessari umræðu eða eftir hana að landið liggi öðruvísi en við ætluðum þegar niðurstaða virtist fengin í það að ekki gæti orðið samkomulag um afgreiðslu málsins frá sjútvn. og meiri hlutinn treysti sér ekki til að víkja frá efni upphaflega frv. í frekari mæli en brtt. bera með sér, ef annað er uppi á teningnum, ef annað er mögulegt, ef hægt er að þræða hér upp, ganga frá og setja í búning efnislega samstöðu um þetta róðrardagakerfi sem virðist liggja í loftinu og hlýtur að verða niðurstaða manna af því að hafa fylgst með umræðunum þá ber auðvitað að gera það.