Framhald umræðu um húsnæðismál

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:24:56 (636)


[12:24]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Því oftar sem hæstv. félmrh. kemur hér í ræðustól þeim mun brýnni verður þörfin fyrir áframhaldandi umræðu um þetta mál. Og ef hæstv. ráðherra telur að hann sleppi við umræðuna utan dagskrár á mánudaginn með því að lýsa því yfir að hann ætli ekki að afnema húsbréfakerfið, þá er það mesti misskilningur. Síðustu orð ráðherra kalla enn frekar á umræðu um þetta mál og ég mun gera kröfu til þess að hæstv. ráðherra geri þinginu nákvæmlega grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna 70% lánshlutfall í húsbréfakerfinu og einnig hvernig hann ætlar að skilgreina þessi fyrstuíbúðarkaup. Það er því ýmsu ósvarað við þessa umræðu þannig að ég ítreka óskir mínar um áframhald á þessari umræðu nk. mánudag.