Atvinnuleysistryggingar

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 12:50:18 (639)


[12:50]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að á síðasta kjörtímabili var flutt frv. til laga um rétt þeirra sem hafa ekki atvinnu. Þetta var frv. sem var flutt af öllum þingmönnum Alþb. Mjög mikil vinna var lögð í frv. og m.a. voru kallaðir til forustumenn í verkalýðshreyfingunni, fólk úr stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og fleiri. Þarna voru gerðar breytingartillögur við þrenn lög:
    1. Lög um Atvinnuleysistryggingasjóð.
    2. Lög um vinnumiðlun.
    3. Lagaákvæði um vinnumálaskrifstofu félmrn.
    Grundvallarhugsun þessa frv. var sú að rétturinn til atvinnuleysisbóta væri almennur réttur og að hann kæmi til viðbótar við þann rétt sem lögin um atvinnuleysistryggingar kveða á um. Mér fannst það koma aðeins fram í máli hv. frsm. og hæstv. félmrh. að það væri nauðsynlegt að umsteypa lögunum eins og þau eru núna. Ég skil þá hugsun í sjálfu sér vel vegna þess að það væri til einföldunar en ég vara við því að menn reyni að umsteypa lögunum vegna þess að þá rekast menn á viðhorf í þessu máli sem er mjög erfitt að eiga við, þ.e. þeirra sem stóðu að stofnun Atvinnuleysistryggingasjóðs eftir verkfallið 1955, sex vikna verkfall, þar sem menn höfðu það eitt upp úr krafsinu að það var stofnaður Atvinnuleysistryggingasjóður. Og þar af leiðandi er það svo, svo undarlegt sem það kann að hljóma, að aðildarfélög Alþýðusambandsins hafi talið sig, mér liggur við að segja, eiga Atvinnuleysistryggingasjóð.
    Ég held að menn þurfi sem sagt bæði að gera sér grein fyrir þessu viðhorfi, en um leið að slá því alveg föstu að réttur til atvinnuleysisbóta á að vera almennur réttur til handa öllum þeim sem eru að leita að vinnu hvar svo sem þeir hafa verið í félagi eða ekki í félagi. Þá er ég t.d. að tala um námsmennina, fólkið sem er að útskrifast úr háskólum og gengur atvinnulaust og fær engar bætur af því að það hefur aldrei verið í neinu félagi. Og það er náttúrlega alveg svakalegt að það skuli vera þannig á Íslandi árið 1995 að fjöldinn allur af fólki engar atvinnuleysisbætur. Það er fjöldinn allur af fólki sem fær engar atvinnuleysisbætur. Það er fólk sem er vísað út úr þjóðfélaginu af því að það á hvergi höfði sínu að halla af því að þetta fólk á margt mjög erfitt með að fara til félagsmálastofnananna og biðja þar um stuðning.
    Ég held að það væri fróðlegt að fara aðeins yfir þetta mál, m.a. samspil atvinnuleysistrygginga og félagsmálastofnananna og ég get sagt það í tilefni af þessari tillögu að mér finnst sjálfsagt að taka málið upp í heillegu samhengi, en ég verð að segja alveg eins og er að þó að ég sé ekki langrækinn gagnvart afstöðu manna til þingmála þá var ótrúlegt skilningsleysi síðustu ríkisstjórnar á þessum málum. Hrokinn og yfirgangurinn sem kom fram þá hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi t.d. þetta frv. um atvinnuleysistryggingar sem við futtum var engu líkt. Ég hvet þess vegna til þess að menn reyni að taka á vandanum eins og hann á skilið að við nálgumst hann, þ.e. út frá því að atvinnuleysisvandinn hittir lifandi fólk og atvinnuleysisvandinn verður til vegna ákvarðana sem við höfum tekið, af því að við höfum ákveðið að búa við þjóðfélag þar sem getur orðið atvinnueysi. Þess vegna berum við á þessu ábyrgðina en ekki sá einstaklingur einn sem í því lendir. Og það er grundvallaratriði að menn horfi þannig á þessa hluti.

    Að síðustu varðandi þetta mál, án þess að orðlengja það frekar, ég gæti farið mjög ítarlega yfir það en ætla ekki að gera það, en ég vil segja út af orðum hæstv. félmrh. Það sem ég vildi aðeins nefna varðandi endurskoðun laganna, án þess að ég vilji trufla hæstv. ráðherra, eru aðeins nokkur orð sem ég vil koma þar að og það er: Ég fagna því að hann ætlar að hafa samráð við stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það þýðir að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar koma þar að, en ég bendi á að eins og stjórnskipan sjóðsins er þá verður í henni aðeins einn fulltrúi frá stjórnarandstöðuflokkunum á Alþingi eins og þeir eru núna skipaðir. Og ég vil bara halda því til haga að það er um að ræða það mikilvægt mannréttinda- og grundvallarmál að ég held að það væri skynsamlegt að kalla þarna fleiri en færri til að þessu verki, bæði faglega og pólitískt, og skora á hæstv. ráðherra, þó að hann hafi komið með óþýtt frv. frá krötunum úr síðustu ríkisstjórn, að temja sér ekki þau vinnubrögð alltaf við skipun allra nefnda að það séu bara menn úr stjórnarflokkunum sem koma að þeim verkum sem á að vinna.