Atvinnuleysistryggingar

19. fundur
Laugardaginn 10. júní 1995, kl. 13:03:57 (641)


[13:03]
     Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég stend upp til þess að þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál. Það er skilningur á því að það þurfi að taka á þessu máli og skoða það í heild sinni og ég vil sérstaklega þakka hæstv. félmrh. sem kom í ræðustólinn og lýsti því yfir að hann tæki undir að það þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á lögunum um atvinnuleysistryggingar. Ef ég skildi orð ráðherrans rétt þá hefur hann fullan hug á því að taka á málum þeirra sem standa utan við Atvinnuleysistryggingasjóð og hafa ekki bætur eins og námsmenn og fleiri sem ég held að sé mjög mikilvægt. Auðvitað tek ég undir það með ráðherranum að við megum aldrei setja okkur í þær stellingar að vera að undirbúa okkur undir mjög langvarandi atvinnuleysi. Ég get vissulega tekið undir það. Engu að síður kallar það 4--5% atvinnuleysi sem við búum við í dag og höfum búið við á umliðnum árum á það að við förum í heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar og skoðum málin í heild sinni eins og síðasti hv. ræðumaður sagði og á það bæði við um tryggingakerfið og um framfærsluaðstoðina gegnum sveitarfélögin sem ég held að sé mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Ég hygg að það séu mörg sveitarfélög sem hafa ekki sett sér reglur um framfærsluaðstoð við sína íbúa. Það séu einungis stærstu sveitarfélögin og sé mikil brotalöm á því að smærri sveitarfélög hafi gert það. Það þarf vissulega að fara ofan í það að skilgreina hverjir eiga að teljast atvinnulausir og á atvinnuleysisbótum. Og hvort við þurfum þá ekki að skoða líka tryggingakerfið í ljósi atvinnuleysis vegna þess að ég hygg að það séu margir sem raunverulega eru óvinnufærir, eru á atvinnuleysisbótum en ættu kannski frekar að vera í tryggingakerfinu.
    Þannig þarf að fara í heild yfir þetta mál. En ég skil það svo að ráðherrann ætli nú að skipa nefnd til þess að fara ofan í heildarendurskoðun á lögunum um atvinnuleysistryggingar og þá stendur einungis það eftir sem bæði ég, síðasti ræðumaður og hv. 8. þm. Reykv. vorum nokkuð að kalla eftir, þ.e. spurningin um að hafa samráð um þetta mál við stjórnarandstöðu þannig að hún fái aðild að þessu starfi. Hér er um svo viðamikið starf að ræða og vandmeðfarið að ég held að það sé mjög mikilvægt að breið sátt náist um þetta mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er mín spurning hvort ráðherrann muni sjá til þess að stjórnarandstaðan komi á einhvern hátt að þessu máli.