Fyrirvari í nefndaráliti

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 15:13:46 (668)


[15:13]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það eru nýjar fréttir fyrir mig að einn af þingmönnum meiri hlutans í sjútvn. hafi ætlað að standa að nefndaráliti meiri hlutans með fyrirvara. Ég get ekki annað sagt en það að ég varð aldrei var við annað í umfjöllun nefndarinnar né heldur þegar okkur voru kynntar brtt. meiri hlutans og drög að nefndaráliti en að því stæðu allir fulltrúar meiri hlutans í sjútvn. og það er væntanlega ástæðan fyrir því að þingskjalið er svona prentað og úr garði gert og það sama á við ágætan og samviskusaman starfsmann sjútvn. að honum hefur ekki verið annað ljóst en að meiri hlutinn stæði sameiginlega að þessum pappírum, bæði nefndaráliti og breytingartillögum, án fyrirvara. Hitt er ljóst að hv. þm. hefur lýst ýmsum sjónarmiðum í málinu og fyrirvörum varðandi einstaka þætti í umræðum við 1. og 2. umr., en það er allt annar hlutur heldur en að fram komi í þingnefnd að einhver nefndarmanna undirriti nefndarálit með fyrirvara, með formlegum nefndarálitsfyrirvara. Sé það afstaða hv. þm. að hann

sé með skilyrtan stuðning við breytingartillögur og nefndarálit meiri hlutans er augljóslega nauðsynlegt að prenta þingskjalið upp aftur og ég sé ekki að það sé verjandi að láta atkvæðagreiðslu fara fram fyrr en rétt þingskjöl liggja fyrir í málinu.
    Það er auðvitað mjög bagalegt og slæmt að þetta skyldi ekki liggja fyrir strax við upphaf umræðunnar og enn betra ef það hefði komið fram með réttum hætti í nefndinni. En þarna hafa orðið einhver mistök sem e.t.v. skýrist af því að hv. þm. er nýr á þingi og hefur ekki áttað sig á því að nauðsynlegt er að gera grein fyrir því í þingnefnd ef um slíkar aðstæður er að ræða.
    En ég fullyrði að við sem stóðum að því að undirbúa afgreiðslu málsins út úr sjútvn. höfðum ekki áttað okkur á því, ekki haft neinar upplýsingar um annað en það að allur meiri hlutinn stæði sameiginlega að nál. Ég beini því til hæstv. forseta sem að sjálfsögðu verður að fella úrskurð um það hvað rétt sé að gera, en sjálfum þykir mér eðlilegast að atkvæðagreiðslunni sé frestað þangað til rétt þingskjöl liggja þá fyrir í málinu.