Stjórn fiskveiða

20. fundur
Mánudaginn 12. júní 1995, kl. 16:11:38 (703)


[16:11]
     Svanfríður Jónasdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því hvað er hér verið að greiða atkvæði um. Í þessari brtt. minni hluta nefndarinnar er nákvæmlega sama hugsun og er í því ákvæði til bráðabirgða sem í frv. var, þ.e. sú hugsun að í lögunum um stjórn fiskveiða sé viðlagaákvæði sem unnt verði að beita ef upp komi þær aðstæður í sjávarplássi, sem ekki á sér aðra lífsbjörg en smábáta, að við þurfi að bregðast.
    Hér er hins vegar gerð sú tillaga að úthlutun þessara veiðiheimilda verði í höndum sjútvrh. eins og önnur úthlutun veiðiheimilda en verði ekki færð til Byggðastofnunar. Byggðastofnun er ekki aðili sem á að úthluta veiðiheimildum. Sú aðferð að ætla að setja úthlutun veiðiheimilda í hendur Byggðastofnunar er vísasti vegurinn til að skapa tortryggni og frekari deilur eða gagnrýni á fiskveiðistjórnunarkerfið. Ef menn eru að biðja um það þá er þetta upplögð aðferð. En ég vek athygli manna á því að stjórnsýsla í þessa veru getur leitt til pólitískrar úthlutunar, getur leitt til þess að hér verði til það sem menn hafa hingað til kallað sjóðasukk og það held ég að sé ekki sátt um fiskveiðistjórnun á Íslandi til framdráttar. Ég segi já.