Alþjóðaviðskiptastofnunin

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 14:07:55 (756)


[14:07]
     Jón Baldvin Hannibalsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í umræðum og staðfest var af skriflegum greinargerðum og munnlegum umsögnum Neytendasamtaka og viðskiptaaðila eru hinir samsettu tollar, verð- og magntollar stilltir svo háir að það var mat allra sem við var rætt að ekki yrði af innflutningi. Það er meginatriði þessa mikla frv. Hér er gerð brtt. sem kveður á um að magntolla í viðauka I skal lækka um 23% og verðtolla úr 30 í 20% á þeim tollum sem ákveðnir eru í viðeigandi köflum. Eins og sýnt hefur verið fram á eru útreikningar magntolla í frv. ekki byggðir á réttum forsendum, hvorki að því er varðar virkt innflutningsverð né innanlandsverð. Þrátt fyrir breytingar sem er gert ráð fyrir er ljóst að verð innfluttra afurða verður almennt séð hærra en innlendrar auk þess sem við bætast áhrif fjarlægðarverndar á bilinu frá 10--30%. Brtt. mundi samt sem áður tryggja að fyrstu skrefin yrðu stigin í þá átt að tryggja eitthvert aðhald gegnum samkeppni að einokunarkerfinu sem við búum nú við. Þess vegna segi ég já.