Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 18:56:11 (806)


[18:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég býst við að hv. þm. geti aflað sér upplýsinga betur utan þingfundarins um það sem hér hefur verið sagt en ég skal reyna enn einu sinni að endurtaka þetta.
    Í vaxandi mæli hafa vínveitingahús verið að kaupa í gegnum sérpöntunarþjónustu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Þetta eru fyrst og fremst léttvínstegundir, rauðvín og hvítvín til að mynda, sem keyptar eru beint frá framleiðanda og þær flöskur eru ekki, að mér er sagt, merktar ÁTVR heldur sérpöntunarþjónusta. Þetta er einn þáttur málsins.
    Síðan er hinn þátturinn sem var minnst á. Það er verið að gefa það í skyn, og því miður hafa starfsmenn ÁTVR gefið það í skyn, að ég sé að velja sýknt og heilagt fólk í nefndir sem hafi hag af því að leggja fyrirtækið niður en geta þess hvergi að í þeim nefndum sem fjallað hafa um þetta fyrirtæki hefur forstjórinn setið. Sá hinn sami forstjóri sem hefur traust mitt og hefur verið kallaður einn mikilvægasti

forstjóri í íslensku fyrirtæki af hálfu fyrrv. fjmrh. Mér finnst að með þessu sé verið að gefa í skyn að verið sé að ráðast að starfsfólkinu og fyrirtækinu sem auðvitað er ekki verið að gera eins og ég tel mig hafa sýnt hér fram á.
    Ég held að það sé ekki hægt, virðulegi forseti, að vera að skakast um þetta hérna. Hér er krafist svara. Þetta eru upplýsingar sem hv. þm. getur fengið væntanlega hjá fyrirtækinu þegar honum sýnist.